Það skýtur svolítið skökku við að á sama tíma og atvinnurekendur tala um eigin þrengingar skuli fyrirtæki í þeirra eigu hefja stórfelld og kostnaðarsöm endurkaup á eigin hlutabréfum. Þær hafa verið fyrirferðarlitlar fréttirnar sem sagðar hafa verið af endurkaupunum, svona í samanburði við fréttirnar sem sagðar eru af yfirlýsingum um þrengingar atvinnulífsins. Kjarninn sagði frá því í vor að félög á opnum hlutabréfamarkaði hefðu varið 39 milljörðum króna í endurkaup á árunum 2015-2017. Til samanburðar má nefna að verðmæti Eimskipafélagsins eru rétt rúmir 40 milljarðar um þessar mundir. Þetta eru því engar smávegis upphæðir sem atvinnurekendur verja til þessara kaupa. Í ár hafa síðan verið sagðar fréttir af áframhaldandi endurkaupum, t.d. af Eimskipafélaginu sem kaupir eigin bréf fyrir allt að 4,3 milljarða króna og Arion banka sem hefur heimild til endurkaupa fyrir 18,8 milljarða króna, í báðum tilfellum um 10% af eigin verðmæti fyrirtækjanna. Þetta rímar óneitanlega illa við boðskapinn um að íslensk stórfyrirtæki eigi vart borð fyrir báru.
Endurkaup fyrirtækja á eigin hlutabréfum tröllríða nú markaðnum í Bandaríkjunum og nýverið var þar slegið met í endurkaupum sem staðið hafði síðan – og haldið ykkur nú fast – árið 2007, skömmu fyrir hrun bandaríska hlutabréfamarkaðarins! Reynslan hefur sem sagt sýnt að endurkaup njóta mestra vinsælda í fjármálakerfinu þegar hlutabréfamarkaðir eru við það að toppa. Það þarf því engan að undra að þessi þróun hafi vakið bæði ótta og gagnrýni vestra. Gagnrýnisatriðin eru t.d. þessi:
- Sum fyrirtæki kaupa eigin hlutabréf til að búa til eftirspurn og hækka þannig eða halda uppi verði á félaginu. Þannig er í raun verið að blekkja markaðinn.
- Stjórnendur fyrirtækja sem eru á árangurstengdum launum geta því grætt á þessu persónulega.
- Stjórnendur og aðrir innherjar geta líka grætt gríðarlega á svona viðskiptum með því að kaupa hlutabréf áður en endurkaup eru tilkynnt og selja þau aftur þegar hlutabréfaverðið hefur hækkað.
- Fyrirtæki og eigendur hlutabréfa spara sér skattgreiðslur með endurkaupum á hlutabréfum í stað þess að greiða sér hefðbundinn arð. Í þessu felst því svonefnt „skattalegt hagræði“.
- Það væri betra fyrir samfélagið allt ef fyrirtæki notuðu fjármagnið sem fer í endurkaup til að skapa raunveruleg verðmæti, t.d. með tækniþróun og nýsköpun.
- Það kæmi sér einnig betur fyrir hagkerfið ef þetta fjármagn væri notað til að hækka laun og auka þannig kaupmátt í samfélaginu.
- Sum fyrirtæki hafa tekið lán til að kaupa eigin hlutabréf og veikja þannig rekstrargrundvöll sinn og rýra þannig verðmæti langtíma fjárfesta.