19. maí 2010

Kolbrún og olíuleitin

Í fyrra var látið eins og Kolbrún Halldórsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, hefði framið pólitískt harakíri með því að lýsa því yfir skömmu fyrir kosningar að olíuvinnsla á Drekasvæðinu samræmdist hvorki stefnu um sjálf bæra nýtingu orkulinda né skuldbindingum Íslands í umhverfismálum á alþjóðavettvangi.

Það er fróðlegt að rifja upp þessi ummæli Kolbrúnar og yfirdrifin viðbrögð fjölmiðla við þeim í ljósi þess sem gekk á hjá olíu- og kolaiðnaðinum í apríl mánuði einum:

· 2. apríl kviknaði í olíuhreinsistöð í Washington-fylki í Bandaríkjunum og sjö starfsmenn fyrirtækisins létust.
· 3. apríl strandaði kínverska kolaflutningaskipið Shen Neng 1 á Kóralrifinu mikla undan austurströnd Ástralíu. Skipið skildi eftir sig þriggja kílómetra slóð eyðileggingar á rifinu og fjögur tonn af olíu láku í hafið. Ástralir geta þakkað góðu veðri að ekki fór verr. Kóralrifið sem er stærst sinnar tegundar í heiminum og er skráð á heimsminjaskrá UNESCO mun taka áratugi að jafna sig þar sem skipið strandaði.
· 20. apríl sökk olíuborpallurinn Deepwater Horizon í Mexíkóflóa eftir sprengingu sem varð ellefu að bana. Olía streymir enn út úr borholu á botni Mexíkóflóa og nú lítur út fyrir að þetta verði eitt versta olíuslys sögunnar. Lífríki Mexíkóflóa gæti þurft áratugi til að jafna sig og bandarískir sjómenn og ferðamannaiðnaðurinn verða fyrir miklum búsifjum. Nýjustu fréttir af svæðinu eru þær að bannað er að veiða á um 19% flatarmáls Mexkíkóflóa, olíu hefur tekið að reka á land á Flórída og olía er farin að berast að austurströnd Bandaríkjanna með Golfstraumnum.

Í þessu ljósi hljóta efasemdir Kolbrúnar Halldórsdóttur að hafa átt fullan rétt á sér.