12. feb. 2012

Kaldastríðskarlinn í Silfrinu

Kúltúr kalda stríðsins gerði það að verkum að á nokkuð löngu tímabili kom fram á sjónarsviðið óvenju hátt hlutfall lélegra stjórnmálamanna. Þessir stjórnmálamenn gátu rifist endalaust um aukaatriði og beindu þannig athygli almennings frá því sem varðaði raunverulega hagsmuni hans. Einn þessara stjórnmálamanna tók þátt í umræðum um verðtryggingu í Silfri Egils í dag.

Á honum mátti skilja að enginn væri gjaldgengur til að taka þátt í umræðu um verðtryggingu nema sá sem hefði annað hvort byrjað að greiða í lífeyrissjóð fyrir 1979 eða átt þátt í að semja eða samþykkja Ólafslögin það ár. Aðrir færu með ,,dómadagsrugl" og stunduðu blekkingar: ,,Þetta er slíkt rugl að það er særandi að hlusta á þetta".

Kalda stríðið kenndi mönnum að svona ætti að stunda rökræður: Svart eða hvítt, hægri eða vinstri, austur eða vestur. Aðrir kostir voru ekki til umræðu. Fyrir þetta hefur stjórnmálaumræða fengið að gjalda og gerir enn. Hér er ekki hægt að ræða mein í íslensku samfélagi án þess að umræðunni sé drepið á dreif með illvígum átökum um aukaatriði. Umræða um okurverð og fákeppni er látin snúast um bændur og Baugsmálið. Umræða um lýðræðisumbætur er látin snúast um Ólaf og Icesave. Umræðan um skiptingu arðsins af auðlindunum er látin snúast um byggðamál. Og umræða um verðtryggingu er látin snúast um ömmur og Evrur. Hér miðar allt að því að dreifa umræðunni á dreif, gera hana ófrjóa, niðurdrepandi og leiðinlega. Útkoman er status quo í öllu sem máli skiptir.

Aftur að kaldastríðskarlinum í Silfrinu. Hann beitti hefðbundnum klisjum til varnar verðtryggingunni, til dæmis eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. En eignarréttarákvæðinu má líka beita til að mæla gegn verðtryggingu, eins og ég hef rakið í eldri pistli. Kaldastríðskarlinn beitti líka óhefðbundnari rökum verðtryggingunni til stuðnings. Þannig sagði hann að lántakendur töpuðu ekki á verðtryggingunni og að vandi þeirra stafaði einungis af verðlækkunum fasteigna. Nei, kommon! Verðlækkun fasteigna er hluti vandans, en bara hluti. Verðtryggingin getur étið upp eigið fé fólks í fasteign jafnvel þótt fasteignaverð standi í stað, verðtryggð húsnæðislán hækka langt umfram tekjur almennings og við greiðum húsnæðislán margfalt hærra verði en gert er í nágrannalöndum okkar. Það er vandinn, ekki bara lækkun fasteignaverðs.

Eftir að hafa hlustað á ræðu kaldastríðskarlsins um íslenska Veruleikann var gott að fá að heyra í manni sem hugsar utan hans. Ástralski hagfræðingurinn Steve Keen sagði í viðtali við Egil Helgason að verðtryggingin vekti hjá sér óhug því að kerfið væri búið til af nýklassískum hagfræðingum. Aðeins í nýklassísku hagkerfi væri það talið sniðugt að vísitölubinda skuldirnar og sá sem hefði helst mælt þessu bót væri Milton Friedman. Steve sagði: ,,Ég get auðvitað hnykkt á hvers vegna þetta er heimskulegt því það sem gerist í verðbólgu er að skuldir manns hækka og ef verðbólga er heima fyrir og gjaldmiðillinn fellur þá tvöfaldast skuldirnar. Og skuldirnar eru borgaðar af launatekjum sem ráðast af fjárstreymi í hagkerfinu og þetta er uppskrift að gjaldþroti. ... Ísland er líklega það land í heiminum sem sárlegast þarfnast skuldauppgjafar og að endurskilgreina fjármálakerfið eins og það á að vera þar sem skuldir eru skilgreindar á nafnvirði frekar en eins og nú að skuldir eru verndaðar fyrir verðbólgu. ... Þið hafið gengið í gegnum ákaflega sársaukafulla tilraun með því að beita nýklassískri hagfræði á efnahag ykkar."

Keen hitti naglann á höfuðið. Við erum þátttakendur í sársaukafullri tilraun sem hefur kostað almenning í þessu landi milljarða á milljarða ofan. Það sem verra er, hún hefur kostað okkur vinnustundir á vinnustundir ofan - tapaðar stundir sem við hefðum getað varið í annað og meira uppbyggjandi en vinnu. En það hafa ekki allir tapað á þessari tilraun, t.d. lífeyrissjóðirnir og bankarnir sem skuldsettu þjóðina í fasteignabólunni eða eigendur fyrirtækjanna sem fengu að eyða stórum hluta lífeyrissparnaðar almennings í góðærinu. Og blessaðir kaldastríðskarlarnir sem framkvæmdu tilraunina fengu ríkulega greitt fyrir í formi aukinna lífeyrisréttinda og embætta.