Forsætisráðuneytið og Viðskiptaráð hafa boðað til fundar með erlendum sérfræðingum um einföldun regluverks. Þátttaka á fundinum er takmörkuð við þá sem greiða 3.500 kr. í aðgangseyri.
Meðal fyrirlesara er Michael Gibbons, en hann setti t.d. spurningamerki við það þegar sígarettusjálfsalar voru bannaðir í Bretlandi, en ætlun stjórnvalda var að draga úr reykingum unglinga. Og eitthvað hafði hann líka að athuga við málsmeðferð laga um lágmarkslaun.
Forsætisráðherra sagði í viðtali við Stöð 2 að á fundinum ætti að ræða reynslu Breta af því að einfalda regluverk þar í landi. Í framhaldi af því yrði vonandi til sérstakur aðgerðarpakki fyrir íslensk stjórnvöld.
Ég velti því fyrir mér hvort að svonefndir Zero-hours samningar við launafólk verði til umræðu, en þeir tryggja fyrirtækjum öruggt vinnuafl og draga úr kostnaði þeirra en skilja launafólk eftir réttindalaust og í algjörri óvissu um kaup og kjör. Í samningunum er ekki gert ráð fyrir neinum lágmarks vinnustundum, lágmarkslaunum, ekki veikindaleyfum eða orlofsgreiðslum. Samningarnir eru afturhvarf til þess tíma þegar menn stóðu við verksmiðjuhliðin eða á hafnarbakkanum í von um að fá ígripavinnu. Nú er talið að allt að milljón manns starfi samkvæmt þessum samningum í Bretlandi þótt opinberar tölur segi 200.000.
Ég velti því fyrir mér hvort einföldun regluverks breska fjármálamarkaðarins í tíð Thatcher stjórnarinnar verði rædd á fundinum. Til dæmis svonefndur Miklihvellur árið 1986 sem afnam m.a. aðskilnað banka og fjárfestingafyrirtækja. Nigel Lawson, fjármálaráðherra í ríkisstjórn Thatcher, sagði árið 2010 að alþjóðlega bankahrunið hefði verið ófyrirsjáanleg afleiðing þeirra aðgerða meðal annars.
Og ég velti því líka fyrir mér hvort að einföldun regluverks í matvælaframleiðslu verði til umræðu á fundi forsætisráðherra og Viðskiptaráðs, en Bretar vöknuðu nýverið upp við vondan draum þegar ætlað nautakjöt í skyndibitum reyndist hrossakjöt.
Það kann vel að vera að það megi í einhverjum tilvikum einfalda regluverk atvinnulífsins hér á landi. En það þarf þá að byggja slíkar breytingar á almennri skynsemi en ekki nýfrjálshyggjufrösum úr ranni Viðskiptaráðs. Og það þarf að kalla fleiri til skrafs og ráðagerðar um slíkt, t.d. fulltrúa neytenda, launþega, dýraverndar og umhverfisverndar. Það eru nefnilega ekki bara fyrirtækin sem telja að lagfæra þurfi kerfið, það gerir almenningur líka sem hefur t.d. þurft að þola verðsamráð fyrirtækja, galla í nýbyggingum, iðnaðarsalt í matvælum og mengun frá sorpbrennslum.
Viðskiptaráð hefur sjálft gortað af því að Alþingi hafi farið í 90% tilfella eftir tilmælum ráðsins árið 2006. Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, viðurkenndi í viðtali að þinginu hefði orðið á mistök á þessum árum: ,,Ég tek á mig þá ábyrgð að hafa fallið í gryfju með öllum hinum að horfa ekki á frumvörp frá ríkisstjórninni með gagnrýnum augum. Að velta því ekki fyrir sér hvort þetta var skynsamlegt eða ekki."
Ríkisstjórnir Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks 1995-2007 unnu markvíst að því að draga úr reglum og eftirliti í atvinnulífinu. Þessi stefna var meðal annars unnin undir slagorðinu einfaldara Ísland. Ríkisstjórn sem þessir flokkar mynduðu árið 1995 hafði meðal annars að markmiði að tryggt yrði ,,að eftirlitsaðilar íþyngi fyrirtækjum ekki um of með starfsemi sinni." Geir H. Haarde, þá forsætisráðherra, lýsti árangri þessarar stefnu í ræðu á fundi Viðskiptaráðs í febrúar 2007: ,,Lögð hefur verið áhersla á að draga sem mest úr skrifræði og kostnaði í reglusetningu hins opinbera. ... Flóknar og torskildar reglur geta valdið óþarfa kostnaði og dregið úr samkeppnishæfni atvinnulífsins."
Skömmu seinna sat þessi sami forsætisráðherra sem dæmdur maður fyrir framan þjóðina og bað guð um að blessa hana. Hið einfalda Ísland var orðið gjaldþrota Ísland. Nú á eftir að koma í ljós hvort forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafi lært eitthvað af reynslunni.