8. feb. 2012

Þingmanni verður brátt í brók

Ef eitthvað væri að marka endurteknar yfirlýsingar Björgvins G. Sigurðssonar alþingismanns um stóriðjuuppbyggingu og virkjanaframkvæmdir þá væri líklega búið að reisa nokkur álver á Suðurnesjum.

Í desember fagnaði þingmaðurinn niðurstöðu gerðardóms í deilumáli Norðuráls og HS Orku og sagði: ,,Samningarnir standa. Það er afar ánægjulegt og þetta mesta uppbyggingarverkefni á landinu getur farið af stað." Daginn eftir kom svo í ljós að HS Orka ætlaði aftur með málið fyrir gerðardóm vegna óánægju með túlkun Norðuráls á samningum og Fréttablaðið hafði eftir forstjóra HS Orku að hann hefði ekki trú á því að fyrirtækið myndi fara í frekari framkvæmdir vegna virkjana fyrir álverið áður en gerðardómur kvæði upp nýjan úrskurð.

Um liðna helgi greindu fjölmiðlar svo frá því að þingmaðurinn hefði sagt á opnum fundi Samfylkingarinnar að lífeyrissjóðirnir myndu sjá um að fjármagna Hverahlíðavirkjun á Hellisheiði og að hann væri sáttur við að þannig yrði staðið að málum. Tveimur dögum síðar sagði Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, í samtali við Fréttablaðið að viðræður um fjármögnun lífeyrissjóðanna væru ekki hafnar og stjórn OR hefði heldur ekki veitt umboð til slíkra viðræðna.

Ég veit ekki hvað þingmanninum gengur til með villandi yfirlýsingum um stóriðjuuppbyggingu á Suðurnesjum og tilheyrandi virkjanaframkvæmdir, en um framgöngu Björgvins má viðhafa orð sem höfð eru eftir bandaríska öldunardeildarþingmanninum Patrick Moyniham: ,,Everyone is entitled to their own opinions, but they are not entitled to their own facts."

Við þetta má svo bæta að nú hefur um nokkurt skeið verið efast um arðsemi fyrirhugaðrar Hverahlíðavirkjunar. Ég fjallaði um það í pistli sem má lesa hér. Þess vegna ætti þingmaðurinn að gefa sér tíma til að skoða málið betur áður en hann fagnar því sérstaklega að lífeyrissparnaði almennings verði varið í þetta verkefni.

Hægt er að skoða fróðlega mynd á bloggsíðu Ellerts Grétarssonar, ljósmyndara og stjórnarmanns í Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands, sem sýnir virkjanakosti á Suðvesturlandi samkvæmt drögum að þingsályktunartillögu um Rammaáætlun. Umrædd Hverahlíðavirkjun er númer 12 á myndinni, ein af sjö fyrirhuguðum virkjunum á Reykjanesskaga. Um þetta skrifar Ellert meðal annars:

,,Fari fram sem horfir verður Reykjanesskaginn nánast eitt samfellt orkuvinnslusvæði og helstu náttúruperlum hans fórnað, eins og þetta kort ber með sér. Þarna eru eingöngu virkjunarkostirnir merktir inn. Ég læt ykkur eftir að gera ykkur í hugarlund um hvernig þetta myndi líta út þegar búið væri að teikna inn á kortið háspennulínurnar og önnur virkjanamannvirki þvers og kruss um allan skagann."