13. jan. 2016

Veljum forseta sem verst alræði þingmeirihluta


Það eru góðar og gildar ástæður fyrir því að áhersla er lögð á þrískiptingu ríkisvaldsins í lýðræðisríkjum. Hver stofnun valdsins á að takmarka eða tempra vald hinna. Þetta kerfi á þannig að koma í veg fyrir að nokkur valdastofnun geti tekið sér of mikið vald.

Hér á landi er ríkisvaldið sagt þrískipt. Forseti og Alþingi fara með löggjafarvaldið, forseti og ríkisstjórn með framkvæmdavaldið og dómstólar með dómsvaldið. En raunin er önnur því að löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið eru eitt. Hér er því enginn sem getur haldið aftur af meirihluta þings ef hann tekur upp á því að gera eitthvað í algjörri andstöðu við þjóðina. Allt þar til núverandi forseti tók sér það synjunarvald sem hafði ekki verið brúkað fram að því.

Hugmyndin um fjögurra ára alræði þingmeirihluta verður líklega sífellt furðulegri í hugum flestra. Nú eru liðin tvö og hálft ár frá Alþingiskosningum og þessir 38 einstaklingar sem fara með löggjafa- og framkvæmdavaldið í landinu njóta ekki stuðnings nema um 36% kjósenda samkvæmt könnunum.

Ráðherrar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokk hafa ekki látið þessar óvinsældir koma í veg fyrir að þeir leggi í vegferðir sem ganga þvert á þjóðarvilja. Þannig hefur formaður Sjálfstæðisflokksins ítrekað að til standi að hefja stærstu einkavæðingu Íslandssögunnar á þessu ári með sölu á 30% af hluta ríkisins í Landsbankanum. Engu að síður kom fram í könnun MMR fyrir ári síðan að 58,5% almennings er andvígur því að ríkið selji eignarhlut sinn í bankanum og samkvæmt könnun Gallup í desember síðastliðnum segist einungis 21,5% almennings treysta ríkisstjórninni til að sjá um sölu á hlut ríkisins í bönkunum. Að sama skapi hafa Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur nýtt tök sín á löggjafar- og framkvæmdavaldinu til að lækka verulega gjöld á útgerðina þrátt fyrir að rúmlega 70% almennings segist andvígur slíkri lækkun samkvæmt könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2.

Forsetaembættið er orðið nauðsynlegt til að koma í veg fyrir alræði stjórnmálamanna sem þjóðin vantreystir. Þess vegna er mikilvægt að í vor veljist einstaklingur í embættið sem er reiðubúinn til að standa uppi í hárinu á óvinsælli ríkisstjórn, t.d. með því að koma í veg fyrir áform hennar um einkavæðingu bankanna eða með því að verja hlut þjóðarinnar í auðlindaarðinum. Fráfarandi forseti hefur sýnt fram á að sá sem embættinu gegnir hefur fullt vald til þess – svo lengi sem hann hefur meirihluta kjósenda á bak við sig.