2. júl. 2014

Plástrar á efnahagslíkið

Nú koma fulltrúar fjármálakerfisins fram hver af öðrum og tilkynna að mín kynslóð og yngra fólk fái ekki að fara á eftirlaun fyrr en við verðum sjötug. Þetta er sama kynslóð og er nú þegar búið að drekkja í verðtryggðum húsnæðisbóluskuldum. Og kynslóðin sem mun borga af verðtryggðum námslánum til dauðadags.

Það er löngu orðið ljóst að við búum við efnahagslega ósjálfbært kerfi. Hver kynslóð þarf að ganga á höfuðstól eða lífsgæði þeirrar næstu til að halda kerfinu gangandi. Birtingarmyndin kemur t.d. fram í gríðarlegri skuldaaukning, verðtryggingu, verðbólgu, fasteignabólum, millifærslukerfum eins og vaxtabótum og nú með skerðingu lífeyrisréttinda. Auðræðið (e. plutocracy) sem stjórnar kerfinu er stöðugt að setja plástra á líkið.

Í skýrslu forsætisráðuneytisins um höfuðstólslækkun húsnæðislána segir: ,,Skuldaaukning heimila er alþjóðleg þróun þótt hún sé óvíða meiri en hér á landi. ... Í alþjóðlegum samanburði eru skuldir heimila hér á landi einna mestar hvort sem litið er til ráðstöfunartekna eða landsframleiðslu." Hér kann einhver að grípa á lofti að skuldir íslenskra heimila séu þó ekki nema ,,einna mestar" í alþjóðlegum samanburði. Það eru ein eða tvær aðrar þjóðir sem skulda meira per heimili. En þá er einungis hálf sagan sögð. Því eins og dr. Sigurður Hannesson, formaður sérfræðingahóps um skuldalækkun heimilanna, sagði í kynningu á tillögum hópsins, þá er það hár kostnaður við þessar skuldir sem setur íslensk heimili í algjöran sérflokk. Verðtryggðir vextir eru svo háir að íslensku almenningur er - á máli markaðarins - í ruslflokki. Þess vegna er verðtryggingin stærsti plásturinn.

Til marks um þetta má taka dæmi sem ég hef séð nefnd nýverið. Einn bar saman þrjú 15 milljóna krónu lán. Í fyrsta lagi verðtryggt lán til 40 ára með 4,7% vöxtum og 5% verðbólgu, í öðru lagi 40 ára óverðtryggt lán með 9,5% vöxtum og í þriðja lagi skandinavískt lán með 4% vöxtum. Heildargreiðsla af fyrsta láninu, hefðbundnu íslensku fasteignaláni, eru rúmar 103 milljónir, tæpar 44 milljónir af óverðtryggða láninu en rúmar 27 milljónir af skandínavíska láninu. Svo var það fjölskyldan sem hafði fest kaup á húsnæði í þremur löndum. Á Englandi var lánið borgað niður á sex og hálfu ári og í Kanada voru vextirnir enn lægri en á Englandi og lánið lækkaði um hver mánaðamót. Á Íslandi hafði lánið aftur á móti hækkað þrátt fyrir að fjölskyldan hafi borgað af því í sjö ár! Er nokkur furða að sá sem skrifaði hafi lýst íslenska fjármálakerfinu sem löglegri mafíustarfsemi.

Fjármálaráðherra hefur tekið undir áhyggjur af kostnaði almennings af þessum lánum: ,,Síðan er hægt að hafa skoðanir á einstaka lánsformum eins og til dæmis þessum 40 ára verðtryggðu lánum þar sem fólk er í raun ekki að borga neitt niður af höfðuðstólnum fyrr en eftir hálfan lánstímann og mér sýnist að það sé valkostur sem er á endanum gríðarlega kostnaðarsamur, gríðarlega dýr valkostur fyrir lántakendur og við ættum að skoða að losa okkur undan því lánsformi." En líkurnar á því að fjármálaráðherra leggi til breytinar á núverandi kerfi eru ákaflega litlar, enda er hann of innviklaður í kerfið sem byggir á þessu okri.

