Það er dálítið lýsandi fyrir kosningabaráttuna í Reykjavík að á morgni kjördags taldi ég sex fréttir á forsíðu Vísis.is um umdeildan frambjóðanda Framsóknarflokksins. Og í Fréttablaðinu var nokkuð vel heppnuð skopteikning á leiðarasíðu blaðsins með þennan sama frambjóðanda í aðalhlutverki. Enda sá frambjóðandinn sérstaka ástæðu til þess að þakka fjölmiðlum fyrir að kvöldi kjördags þegar úrslitin lágu fyrir. Þeir höfðu veitt henni þá athygli sem framboðið þurfti á að halda.
Moskumálið hófst með umdeildri facebook-færslu frambjóðandans þar sem sagði m.a.: ,,Á meðan við erum með þjóðkirkju eigum við ekki að úthluta lóðum undir hús eins og moskur eða kirkjur fyrir grísku réttrúnaðarkirkjuna." Hér var því ekki um skoðun hennar á skipulagsmálum eða íbúalýðræði að ræða eins og hún og fleiri héldu síðar fram. Enda hefði flokksbróðir hennar þá ekki sagt sig af listanum í kjölfarið og Ungir framsóknarmenn hefðu ekki lýst yfir ,,fullkomnu vantrausti" á oddvita listans.
En það er líka full ástæða til að lýsa yfir vantrausti á framgöngu fjölmiðla í þessu máli. Þeir létu frambjóðandann spila á sig eins og hljóðfæri og hleyptu kosningabaráttunni fram af hengifluginu. Algjört aukaatriði varð að slíku aðalatriði að það vekur í raun furðu mína að 63% kjósenda hafi haft fyrir því að mæta á kjörstað. Fjölmiðlar hafa síðan kennt ungu fólki um þessa lágu kjörsókn en mér þykir allt eins líklegt að hysterískur áhugi fjölmiðla á þvælu hafi valdið almennu pólitísku áhugaleysi.
Framsóknarflokkurinn er þrátt fyrir allt ekki raunveruleg ógn við frjálslynt samfélag. Það voru einungis 6,5% Reykvíkinga á kosningaaldri sem kusu flokkinn. Og ef við gefum okkur að helmingur þeirra hafi gert það vegna andstöðu við mosku þá eru ,,rasistarnir" um 3% af fjöldanum. Þó að ég hafi óbilandi trú á meðborgurum mínum þá verð ég nú að viðurkenna að ég hélt að þetta hlutfall væri hærra. Fylgi Framsóknar veldur mér því engum áhyggjum.
En það sem veldur mér aftur á móti áhyggjum er að fjölmiðlar gefi svona þröngum hópi - og örvæntingarfullum frambjóðendum - allt of mikið pláss í umræðunni. Því miður virðist það í eðli smellmiðla að ala á öfgafullri umræðu vegna þess að hneykslan fjölgar smellum. Þannig kann að vera að nútíma fjölmiðlun sé mjög frjór jarðvegur fyrir rasísk eða fordómafull viðhorf. Sensationalismi verður þannig lykillinn að athygli fjölmiðla - og þar af leiðandi athygli kjósenda. (Sensationalismi er útskýrður svona í orðabók: ,,Hvers kyns brögð til að vekja æsing eða athygli, einkum á lágkúrulegan hátt; æsingaskrif; æsingaræða." Wikipedia útskýrir þetta svona: ,,Sensationalism is a type of editorial bias in mass media in which events and topics in news stories and pieces are over-hyped to increase viewership or readership numbers.")
Það er óskandi að fjölmiðlar verði búnir að temja sér aðeins meiri yfirvegun og æðruleysi fyrir næstu kosningar.
Að lokum legg ég til að borgarstjórn dragi til baka úthlutun lóðar til moskunnar við Suðurlandsveg og finni henni veglegri stað. Nýr meirihluti gæti byrjað kjörtímabilið á íbúakosningu um þá úthlutun og þannig gefið borgarbúum tækifæri til að sýna múslimum á Íslandi stuðning í verki.