4. júl. 2006
An Inconvenient Truth á leið til landsins
Fyrirgefið mér letina en ég hef haft í svo miklu að snúast undanfarið að ég hef engan tíma haft til að blogga. Verð að skila mastersritgerðinni 25. ágúst og hef haft rauðhærðan Guðmundsson hérna hjá mér frá því í lok júní. Svo fór nú ekki lítill tími í það að sækja um starf upplýsingafulltrúa umhverfisráðuneytisins. Þurfti að fara í þrjú viðtöl og persónuleikapróf. En erfiðið skilaði árangri og viti menn, ég fékk stöðuna. Snilld!
Um daginn sendi ég svo tölvupóst til framleiðanda "An Inconvenient Truth" og spurðist fyrir um hvort ég gæti fengið myndina sýnda hér á landi ef ekkert stóru kvikmyndahúsanna ætluðu að gera það. Datt í hug að þau létu myndina fram hjá sér fara því að söguþráðurinn er þessi: Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, flytur power point fyrirlestur um hlýnun loftslagsins. Hljómar kannski ekki mjög spennandi. En svarið kom skemmtilega á óvart og myndin verður frumsýnd hér á landi 8. september. Ég er byrjaður að poppa.