20. maí 2014

Landsvirkjun greiði náms- eða húsnæðislán

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks og fjármálaráðherra, sagðist á ársfundi Landsvirkjunar í dag hafa áhuga á að selja hlut í Landsvirkjun og að lífeyrissjóðirnir væru mögulegir kaupendur.

Þetta er afar léleg og gamaldags hugmynd, ekki síst í ljósi þess að fæst okkar treysta lífeyrissjóðunum fyrir peningum eða öðrum verðmætum. Tilraunin með að láta hluta af skattgreiðslum almennings - því lífeyrissjóðsgreiðslur eru ekkert annað en það - renna í brasksjóði atvinnulífsins hefur mistekist. En kaup lífeyrissjóða á Landsvirkjun er tilraun til að blása lífi í þetta ónýta kerfi.

Þess vegna legg ég til að farin verði leið sem myndi nýtast almenningi betur. Í fróðlegu erindi Rafnars Lárussonar, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Landsvirkjunar, kom fram að þrátt fyrir erfiða skuldastöðu fyrirtækisins þá gæti það greitt upp skuldir sínar á 9,4 árum, að því tilskildu að það greiddi ekki arð á þeim tíma og fjárfesti ekki í nýjum virkjunum.

Ef við segjum sem svo að þessi leið yrði farin og við miðum við rekstrartekjur og gjöld ársins 2013 þá er rekstrarafgangur fyrirtækisins um 430 milljónir bandaríkjadala. Við skulum fara varlega í sakirnar og miða við 400 milljónir. Miðað við núverandi gengi þá væri rekstrarafgangurinn um 45 milljarðar króna.

Mín tillaga er því sú að við förum þessa leið, þ.e. að greiða niður skuldir Landsvirkjunar á tíu árum og skiptum síðan arði fyrirtækisins niður á milli eiganda þess - þjóðarinnar allrar. Það gera um 136 þúsund krónur á haus. Þess má geta að Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt til að svona leið verði farin í sjávarútvegi þar sem hver einstaklingur fengi eignarhlutdeild í fiskveiðikvótanum.

Þetta yrði svo sem ekki neinn lottóvinningur - 136.000 kr. ávísun frá Landsvirkjun á ári - en ég efast ekki um að flest hjón gætu fundið not fyrir tæpar 300 þúsund krónur í heimilisbókhaldinu. Við gætum jafnvel útfært kerfið þannig að fyrstu tuttugu árin í lífi hvers einstaklings myndi fjárhæðin renna í skyldusparnað. Þá myndi tvítugur einstaklingur hefja fullorðinsárin með tæpar þrjár milljónir króna auk vaxta sem mætti t.d. nýta í háskólanám, eigin atvinnurekstur eða til kaupa á fasteign. Þannig myndum við létta undir með ungu fólki sem er að komast á fullorðinsár í stað þess að hengja á það verðtryggðan skuldaklafa eins og nú er gert.

Í ágætu ljóði eftir Ása í Bæ segir: ,,Látum þá bítast um arð og auð / eignast banka og hrað / gleðjast við orður og gáfnafrauð / við gefum skít í það." Gefum nú skít í þetta gamla valdakerfi sem nú ásælist framtíðar arð Landsvirkjunar. Hirðum hann sjálf og lýðræðisvæðum þannig fjármagnið.