Því er haldið fram að í 3. orkupakkanum sé falið framsal á fullveldi Íslands til Brussel. Það kann vel að vera, þó að sjálfur óttist ég það frekar að orkupakkinn færi íslenskum „fjármálasnillingum“ frelsi til að braska á kostnað neytenda, rétt eins og innleiðing bankaregluverks ESB veitti þeim færi á að hvellsprengja efnahagsbólu framan í þjóðina. En þeir sem vilja verja fullveldi Íslands og sjálfstæði okkar í orkumálum þurfa að hafa augun opin fyrir öðrum samningum sem kunna að vera enn skaðlegri en orkupakkarnir, þar á meðal Samningnum um orkusáttmála (ECT, Energy Charter Treaty) sem íslensk stjórnvöld staðfestu í júlí 2015 án nokkurrar lýðræðislegrar umræðu. Engar opinberar upplýsingar er að finna um samninginn á síðum Alþingis eða ráðuneyta, fyrir utan þessi orð í skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis árið 2016: „Samningur um orkusáttmála, sem fjallar um samvinnu ríkja á sviði orkumála, öðlaðist gildi 18. október 2015.“ Svo mörg voru þau orð um samning sem telja verður að vegi mjög alvarlega að fullveldi Íslands í orkumálum.
Tilgangur samningsins er að verja fjárfestingar fyrirtækja á sviði orkumála og veita þeim færi á að kæra þjóðríki til alþjóðlegs gerðardóms ef niðurstaða dómskerfis viðkomandi lands er þeim ekki að skapi. Samningurinn hefur orðið grundvöllur fleiri kærumála en nokkur annar sambærilegur alþjóðasamningur, en 75 mál voru rekin á vettvangi hans á árunum 2013 til 2017. Svonefnd skúffufyrirtæki eru fyrirferðamikil í hópi kærenda og eru dæmi um að fjárfestar kæri eigið heimaland í gegnum slík félög. Við getum því ímyndað okkur að alþjóðleg fyrirtæki eins og Ancala Partners, eigandi 50% hlutar í HSOrku í gegnum skúffufyrirtæki í Svíþjóð, geti með auðveldum hætti krafið íslenska ríkið um háar skaðabætur komi til ágreinings um réttindi og skyldur.
The Transnational Institute og Corporate Europe Observatory, alþjóðleg samtök sem vinna að lýðræðisumbótum, jafnrétti og umhverfisvernd, gáfu í fyrra út skýrslu um samninginn og fóru um hann ófögrum orðum. Þar eru rakin dæmi um það hvernig samningurinn hefur verið notaður til að krefja Búlgaríu og Ungverjaland um háar skaðabætur fyrir ákvarðanir sem teknar voru til að takmarka gróða orkufyrirtækja og halda aftur af hækkunum á raforkuverði til almennings. Orkufyrirtæki hafa til skoðunar svipuð mál í Bretlandi þar sem stjórnvöld komu nýverið á hámarksverði á raforku. Meðal þekktari mála sem byggja á samningnum er kæra sænska orkufyrirtækisins Vattenfall gegn þýska ríkinu fyrir strangari mengunarreglur kolorkuvera og lokun kjarnorkuvera. Eins kæra breska olíuvinnslufyrirtækisins Rockhopper gegn ítalska ríkinu fyrir takmarkanir sem ítalska þingið setti á olíu- og gasleit í Adríahafinu árið 2016. Fyrirtækið fer fram á andvirði um sex milljarða króna fyrir áfallinn kostnað af leitinni en einnig sexfalda þá upphæð fyrir að hafa orðið af framtíðarhagnaði af olíuvinnslunni. Ítalía sagði sig frá samningnum árið 2016 og Rússland árið 2018, bæði löndin vegna fjárhagslegra byrða sem hlutust af honum. Í tilfelli Rússlands var um að ræða hæstu skaðabætur sem gerðardómur hefur veitt, eða 50 milljarðar dala, í svonefndu Yukus-máli þar sem rússneskir ólígarkar tókust á við rússneska ríkið í gegnum erlend aflandsfélög.
Það verður ekki um það deilt að samningurinn veikir stöðu ríkja gagnvart fyrirtækjum, þar á meðal þeirra sem hingað kunna að leita, t.d. norskum eigendum vindorkugarða, breskum eigendum raforkustrengs eða kínverskum eigendum olíuleitarfyrirtækja. Fyrr á þessu ári kom framkvæmdastjóri ECT til fundar við iðnaðarráðherra og embættismenn utanríkisráðuneytisins og án nokkurs lýðræðislegs samráðs ákváðu þeir að Ísland „tæki virkari þátt í samningnum og endurskoðun hans“. Samningur um orkusáttmála hefur enga kosti fyrir okkur Íslendinga sem búum við sjálfstætt dómskerfi, mikið orkuöryggi og vel fjármögnuð orkufyrirtæki í almannaeigu. En ókostirnir eru margir og með staðfestingu samningsins og ákvörðun um virkari aðild hafa ríkisstjórnir skipaðar Sjálfstæðisflokknum, Vinstri-grænum, Framsóknarflokknum og Miðflokknum vegið alvarlega að fullveldi okkar, lýðræðislegum stjórnarháttum og gert ríkissjóð berskjaldaðan fyrir himinháum skaðabótakröfum erlendra fyrirtækja. Umræðan um fullveldisafsal okkar í orkumálum er því rétt að byrja.