8. feb. 2006

Sjö ár í heimsendi, Osló og bensínlausir Svíar

Þá eru sjö ár í heimsendi. Eða því sem næst. Tony Blair sagði víst fyrir helgi að hann og félagar hans í klúbbi heimsleiðtoganna hefðu sjö ár til að bjarga jörðinni frá óviðráðanlegri loftslagshlýnun. Við sama tækifæri sagðist hann samt ekki vilja leggja skatt á flugfargjöld. Af þessu má draga þá furðulegu ályktun að Tony Blair leggi minni áherslu á að bjarga heiminum en á að Bretar geti áfram flogið ódýrt í fylleríisferðir til Ibiza.
Annars er ég eiginlega sammála því að það eigi ekki að hækka fargjöldin. Flugsamgöngur valda ekki nema u.þ.b. 15% af loftslagshlýnuninni og þegar litið er til þess hversu fólk þykir vænt um að geta flogið ódýrt þá held ég að þetta sé ekki besti vettvangurinn til að fá fólk til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það á fyrst að gera rafmagnsframleiðslu og samgöngur á jörðu niðri umhverfisvænar og svo má byrja að íhuga að draga úr flugsamgöngum. Þá mætti t.d. fækka ferðum ráðuneytisfólks og stjórnmálamanna til útlanda. Það lið nýtir örugglega öll möguleg tækifæri til að ferðast á kostnað skattborgara og lætur sem það hafi aldrei heyrt orðið fjarfundabúnaður.
En ég náttúrulega þessarar skoðunar vegna þess að ég er nýkominn frá Osló þar sem ég skoðaði borgina undir öruggri leiðsögn sonar míns. Hann fór á gönguskíði og við skoðuðum m.a. Gauksstaðaskipið og skipið Fram sem Amundsen sigldi á til Suðurskautslandsins. Ég hefði alls ekki viljað missa af þessu og verð bara að eiga það við samviskuna að hafa átt þátt í að hleypa út í andrúmsloftið nokkrum tonnum af gróðurhúsalofttegundum.
Það fór ekki mikið fyrir loftslagshlýnun í Noregi og sunnudagurinn var kaldasti dagur vetrarins. Ég frétti af því að Norðmenn hefðu ætlað að mótmæla aðgerðum múslima í stóra skopteikningamálinu með því að ferðast ekki með leigubílum en leigubílstjórar í Osló eru víst nær undantekningalaust múslimar. Það varð hins vegar ekkert úr því vegna kulda.
Annars er ýmislegt að frétta af loftslagsmálum. T.d. eru Svíar búnir að ákveða að hætta að nota olíu, kol og gas fyrir árið 2020 vegna yfirvofandi loftslagshlýnunar. Í staðinn ætla þeir að búa til rafmagn með kjarnorkuverum og knýja bílaflotann með lífrænu eldsneyti sem unnið verður úr sænskri landbúnaðarvörum. Svo hafa 86 leiðtogar evangelista í Bandaríkjunum, sem teljast jafnan stuðningsmenn George Bush, lýst því yfir að kristnum mönnum beri að hafa áhyggjur af hlýnun loftslagsins. Þeir hafa meðal annars hvatt til þess í dagblaða- og sjónvarpsauglýsingum að kristnir menn og Bandaríkjastjórn leggir harðar að sér við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Halelúja.