Losun gróðurhúsalofttegunda hefur aukist hér á landi þvert á þau markmið sem stjórnvöld hafa sett sér með undirritun alþjóðlegra samninga frá 1992 og gerð loftslagsáætlana frá 2009. Nýjasta útspil stjórnvalda, Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum 2018-2030, mun ekki snúa þessari þróun við ef marka má umsagnir um hana. Ólík samtök og stofnanir eins og Samtök ferðaþjónustunnar, Festa – miðstöð um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja, Reykjavíkurborg, Landvernd, Grænni byggð og Umhverfisstofnun sammælast um að þykja áætlunin augljóslega vanfjármögnuð, ekki síst hvað varðar rafvæðingu samgangna (300 milljónir ár ári í fimm ár) og uppbyggingu almenningssamgangna (ótilgreind upphæð). Alls verður 6,8 milljörðum varið til loftslagsverkefna á næstu fimm árum en á sama tíma ætla stjórnvöld að verja 93 milljörðum til að auka mengandi flugumferð um Keflavíkurflugvöll um 45%.
Samkvæmt nýjustu umhverfiskönnun Gallup þá fjölgaði þeim sem hafa áhyggjur af áhrifum loftslagsbreytinga á eigið líf og sinna nánustu úr 60% í 67% á einu ári. Þá segja 63% aðspurðra að íslenskir stjórnmálamenn geri of lítið til að takmarka losun og 69% fólks á aldrinum 18-29 ára er þeirrar skoðunar. Á undanförnum vikum hefur ungt fólk um allan heim krafist róttækari aðgerða í loftslagsmálum með svonefndu loftslagsverkfalli. Í yfirlýsingu forystufólks þessarar hreyfingar hér á landi segir að núverandi aðgerðaáætlun stjórnvalda sé ekki í samræmi við markmið um að halda hlýnun innan 1,5°C á heimsvísu og því er þess krafist að fjárframlög til loftslagsaðgerða verði aukin í 2,5% af landsframleiðslu, en þau eru nú um 0,05%. Í
Í ljósi þess að 2,5% af landsframleiðslu eru um 70 milljarðar á ári má gera ráð fyrir að það reynist stjórnvöldum þungt í vöfum að að koma til móts við þessa kröfu. Vissulega er fjárveitingavaldinu þröngt skorinn stakkur þegar kemur að breytingum á ríkisútgjöldum, ekki síst með tilkomu ríkisfjármálaáætlunar til fimm ára, auk þess sem fjölmargir hagsmunir og hópar takast á um það fé sem er til skiptanna ár hvert. Þess vegna hef ég lagt til í umsögn um frumvarp fjármálaráðherra um Þjóðarsjóð að hann verði nýttur til að svara þessu ákalli. Landsvirkjun hefur lýst því yfir að fyrirtækið geti greitt 10-20 milljarða árlegan arð til Þjóðarsjóðsins, eða sem nemur 0,35%-0,7% af landsframleiðslu. Það er u.þ.b. tífalt hærri upphæð en stjórnvöld áætla nú að verja til loftslagsaðgerða. Þá mætti auka tekjur Þjóðarsjóðs með því að láta mengandi starfsemi greiða til hans í anda megunarbótareglunnar. Þannig mætti sjá fyrir sér að kolefnisgjald, sem áætlað er að nemi sex milljörðum á þessu ári, renni í sjóðinn. Auk þess verður að teljast eðlilegt að einum stærsta losunarvaldi gróðurhúsalofttegunda hér á landi, Isavia ohf., yrði gert að greiða gjald til Þjóðarsjóðsins. Með þessum hætti gætu tekjur sjóðsins mögulega náð 1% af landsframleiðslu, eða um 28 milljörðum króna.
Af nægum verkefnum er að taka til að nýta þetta fé, t.d. við rafvæðingu samgangna, eflingu almenningssamgangna, nýsköpun, landgræðslu, skógrækt, endurheimt votlendis og eflingu innlendrar matvælaframleiðslu. Slíkar aðgerðir hefðu fjölmörg önnur jákvæð áhrif á íslenska hagkerfið, m.a. aukið orkuöryggi og orkusjálfstæði Íslands, bætt loftgæði og lýðheilsu, sterkari samkeppnihæfni íslensks atvinnulífs, vernd viðkvæmrar náttúru og aukið matvælaöryggi.
Brýnasta verkefni mannkyns er að forðast hrun siðmenningar af völdum loftslagshlýnunar. Við öll, fulltrúar almennings á Alþingi þar á meðal, hljótum að fallast á þá skoðun að framlag hins opinbera til loftslagsaðgerða, sem samsvarar 0,05% af landsframleiðslu, sé ekki í neinu vitrænu samræmi við þá hagsmuni sem eru í húfi. Með tilkomu Þjóðarsjóðs fá þingmenn kærkomið tækifæri til að svara ákalli ungra Íslendinga og lýsa hátt og skýrt yfir samstöðu allra kynslóða í þeim krefjandi verkefnum sem bíða okkar. Það gæfi okkur þó einhverja von um að hægt sé að forðast þau örlög sem unga fólkið okkar óttast mest.