22. júl. 2005

Hlekkjaðir við lítinn bleikan ömmubíl


Nú er það svart. Mér tókst að reita mótmælendurna við Kárahnjúka til reiði með frétt á sjónvarpsfréttastöð ríkisins þann 14. júlí. Þar sagði ég frá því að ríkislögreglustjóri hefði hert eftirlit með landamærunum af ótta við að mótmælendur frá G8 fundinum í Skotlandi myndu streyma til landsins með Norrænu. Svo sýndi ég myndir af þeim ráðast að lögreglunni með mjög myndrænu rósa- og ruslatunnukasti. Þeim fylgdu svo viðtöl við tvo mjög furðulega mótmælendur sem voru kannski ekki bestu talsmenn málstaðarins.
Liðinu á Kárahnjúkum fannst eins og ég hefði birt fréttina til að gera ímynd tjaldbúðanna neikvæða. Þau væru þarna á friðsamlegum forsendum og ættu ekkert sameiginlegt með ólátabelgjunum í Edinborg. En fimm dögum seinna var þessi hópur búinn að hlekkja sig við vinnutæki við virkjunina til að stöðva framkvæmdir. Það er allt gott um það að segja en hvað var þetta lið að kvarta yfir mér? En ég hef vart þorað út í umferðina með bleika Daihatsu Charadinn minn af ótta við hefndaraðgerðir. En ég trúi því varla að nokkur maður sé nógu kaldhjartaður til að hlekkja sig fastan við lítinn bleikan ömmubíl.