Árið 2011 tóku tveir þingmenn stjórnarandstöðunnar til máls á Alþingi og kröfðust þess að Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri-grænna, segði af sér eftir að Hæstaréttur komst að þeirri niðurstöðu að ráðherranum hefði verið óheimilt að staðfesta aðalskipulag Flóahrepps bara að hluta.
Umhverfisráðherra taldi sig standa í fullum rétti þar sem Landsvirkjun greiddi skipulagsvinnu vegna virkjunar í Urriðafossi sem fyrirtækið óskaði eftir að fá að reisa. Ráðherrann taldi ekki heimild fyrir slíkri greiðslu í skipulagslögum en Hæstiréttur komst að því að greiðslan hefði verið lögleg þar sem engin ákvæði í skipulagslögum bönnuðu hana beinlínis. Var ákvörðun umhverfisráðherra því dæmd ólögleg.
Áðurnefndir tveir þingmenn stjórnarandstöðunnar settu í kjölfarið fram þá eðlilegu kröfu úr ræðustól Alþingis að umhverfisráðherra segði af sér, enda rétt að handhafi framkvæmdavaldsins sýni þrískiptingu ríkisvaldsins þá virðingu að víkja úr sæti ef dómsvaldið kemst að þeirri niðurstöðu að verk ráðherrans hafi ekki verið í samræmi við lög.
Þingmaður Framsóknarflokksins beindi orðum sínum að formanni Vinstri grænna og spurði hvort að ríkisstjórnin ætlaði að bera ábyrgð á ráðherra sem bryti landslög og bætti síðar við: „Hér hefur verið framið lögbrot og ekki kemur einu sinni afsökunarbeiðni, hvað þá, sem eðlilegast væri, að umhverfisráðherra segði af sér.“ Degi síðar var haldin sérstök umræða á Alþingi um dóm Hæstaréttar og þá sagði sami þingmaður Framsóknarflokksins: „Það hlýtur að hafa einhverjar afleiðingar þegar ráðherrar misbeita valdi sínu. Höfum við ekkert lært frá hruni? Lærðum við ekkert af rannsóknarskýrslu Alþingis? Ætluðum við ekki að fara eftir þingsályktun 63:0 um að formgera stjórnsýsluna, um að bæta verklag og auka ábyrgð? … Aðalatriði í þessari umræðu er hins vegar að umhverfisráðherra braut lög. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að fá skýr svör frá hæstv. umhverfisráðherra. Hyggst ráðherrann segja af sér?“
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins tók til máls í sömu umræðu og sagði: „Fyrsta spurning mín til ráðherrans hlýtur að vera sú hvort hún ætli ekki örugglega að bera pólitíska ábyrgð á þeirri pólitísku ákvörðun. Fylgir það ekki pólitískum ákvörðunum að bera á þeim pólitíska ábyrgð?“ Og síðar í sömu umræðu: „Ég spyr líka aftur hvort pólitík Vinstri grænna sé hafin yfir landslög. … Ég hvet hæstv. ráðherra til að taka pólitíska ábyrgð á pólitískum ákvörðunum. (Forseti hringir.) Hún yrði maður að meiri.“
Nú hefur Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra í ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar, verið dæmd í Hæstarétti fyrir að brjóta stjórnarskrárvarinn eignarrétt einstaklinga þegar hún heimilaði eignarnám á landi á Suðurnesjum. Auk þess komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að iðnaðarráðherra hefði ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt stjórnsýslulögum.
Líklega eru fáar ákvarðanir stjórnvalda meira íþyngjandi fyrir almenna borgara en ákvörðun um eignarnám. Þess vegna hljóta þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sem kröfðust afsagnar umhverfisráðherra árið 2011 að krefjast afsagnar iðnaðarráðherra nú. Tilefnið er síst minna. Hæg eru heimatökin því að umræddur þingmaður Sjálfstæðisflokksins er Ragnheiður Elín Árnadóttir, núverandi iðnaðarráðherra, og þingmaður Framsóknarflokksins er Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra. Segi iðnaðarráðherra ekki af sér þegar í stað, beri pólitíska ábyrgð eins og hún orðaði það sjálf, þá eru þessir ráðherrar orðnir ómerkingar orða sinna. Stjórnmálamenn geta ekki, ekki frekar en annað fólk, gert ríkari siðferðilegar kröfur til annarra en til sjálfra sín.
Eldri pistlar um sama efni:
Yfirgangur og blekking Landsnets 21.1.2013
Sjálfstæðisflokkur styður eignarnám 10.4.2012
Mývatn, eignarnám, ráðuneyti og fjölmiðlar 8.9.2012