16. sep. 2016

Þangað leitar Smárinn sem hann er kvaldastur

Það er sérkennilegt að verða vitni að pólitísku upphlaupi eins og því sem Gunnar Smári Egilsson hratt af stað í kjölfar atkvæðagreiðslu á Alþingi um ný búvörulög. Hann skrifaði í hástöfum á facebook að fólk ætti ekki að kjósa Pírata, Samfylkingu eða VG vegna þess að þingflokkar þeirra sátu hjá í lokaatkvæðagreiðslu um nýjan búvörusamningi við afgreiðslu hans á þingi. Taldi hann þar með sýnt fram á að þessum flokkum væri ekki treystandi til að standa að mikilvægum kerfisbreytingum.

Samt sem áður höfðu þessar þingflokkar aðeins nokkrum mínútum áður lagt fram og kosið með breytingatillögu um harðari viðurlög við illri meðferð dýra, sem þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks felldu. Samfylking og Píratar höfðu líka lagt fram og stutt breytingatillögu um að samkeppnislög ættu að ná yfir mjólkurvöruframleiðendur. Það voru aftur á móti þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem felldu tillöguna og vörðu þannig áframhaldandi einokun á mjólkurvörumarkaði.

Viðbrögð Gunnars Smára eru því miður dálítið dæmigerð fyrir íslenskt umbótafólk. Í aðdraganda kosninga hefjast bræðravígin hjá fólkinu sem vill breytingar á trénuðu landbúnaðarkerfi, kæfandi fjármálakerfi og óréttlátri skiptingu auðlindaarðsins. Upphlaupin verða dramatískari og fókusinn flöktandi. Og undan þessu hrökklast kjósendur þangað sem þeir eru kvaldastir, þykir líklega minni óvissa fylgja því að kjósa ráðandi öfl og staðnað kerfi.

„EKKI KJÓSA PÍRATA“, skrifaði Gunnar Smári vegna hjásetu Pírata í máli sem þeir höfðu lagt sig fram um að breyta til betri vegar. Á Alþingi hafa Píratar líka lagt fram mál um bætta samningsaðstöðu kaupenda á húsnæðismarkaði, um refsiverða háttsemi þingmanna, um upplýsingaskyldu fjarskiptafyrirtækja gagnvart neytendum, um endurskoðun stjórnarskrár, jafnt aðgengi allra landsmanna að internetinu, um sakaðaminnkandi stefnu í vímuefnamálum, um aukið tjáningar- og upplýsingafrelsi, um sjálfstætt eftirlit með lögreglu, um sálfræðiþjónustu barna, um öfluga uppljóstraraleynd, um íbúakosningar, um þjóðaratkvæði um aðildarviðræður við ESB og um upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra. Þetta framfaraafl er Gunnar Smári tilbúinn til að afskrifa með hástöfum bara vegna hjásetu í einni atkvæðagreiðslu þar sem ríkisstjórnin hafði vísan meirihluta. Og það þrátt fyrir að það sé skýrt í stefnu Pírata að þeir vilji t.d. rjúfa einokun á mjólkurvörumarkaði, einokun sem þingmenn Pírata börðust gegn þegar búvörusamningurinn var til afgreiðslu á Alþingi.

Sjálfum finnst mér þessi mikla andstaða við búnaðarsamninginn vera yfirdrifin. Fullyrðingar um 360 milljarða króna kostnað fyrir skattgreiðendur standast ekki skoðun, ekki nema að menn taki fullt og skilyrðislaust mark á áróðri kaupmanna. Auk þess er ákvæði í samningnum um að endurskoðun hans hefjist strax á þessu ári og að henni ljúki í síðasta lagi 2019. Ef við kjósum okkur umbótasinnað Alþingi í október þá mun slík endurskoðun ekki fara fram á forsendum Mjólkursamsölunnar og Kaupfélags Skagfirðinga.

Umræðan um hjásetu Pírata er dæmigerður stormur í vatnsglasi, tilfinningadrifin facebook-krossfesting. Þeim sem vilja veg umbótaafla sem mestan í næstu kosningum væri nær að snúa bökum saman og sameinast um þau skýru markmið sem við stefnum að.