10. jan. 2006

Innlegg og mikilmennskubrjálæði Eyþórs Arnalds

Gleðilegt grænt ár. Ég hef ekki verið í miklu ritstuði á nýju ári en vonandi rætist úr því. Áramótaheitið að þessu sinni er að losa mig við plattfót sem hefur plagað mig frá því að ég var barn. Þess vegna keypti ég mér innlegg um daginn. Þau eru ekki sömu gerðar og innleggin sem ég átti að ganga með á uppeldisárum mínum í Vestmannaeyjum. Það voru stórir, harðir og sleipir klumpar sem voru ekki mönnum bjóðandi. Ég hefði alveg eins getað gengið með skeifur í skónum mínum. Eina skiptið sem ég man eftir því að hafa verið strítt í skóla var vegna plattfótanna. Þannig var mál með vexti að vegna þessarar fötlunar þá skekkti ég alla skó sem ég gekk í. Þannig að eftir að bekkurinn minn vann knattspyrnuleik í frímínútum þá eltu tveir af hinum sigruðu mig (annar feitur og hinn eineygður!) og gerðu grín að því hvað skórnir mínir væru skakkir. Þarna hefðu innleggin getað komið að góðu gagni því að ég hefði getað rotað drengina með klumpunum. En sem fyrr lágu þau heima og söfnuðu ryki. En nú lofa ég bót og betrun og mun nota þau samviskusamlega.
Áður en ég flutti til Edinborgar sór ég þess heit að fyllast ekki þessu yfirlæti sem einkennir suma sem hafa búið í nokkra mánuði í útlandinu. Þetta er fólkið sem finnst allt svo smátt og tilgerðarlegt þegar það flytur aftur heim. En ég verð samt að játa að ég gat ekki haldið aftur af þessari tilfinningu þegar ég las frétt af því að Eyþór Arnalds hefði boðað til fréttamannafundar í sjoppu á Selfossi til að tilkynna að hann sæktist eftir því að leiða lista Sjálfstæðismanna í Árborg í bæjarstjórnarkosningum í vor. Áður höfðu á annað hundrað íbúar bæjarfélagsins skorað á hann að gefa kost á sér. Að boða til fréttamannafundir og birting heilsíðuauglýsingar vegna prófkjörsframboðs á Selfossi hlýtur að vera alvarlegt einkenni mikilmennskubrjálæðis.