Þessi gríðarlega dýru verðtryggðu lán - stóri plásturinn - gera það að verkum að þjóðin þarf að fórna öðrum lífsgæðum til að koma sér þaki yfir höfuðið, vinna meira, leita á náðar svarta hagkerfisins og hitt - að skuldsetja sig gríðarlega. Það gerir það síðan að verkum að hver kynslóð verður að treysta á að fasteignaverð hækki sem allra mest til að halda í við hækkun lánanna og til að tryggja einhverja ávöxtun af fasteign. Þannig er vandanum velt áfram á næstu kynslóðir sem koma inn á markað þar sem fasteignaverð er í engu samræmi við kaupmátt. Það sama hefur verið gert í námslánakerfinu, þ.e. að kostnaði einnar kynslóðar er velt yfir á þær sem á eftir koma. Þannig sagði Valgerður Sverrisdóttir, þá í stjórnarandstöðu, þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks jók á námslánaþrældóminn árið 1992: ,,Nú ætlar sú kynslóð sem ekki greiddi til baka lán sín úr lánasjóðnum að setja lög á Alþingi og gera þeim sem nú eru í námi að greiða þann vanda." Þannig byrja kynslóðir nú fullorðinsárin með ótrúlegar byrðar á herðunum.

En hvers vegna sitjum við uppi með þetta kerfi? Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur bent á að verðtryggingunni var komið á vegna þess að hér var stunduð gríðarleg peningaprentun fyrir þá sem voru í klíkunni hjá bönkunum og pólitíkinni. Þannig var það klíkan sem var valdurinn að óðaverðbólgu en ekki launahækkanir almennings eins og okkur hefur stundum verið talin trú um. Bankarnir lánuðu útgerðarmönnum og öðrum ,,athafnamönnum“ sem fóru síðan með reglulegu millibili í gjaldþrot. Svo þurfti líka að kaupa togara í hvert pláss og gera vel við SÍS. Fyrir þetta velferðarkerfi hagsmunahópanna (e. corporate welfare) greiddi íslenskur almenningur og fjármagnseigendur með verðbólgu og gengisfellingum. Og lausnin á þessum vanda fjármagnseigenda var sú að láta almenning bæta þeim tapið með því að greiða verðtryggingu af húsnæðis- og námslánum. Þannig er grundvallar uppbygging íslenska efnahagskerfisins.

Velferðarkerfi hagsmunahópanna hefur ekki liðið undir lok þrátt fyrir hrunið. Þannig voru inneignir fjármagnseigenda tryggðar að fullu í hruninu. Einungis fengust 15 milljarðar upp í 555 milljarða kröfur í þrotabú fyrirtækja á tímabilinu apríl 2009 til nóvember 2013. Þannig hafa tapast um 540 milljarðar vegna gjaldþrota fyrirtækja og um 2.500 milljarðar hafa síðan verið afskrifaðir hjá starfandi fyrirtækjum. Bjarghringur fjármálastofnana í slíku ástandi er verðtryggingin sem tryggir þeim mikla og fyrirhafnalausa ávöxtun á kostnað almennings. Auk þess er verð á fasteignum skrúfað upp úr öllu valdi til að fegra bókhald bankanna, bæði eignir og útlánasöfn. Skuldir heimilanna hafa þrefaldast sem hlutfall af vergri landsframleiðslu undanfarinn aldarfjórðung, en verðtryggingunni var komið á fyrir rúmum þrjátíu árum. Skuldirnar voru 1.921 milljarður í árslok 2012, þar af námu húsnæðisskuldir 1.325 milljörðum. Skuldirnar hafa verið lækkaðar um 244 milljarða hingað til, þar af 149 milljarða vegna niðurstöðu dómstóla um ólögleg gengislán. Að auki hefur núverandi ríkisstjórn boðað lækkun húsnæðislána um 80 milljarða. Lán heimilanna verða því lækkuð um einhverja 300 milljarða á móti um 3.000 milljörðum sem tapast hafa með gjaldþrotum og afskriftum fyrirtækja. Það mun heldur ekki taka langan tíma að hlaða þessari skuldalækkun almennings aftur á herðar hans miðað við að verðtryggðar skuldir hækkuðu um rúma 70 milljarða á liðnu ári í 4,2% verðbólgu, en hvert prósentustig verðbólgunnar leggur um 20 milljarða byrði á heimilin. Það er ekki hughreystandi tilhugsun þegar litið er til þess að verðbólga á Íslandi frá 1980 hefur verið langt umfram það sem gerist og gengur á Vesturlöndum, eða 5.055%.

