
Menn skiptast í tvær fylkingar þegar kemur að því að túlka niðurstöðuna. Sumir benda á að þrátt fyrir þingsætið þá hafi fylgi Græningja á landsvísu minnkað um 0,1% og stendur því í 1%. Glasið er hins vegar hálffullt hjá Rupert Read, Evrópuþingmanni Græningja, sem bendir á að Verkamannaflokkurinn hafi unnið sitt fyrsta sæti á breska þinginu fyrir einni öld en einungis einni kynslóð síðar hafi flokkurinn myndað sína fyrstu ríkisstjórn. Hann spáir því að Græningja bíði sömu örlög.
Árangur breskra Græningja á næstu árum veltur á því að breytingar verði gerðar á kosningakerfinu. Flokkurinn hefur nefnilega fengið viðunandi fylgi þegar kosið er samkvæmt hlutfallskerfi, t.d. 8,7% í kosningum til Evrópuþingsins í fyrra. Þá fengu þeir kjörna tvo fulltrúa, Caroline Lucas þar á meðal. Græningjar eiga svo 126 fulltrúa í 43 sveitarstjórnum í Englandi og Wales, tvo fulltrúa á skoska þinginu og tvo í borgarstjórn Lundúna. Reyndar unnu Græningjar sinn stærsta kosningasigur í Evrópuþingskosningunum árið 1989 þegar þeir fengu 14,5% atkvæða. Þá fengur þeir að vísu engann mann kjörinn því að þá kusu Bretar enn til Evrópuþingsins í einmenningskjördæmum.