17. feb. 2006

Ættleiðum hungraða ísbirni


Ég vaknaði við útvarpsfréttir í morgun og þar var verið að segja frá því að vegna Grænlandsjökull rennur hraðar á sjó út en talið var og þar með mun yfirborð sjávar hækka hraðar en búist hefur verið við. Það voru vísindamenn NASA sem komust að þessu. Þeir telja að tvöfalt meiri ís af jöklinum renni núna í sjó út en fyrir fimm árum en meðalhiti á þessum slóðum hefur hækkað um þrjár gráður á undanförnum tveimur áratugum. Vatnið sem rennur af jöklinum er svona eins og 220 sinnum meira en íbúar Los Angeles nota á ári. Ekki að það geri þessar stærðir sem hér um ræðir mikið skiljanlegri.
En það er ljós í myrkrinu. Nú er unnið að því í bandaríska stjórnkerfinu að setja hungraða ísbirni á lista yfir dýr í útrýmingrahættu vegna þess að ísbreiðurnar bráðna nú undan þeim vegna hlýnandi loftslags sem gerir þeim erfitt fyrir að veiða seli. Það er talið að um fjórðungur íss á norðurslóðum hafi bráðnað á liðinni hálfri öld og eftir hálfa öld gæti norðurheimssskautið orðið íslaust yfir hásumarið.
Kannski að þetta verði til þess að George Bush neyðist til að gera eitthvað til að draga úr losun Bandaríkjamanna á gróðurhúsalofttegundum. Ísbirnir eru ekki síður sæti en hvalir og hér er augljóst viðskiptatækifæri fyrir framtakssama menn: Ættleiðingarþjónustan "Adobt a starving Polar Bear". Það eru allavega meiri líkur á því að Bandaríkjamenn finni til með ísbjörnum en inúítunum í Norður-Ameríku sem hafa kært Bandaríkjastjórn fyrir Samband Ameríkuríkja fyrir að hafa af þeim lifibrauðið með því að valda hlýnun loftslagsins.