Raunin er að skuldadrifið húsnæðiskerfið er hrunið en því er haldið gangandi með tilfærslum á fé til fjármálastofnana, t.d. í formi niðurgreiðslu vaxta (vaxtabóta) sem námu 15 milljörðum árið 2012 og verðtryggingu sem nam eins og áður segir 70 milljörðum 2012. Hér kom meira að segja til athugunar að lengja lánstíma verðtryggðra lána í 70 ár og nú hefur fólki verið boðið að nota framtíðar séreignasparnað til að greiða af fasteignalánum! Það kemur þá til viðbótar við þá 100 milljarða af slíkum sparnaði sem almenningur hefur leyst út frá árinu 2009 og hefur eflaust farið að stórum hluta til afborgana af húsnæðislánum. Það er allt reynt til að komast hjá því að viðurkenna að margt venjulegt launafólk hefur ekki efni á þátttöku í húsnæðiskerfinu eins og það er nú uppbyggt.

Þurfum við þá ekki að fara að hugsa hlutina upp á nýtt? Þarf þjóðin ekki að fara að sækja auknar tekjur af auðlindunum okkar til að draga megi úr álögum á almenning? Þarf ekki að draga úr möguleika fjármálastofnana til að búa til peninga úr engu og blása út bólur? Þarf ekki að afnema peningaprentvélina og verðbólguhvatann sem verðtryggingin er? Þarf ekki að afnema ríkisstyrki til bankanna, eins og t.d. vaxtabætur? Þarf ekki að auka jöfnuðinn í samfélagi þar sem 2% landsmanna á helming allra skuldlausra eigna (fyrir utan eignirnar sem sá hópur felur erlendis)? Þarf ekki að fara að setja reglur um og búa til leigumarkað eftir erlendri fyrirmynd? Ég held að flestir svari þessu játandi. En ekkert breytist vegna þess að sagan er löng og sorgleg saga forréttindahópa sem sjaldan gefa forréttindi sín upp á bátinn sjálfviljugir. Eða svo sagði M.L. King að minnsta kosti.

Eins og áður segir er verðtryggingin stærsti plásturinn á efnahagslíkinu. Og hann var settur á til að viðhalda velferðarkerfi hagsmunahópanna. Um það vitnaði t.d. Steve Keen í viðtali við Egil Helgason á sínum tíma, en hann sagði: ,,Það sem vekur mér óhug er að þið búið við efnahagskerfi sem búið er til af nýklassískum hagfræðingum. Því aðeins í nýklassísku hagkerfi væri það talið sniðugt að vísitölubinda skuldirnar. Sá sem helst hefur mælt þessu bót var Milton Friedman." Þannig liggur vandamálið í grunngerð hagkerfisins. Það hefur fengið að blása út, m.a. með óhóflegum vaxtakostnaði íslenskra heimila, til þess að viðhalda falskri ávöxtun fjármálastofnana - fölskum hagvexti. Og ef það dugar ekki þá er gripið til annarra ráða eins og að ganga á sparnað almennings, lækka lífeyrisgreiðslur eða hækka eftirlaunaaldurinn. Það verða alltaf einhver fórnarlömb í píramídasvindli eins og íslenska hagkerfinu. Spurningin er bara hvaða kynslóð situr uppi með svartapétur.

Sjá einnig um sama efni:

Uppreisn gegn húsnæðiskerfinu (22.8.2013)
Kaldastríðskarlinn í Silfrinu (12.2.2012)