Innan stjórnkerfisins og stjórnmálanna starfar fólk sem hefur á óvenju ósvífinn hátt tekist að tefja rannsókn á einkavæðingu bankanna í rúm fimm ár, einkavæðingu sem leiddi á endanum til hruns íslenska efnahagskerfisins með öllu sem því fylgdi. Alþingi samþykkti ályktun um það í nóvember árið 2012 að hafin yrði rannsókn á einkavæðingunni en ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem komst til valda skömmu síðar svæfði málið þrátt fyrir ítrekaðar áminningar fjölmiðla og almennings.
Það var síðan í mars á liðnu ári sem umræða um málið rataði aftur inn í sal Alþingis fyrir alvöru, en þá skilaði rannsóknanefnd Alþingis skýrslu um þátttöku Hauck & Aufhäuser í einkavæðingu Búnaðarbankans. Skýrslan leiddi í ljós meiriháttar lögbrot og blekkingar við þá einkavæðingu en fjallaði þó einungis um afmarkaðan þátt einkavæðingarinnar. Við það tilefni sagði Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna, að skýrslan leiddi í ljós einungis hluta stærra máls. Hún spurði því forseta Alþingis að því 29. mars síðastliðinn hvort hún ætlaði ekki að tryggja fjármagn til að hefjast handa við að „leggja upp í þessa rannsókn sem þingið hefur samþykkt til þess að freista þess að fá heildarmynd af af málinu“.
Daginn eftir sendi Illugi Jökulsson póst á alla þingmenn þar sem hann spurði hvort þeir væru ekki sammála því að framfylgja loks ályktun Alþingis frá 2012. Allir þáverandi þingmenn Vinstri-grænna svöruðu spurningunni játandi, allt fólk sem situr enn á þingi. Svar Katrínar Jakobsdóttur, núverandi forsætisráðherra, var skýrt: „Auðvitað já!“. Það sem er þó jafnvel enn mikilvægara er að afstaða Steingríms J. Sigfússonar, núverandi forseta Alþingis, var líka skýrt: „Svar já. Hef þegar talað fyrir því í fjölmiðlum“.
Steingrímur tók til máls á Alþingi þennan sama dag um skýrsluna um einkavæðingu Búnaðarbankans. Afstaða hans þá fór ekki á milli mála: „Niðurstöðurnar eru auðvitað með endemum hvað varðar þær svívirðilegu blekkingar, það baktjaldamakk og þá grímulausu græðgi, mér liggur við að segja samviskulausu græðgi, sem birtist í atferli manna sem þarna eiga í hlut.“ Og að endingu benti Steingrímur á mikilvægi þess að rannsaka einnig sölu Landsbankans: „Það þarf tafarlaust að hrinda í framkvæmd samþykkt Alþingis frá 2012 um almennilega rannsókn á þessu öllu saman.“
Nú er einungis liðnir níu mánuðir síðan þessi orð féllu og Steingrímur J. er orðinn forseti Alþingis. Hann hefur því fullt vald til að hefja þessa rannsókn sem hann sagði þá að hefja þyrfti tafarlaust. Forsætisráðherra hefur orðið nokkuð tíðrætt um það á stuttum ferli að byggja þurfi upp traust á stjórnmálum. Sá boðskapur hefur virkað nokkuð falskur í ljósi viðbragða Vinstri-grænna, eða öllu heldur skorti á þeim, við lögbrotum dómsmálaráðherra. En nú gefst þingflokknum kærkomið tækifæri til að bæta ráð sitt. Þingsályktunin hefur þegar verið samþykkt og ekki er liðið ár síðan þingmenn Vinstri-grænna lýstu yfir eindregnum vilja sínum. Eina sem þarf er að þingflokkur Vinstri-grænna og núverandi forseti Alþingis standi við eigin orð.
Sjá einnig:
Ótti Sjálfstæðisflokksins við rannsókn á Landsbankanum (31.3.2017).