10. mar. 2006

Þrælslund R-listans og Bandaríkjastjórnar


Skrítin þessi þrælslund sem kemur upp í stjórnmálamönnum þegar kemur að einkabílaeign og olíufélögum. Í Bandaríkjunum hafa nokkur ríki tekið sig saman og krafist þess fyrir dómstólum að alríkisstjórnin í Washington setji reglur um hámarks leyfilega koltvíoxíðslosun jeppa og trukka svipuðum þeim sem fjölgar nú á götum Reykjavíkur. Það er talið að slíkir bílar beri ábyrgð á um 20% af heildar losun Bandaríkjamanna á þessari lofttegund sem veldur hlýnun loftslags. Bílaframleiðendur rembast aftur á móti eins og rjúpa við staur til að fá að halda áfram að framleiða þessa stóru bíla og segja að almenningur eigi að njóta frelsis til að velja sér að aka um á þessum bensínhákum. Bandaríkjastjórn þorir síðan ekki að hrófla við þessum áhrifamikla iðnaði með þeim afleiðingum að bílar í Bandaríkjunum eru að meðaltali eyðslufrekari nú en fyrir um 20 árum síðan.
Ég rakst á skemmtilega vefsíðu hóps sem hvetur fólk til að senda þeim myndir af því þegar þeir gefa Hummer eigendum fingurinn. Slóðin er www.fuh2.com. Ég stóðst ekki mátið og keypti mér plakat með myndinni sem fylgir bloggi dagsins.
Þegar ég tók að mér að vinna fyrir hin ágætu félagasamtök Samfylkinguna þá hafði flokkurinn til umráða forláta jeppa og einn daginn náði ég að plata ungliða til að aka hljómsveitinni Botnleðju á Selfoss þar sem þeir áttu að skemmta. Hann var að vísu eitthvað tregur til þangað til ég sagði honum að jeppinn væri af gerðinni Hummer. Hann kunni mér hins vegar litlar þakkir fyrir þegar hann snéri úr ferðinni og tilkynnti mér að jeppinn ekki eðalvagninn Hummer heldur bændaskrjóðurinn Landrover. Svona mikil er þekking mín á bílum.
Í Reykjavík sýnir R-listinn sömu þrælslund og Bandaríkjastjórn með því að veita ESSO lóð undir bensínstöð í Vatnsmýrinni og núna berast fréttir af því að veitingamaðurinn í Umferðamiðstöðinni óski eftir því að fá að opna bensínafgreiðslu. R-listinn og Samfylkingin með Dag B. Eggertsson í broddi fylkingar í skipulagsnefnd hljóta að vera haldin sjálfseyðingarhvöt á háu stigi. Hvernig þykist Dagur geta sagst vera að berjast fyrir skemmtilegri og heilbrigðri borg þegar hann ákveður á sama tíma að setja niður bensínstöð á besta stað í borginni.