22. ágú. 2013

Uppreisn gegn húsnæðiskerfinu

Fréttir RÚV undanfarin kvöld hafa líklega ekki aukið bjartsýni þjóðarinnar. Á þriðjudag var sagt frá því að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefði hækkað um 5% á hálfu ári og svonefnd fasteignavísitala væri nú hærri en á hátindi fasteignabólunnar. Starfsmaður Landsbankans birtist svo á skjánum og spáði áframhaldandi hækkun. Mér þótti rökstuðningur starfsmannsins heldur veikburða, en málflutningurinn kom mér ekki á óvart þar sem bankarnir vilja eflaust að verðtryggð útlán þeirra og eignasöfn hækki sem mest. Á eftir þessari frétt um óðaverðbólgu á fasteignamarkaði var sögð frétt af því að atvinnurekendur teldu að launþegar væru búnir að spenna vonir um launahækkanir úr hófi fram.

Í gær sagði RÚV svo frá því að Seðlabankinn teldi óæskilegt að launahækkanir yrðu meiri en 4% svo að þær færu ekki yfir verðbólguspá bankans (spá sem aldrei stenst). Launþegar eiga því að sætta sig við að tekjur hækki um 4% þegar fasteignaverð hækkar um 5% á sex mánuðum. Síðar í sama fréttatíma sagði svo frá því að opinbert leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hefði hækkað um 7,5% síðustu tólf mánuði og dæmi væri um miklu meiri hækkanir en þær sem birtust í opinberum hagtölum. Viðmælandi í húsnæðisleit nefndi sem dæmi að 40 fermetra íbúð væri leigð á 150 þúsund krónur með 480 þúsund króna tryggingu.

Ástandið á húsnæðismarkaði hefur líklega aldrei verið verra en nú að nýloknu kjörtímabili norrænu velferðarstjórnarinnar. Hún ber auðvitað ekki ein ábyrgð, grunnurinn liggur í hagstjórnarmistökum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem leiddu til skuldabólu og mjög aukinnar stéttskiptingar fjármagnseigenda og lántakenda. En velferðarstjórninni mistókst að koma á jarðsambandi á húsnæðismarkaði - bólan var látin lifa og stækka. Enda voru fjármágnseigendur látnir einir um að stjórna markaðnum. Staðan er auðvitað ekki séríslensk. Í Bretlandi hefur fréttamaðurinn Faisal Islam skrifað bók um ástandið og fjallar m.a. um vaxandi óánægju almennings þar í landi. Hann segir ungt fólk vera nú í þeirri stöðu að það hafi minni væntingar til lífsins en foreldrar þeirra, þ.e. minni væntingar um húsaskjól og almenn lífskjör. Ástandið sé slíkt að starfsfólk enska seðlabankans undrist það í einkasamtölum við hann að ungt fólk hafi ekki gert uppreisn gegn núverandi kerfi.

Í viðtali við Guardian segir Faisal Islam: ,,Húsnæðismarkaðurinn hefur á undanförnum árum verið vafinn ímynd frelsis og stéttleysis séreignastefnunnar. Samt sem áður blasir það nú við að Bretland hefur horfið aftur til hefðbundins landeigendakerfis þar sem eignarhald dregur úr tækifærum almennings. Það eru aðrar leiðir færar eins og til dæmis Þjóðverjar hafa sýnt fram á með stöðugu fasteignaverði, góðum íbúðum og öruggum leigumarkaði. Fasteignamarkaðurinn var lottóvinningur fyrir heppna kynslóð og hálfa. En nú erum við komin í einhverskonar ný-lénsskipulag þar sem lífskjör einstaklinga ráðast af eignastöðu foreldra þeirra."

Andri Geir Arinbjarnarson hefur fjallað um samskonar ástand hér á landi: ,,Stjórnmálamenn verða að horfast í augu við þann raunveruleika að stór hópur Íslendinga getur ekki eignast eigið húsnæði á eðlilegan hátt samkvæmt lögmálum hin frjálsa og opna fjármálamarkaðs. Að reyna enn eina ferðina að "fiffa" markaðinn mun aðeins skapa vandamál sem á endanum leiðir til kerfisáfalla." Ólafur Margeirsson hefur ritað á svipuðum nótum og segir að hér þurfi að ,,þrífa af borðum". Það megi t.d. gera með því að taka peningamyndunarvaldið frá bönkunum, endurskipuleggja lífeyrissjóðina og koma í veg fyrir útlánaveislur fjármálastofnana.

Áhugaleysi stéttarfélaga og aðgerðaleysi íslenskra stjórnmálamanna á sviði húsnæðismála vekur furðu. Enginn þeirra virðist ætla sér af neinni alvöru að lagfæra kerfið, hvorki séreignarkerfið né leiguíbúðakerfið. Loforð framsóknarmanna um lækkun skulda er einungis líkn fyrir fáa, ekki lækning fyrir fjöldann. Afnám verðtryggingar væri þó vísir að lækningu, en aðgerðir í þeim efnum eru ólíklegar í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkur, Samfylking og Vinstri grænir kjósa að standa vörð um verðtrygginguna.

Ég spyr því eins og starfsmenn enska seðlabankans: Hvar er uppreisnin?