1. okt. 2010

Persónukjör til efri deildar Alþingis

Birti þessa grein í Fréttablaðinu í dag:

Alþingi hefur nú til umfjöllunar frumvarp um breytingar á lögum um alþingiskosningar sem gerir ráð fyrir svonefndu persónukjöri. Frumvarpið var tekið til fyrstu umræðu fyrir tæpu ári og hefur síðan verið til umfjöllunar hjá allsherjarnefnd. Óvíst er um örlög frumvarpsins á Alþingi en það hefur sætt talsverðri gagnrýni. Bent hefur verið á að það geti reynst stjórnmálaflokkum erfitt að móta áherslur fyrir kosningar ef forystusveit þeirra er ekki valin fyrr en á kjördag og eins gæti það gert flokkunum erfitt að tilnefna málsvara í fjölmiðlum. Kosningakerfi sem þetta kann því að skapa óreiðu sem þjóðin þarf síst á að halda um þessar mundir.

Hugmyndin um persónukjör er góðra gjalda verð, enda mikil þörf á að auka áhrif kjósenda. Stjórnlagaþing mun fjalla um slíkar hugmyndir og útfæra þær. Ein leið sem stjórnlagaþing gæti tekið til athugunar er að skipta Alþingi aftur upp í tvær deildir, efri og neðri, og efna til óflokksbundins persónukjörs í aðra þeirra. Þannig gætu stjórnmálaflokkar áfram boðið fram í landshlutaskiptum kjördæmum til neðri deildar þingsins en til efri deildar yrði kosið einstaklingskosningu þar sem landið yrði eitt kjördæmi. Þannig yrðu tvö framfaraskref, persónukjör og jafnt atkvæðavægi, tekin í einu vettfangi án þess að afnema hið rótgróna kerfi sem við búum við í dag. Þessi leið ætti því að falla flestum í geð.

Kerfið gæti virkað þannig að þjóðin kysi t.d. þrettán þingmenn til efri deildar Alþingis en 51 til neðri deildar. Þannig yrði þingmönnum einungis fjölgað um einn þó að deildunum yrði fjölgað. Handhafar framkvæmdarvalds kæmu úr röðum neðri deildar og hún skipaði málefnanefndir þingsins. Meginhlutverk efri deildar þingsins væri að staðfesta eða synja ákvörðunum neðri deildarinnar og hún hefði einnig vald til að vísa málum til þjóðaratkvæðagreiðslu. Líklega myndi slíkt fyrirkomulag hvetja til vandaðri vinnubragða á Alþingi og gera þau lýðræðislegri. Einnig mætti hugsa sér að leggja niður embætti forseta Íslands og fela forseta efri deildar Alþingis að gegna skyldum þjóðhöfðingja. Þannig yrði þjóðhöfðinginn áfram þjóðkjörinn, t.d. sá sem fengi flest atkvæði í kjöri til efri deilarinnar. Slík breyting myndi færa þjóðhöfðingjanum raunverulegt hlutverk í stjórnskipan ríkisins og mögulega spara þjóðinni eitthvert fé.