9. feb. 2012

Náttúruperlur á útsölu

Það er erfitt að meta verðmæti náttúrunnar í krónum og aurum. Oddviti Skaftárhrepps gerir þó tilraun til þess í nýlegu viðtali við Sunnlenska.is. Þar fjallar hann um tvær virkjanir sem fyrirhugað er að reisa í sveitarfélaginu falli þær í orkunýtingarflokk samkvæmt rammaáætlun, Hólmsárvirkjun annars vegar og Búlandsvirkjun hins vegar.

Áður en ég greini frá því hvaða verðmiða oddvitinn setur á svæðin sem fórnað yrði með virkjunum skulum við skoða hvernig náttúru um ræðir. Í umsögn náttúruverndarfélaga um drög að rammaáætlun segir um Hólmsárvirkjun:

,,Svæðið þar sem til stendur að byggja Hólmsárlón er mikið nýtt af ferðamönnum, bæði erlendum og innlendum. Lónið markar sár í annars ósnortin og fögur víðerni sem eru mikilvæg auðlind fyrir ferðaþjónustu á svæðinu enda liggur Fjallabakleið syðri þarna um. Í Hólmsá eru margir fallegir fossar, hinn helsti Axlarfoss í fögru stuðlabergsumhverfi og mikill missir yrði að Brytalækjum. Auk þess er svæðið skammt sunnan Torfajökuls sem er ein helsta náttúruperla Íslands. Röskun myndi valda óafturkræfum áhrifum og skerða upplifun ferðamanna af víðernum norðan Mýrdalsjökuls."

Um Búlandsvirkjun segir svo:

,,Virkjunin, þ.e. uppistöðulón og stíflumannvirki, er staðsett mjög nálægt Eldgjá en hún er hluti af um 40 km langri gossprungu sem vitnar um stórkostleg eldsumbrot á nútíma. Svæðið er stórbrotið og landslag fjölbreytt og er þetta vinsælt útivistarsvæði. ... Neðan uppistöðulónsins mundi rennsli árinnar breytast og margir fallegir fossar nálægt Skaftárdal þorna upp að mestu. ... Virkjun myndi hafa áhrif á vatnsrennsli um Eldhraunið og þau áform að friðlýsa það. Vatnsmagn í Tungufljóti mun stórminnka með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir það fiskalíf sem þar er. Lega raflínu frá virkjuninni hefur ekki verið gerð opinber og óljóst hvernig henni yrði háttað, nokkrar leiðir eru í boði en allar slæmar einkum vegna þess hversu mikilvægt þetta svæði er fyrir ferðamenn sem anddyri Vatnajökulsþjóðgarðs og hálendisins."

Og þá komum við að verðmati oddvitans. Hann segist vonast til þess að Alþingi setji bæði svæðin í orkunýtingarflokk því að fasteignagjöld af einni virkjun yrðu 55 milljónir á ári. 55 milljónir! Fimm manna sveitarstjórn Skaftárhrepps hefur sem sagt sett náttúruperlur í sameiginlegri eigu þjóðarinnar allrar á útsölu. Alþingi þarf að setja skipulagsvaldi sveitarfélaga einhver takmörk áður en þessi útsala verður opnuð.