15. des. 2005

Grískir svindlarar, gjafir frá mér til mín og hæg efnaskipti

Ég kláraði próf á miðvikudag og skólinn byrjar ekki aftur fyrr en 9. janúar. Ég mæli ekkert sérstaklega með því að taka próf með allra þjóða kvikindum eins og ég gerði. Í fyrsta prófinu sátu fjórir Grikkir í kringum mig og þau voru bara á spjalli sín á milli á meðan prófinu stóð. Því miður skildi ég ekki hvað þau sögðu (hefði komið sér vel í spurningunni um áhrif nítrógens á ýmsar tegundir plantna) en þau voru greinilega að bera saman bækur sínar og skömmuðust sín ekkert fyrir það. Bretinn sem sat yfir í prófinu var maður kominn af léttasta skeiði og hann svaf bara á meðan Grikkirnir svindluðu. Á meðan sat ég og reyndi að leysa prófið hjálparlaust en var orðinn ansi pirraður á málæðinu. Þetta hlýtur að vera grískur siður.
Í prófinu á miðvikudag sat svo Kínverji fyrir aftan mig og hann blés stöðugt úr nös. Einhver furðulegur kækur. Eins og að hann væri að snýta sér í prófið. Þetta var í lagi fyrstu fimm mínúturnar en eftir það var þolinmæði mín við það að bresta.
Við skötuhjú fórum í jólagjafaleiðangur í gær. Afraksturinn var DVD diskurinn "Curb your Enthusiasm" handa mér. Þetta er snilldar grín frá framleiðanda Seinfeld þáttanna. Svo keypti ég líka bókina "End of the Line" handa mér. Hún fjallar um ofveiði á heimshöfunum og hver veit nema að ég fái hugmynd að góðu lokaverkefni við lestur bókarinnar. Þannig að jólagjöfum handa mér frá mér er reddað en aðrir sitja á hakanum að sinni.
Enda hef ég fulla ástæðu til að vera góður við sjálfan mig. Þannig er mál með vexti að ég er í miklum vexti. Ég ætlaði í messu um daginn og ætlaði í fínni fötin (enda voru allar aðrar buxur í þvottavélinni). En mér til mikils hryllings þá komst ég ekki í buxurnar þar sem mér virðist hafa tekist að fitna nokkuð frá því að ég flutti hingað í september. Ég náði ekki að hneppa buxunum sem ég smellpassaði í fyrir þremur mánuðum! Ég ætlaði nú bara að taka þessu rólega og benti sambýliskonu minni á að ég væri nú orðinn 28 ára og þess vegna væri farið að hægjast á efnaskiptunum í mér. Þetta væri náttúrulögmál sem ég réði bara ekki við. En eftir stuttar rökræður þá komumst við að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að þetta væri kannski ekki bara efnaskiptunum að kenna. Þannig að nú fer fyrsta jólahátíðin í hönd þar sem ég þarf að vera á bremsunni. Öðrum óska ég ánægjulegrar ógleði um jólin.