Það var hressandi að hlusta á viðtal við Helgu Valfells, framkvæmdastjóra Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Hún var þar til að tjá sig um fréttir vikunnar og þess vegna bjóst ég ekki við mjög uppörvandi umræðum. Enda hóf spyrillinn umræðuna eitthvað á þessa leið: ,,Það er dálítið drungalegt andrúmsloft í samfélaginu og það virðist ekki vera mikil von." En Helga var ekki alveg á sama máli og sagðist starfa sólarmegin í atvinnulífinu. Hjá nýsköpunarfyrirtækjum hefði nefnilega sjaldan verið betri stemmning, þau væru að ráða fólk og skapa gjaldeyri, erlendir fjárfestar væru að koma með peninga inn í landið og fullt af kláru fólki væri að gera frábæra hluti. Hún yrði því ekki vör við vonleysi í sínum störfum, heldur mikla bjartsýni og grósku. Helga tók það fram að úrræði stjórnvalda hefðu mikið með þetta að gera, t.d. heimild nýsköpunarfyrirtækja til að ráða fólk af atvinnuleysisskrá og fá bætur viðkomandi upp í launagreiðslur.
Ég þakka Helgu fyrir að læða þessari gleðipillu út í morgunkaffið hjá mér og hvet hana um leið til að fara oftar í kaffi hjá starfsfólki Samtaka atvinnulífsins, ekki virðist veita af.