18. okt. 2008

Afnemum verðbólguskattinn

Grein í Fréttablaðinu 20. júní 2008.

Verðbólga hefur farið vaxandi á Íslandi undanfarin fimm ár og á allra síðustu mánuðum hefur hún verið gríðarlega há, sú hæsta í 18 ár. Í þessu árferði sjá heimilin í landinu hvernig eftirstöðvar húsnæðislána hækka vegna áhrifa verðtryggingar. Fyrir þá sem ekki vita þá verndar verðtrygging lánveitanda fyrir verðbólgu með því að uppfæra höfuðstól lána í takt við mánaðarlega verðbólgu. Að mínu mati er þetta úrelt og óréttlátt kerfi sem byggist á því að tryggja hag bankanna á kostnað lántakenda.

Verðtryggðar skuldir heimilanna nema um 1.200 milljörðum króna. Alþýðusamband Íslands greindi nýlega frá því, að með aukinni verðbólgu síðustu mánaða, hafi 17 milljarðar króna bæst við höfuðstól þessara lána. Í hækkandi verðbólgu undanfarinna fimm ára hafa tugir milljarða bæst við höfuðstól lánanna. Mikil verðbólga undanfarin ár hefur þannig gengið á eignir fólks og skert kaupmátt, en fært bönkunum og öðrum lánveitendum miklar tekjur.

Fréttastofa Stöðvar 2 reiknaði nýlega út að vegna hárrar verðbólgu undanfarið og verðtryggingar þá hefðu eftirstöðvar 24 milljóna króna láns hækkað um rúmar 2,6 milljónir á einu ári þrátt fyrir 12 afborganir! Miðað var við að lánið væri til 40 ára og bæri 4,95% vexti. Við þessar aðstæður má líta á kaup á húsnæði sem áhættufjárfestingu. Kaupandinn getur ekki gert sér grein fyrir því hvað húsnæðið komi til með að kosta þegar upp er staðið, enda hefur lítið sem ekkert verið að marka verðbólguspár að undanförnu. Það er ekki ásættanlegt að þessi fjárfesting sem er sú stærsta í lífi flestra og sem skiptir sköpum fyrir efnahag fjölskyldna skuli vera slíkri áhættu háð.

Samanburður við önnur lönd er áhugaverður. Það er staðreynd að lántakendur borga margfalt meira af húsnæðislánum sínum hér, heldur en lántakendur í nágrannalöndunum. Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra hefur sagt frá því á heimasíðu sinni að Íslendingur borgi 74 milljónir króna af 15 milljóna króna láni til 40 ára hér á landi ef verðbólga er 3,5%. Af jafnháu láni á meginlandi Evrópu þurfi aðeins að greiða 24 milljónir króna að meðaltali. Þarna munar heilum 50 milljónum.
Íslendingar eiga ekki að þurfa að búa við miklu verri lánakjör en aðrar þjóðir. Ekki síst þegar fjármálakerfið hér á landi er orðið jafn alþjóðlegt og raun ber vitni. Stjórnvöld hafa búið bönkunum óeðlilega tryggt starfsumhverfi hér á landi á kostnað almennings.

Það er stjórnvalda að bregðast við þeirri stöðu sem nú er uppi, þar sem kynslóð sem hefur nýlega komið sér þaki yfir höfuðið og er skuldsettari en nokkur önnur kynslóð í sögu þjóðarinnar, er um það bil að verða enn skuldsettari vegna hárrar verðbólgu og verðtryggingar. Hagsmunum þessarar kynslóðar verður best gætt með því að afnema þennan séríslenska verðbólguskatt sem verðtryggingin er.