Loksins kom að því að Bretar kusu sér græningja á þing. Í kosningunum 6. maí hlaut Caroline Lucas, formaður Græningja, 31,3% atkvæða í kjördæminu Brighton Pavilion og náði kjöri. Kosningakerfið í Bretlandi hefur bitnað á litlum flokkum, Græningjum þar á meðal, þannig að þeim hefur gengið erfiðlega að fá fulltrúa á þing þrátt fyrir ágætt fylgi kjósenda. Svo hefur það bætt gráu ofan á svart fyrir litla og fjárvana flokka að þeir hafa ekki fengið opinbera styrki og þar að auki hafa þeir þurft að punga út 500 pundum fyrir hvern frambjóðanda, sem þeir fá að vísu endurgreidd þar sem þeir fara yfir 5% fylgi. Þess vegna buðu Græningjar einungis fram í 95 kjördæmum af 646 árið 1997 og 202 árið 2005. Í kosningunum í ár bauð flokkurinn fram í um 300 kjördæmum en lagði mesta áherslu á þrjú þeirra, Brighton Pavilion þar á meðal. Sú strategía virkaði.
Menn skiptast í tvær fylkingar þegar kemur að því að túlka niðurstöðuna. Sumir benda á að þrátt fyrir þingsætið þá hafi fylgi Græningja á landsvísu minnkað um 0,1% og stendur því í 1%. Glasið er hins vegar hálffullt hjá Rupert Read, Evrópuþingmanni Græningja, sem bendir á að Verkamannaflokkurinn hafi unnið sitt fyrsta sæti á breska þinginu fyrir einni öld en einungis einni kynslóð síðar hafi flokkurinn myndað sína fyrstu ríkisstjórn. Hann spáir því að Græningja bíði sömu örlög.
Árangur breskra Græningja á næstu árum veltur á því að breytingar verði gerðar á kosningakerfinu. Flokkurinn hefur nefnilega fengið viðunandi fylgi þegar kosið er samkvæmt hlutfallskerfi, t.d. 8,7% í kosningum til Evrópuþingsins í fyrra. Þá fengu þeir kjörna tvo fulltrúa, Caroline Lucas þar á meðal. Græningjar eiga svo 126 fulltrúa í 43 sveitarstjórnum í Englandi og Wales, tvo fulltrúa á skoska þinginu og tvo í borgarstjórn Lundúna. Reyndar unnu Græningjar sinn stærsta kosningasigur í Evrópuþingskosningunum árið 1989 þegar þeir fengu 14,5% atkvæða. Þá fengur þeir að vísu engann mann kjörinn því að þá kusu Bretar enn til Evrópuþingsins í einmenningskjördæmum.