Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins sagði nýverið að
stjórnarflokkarnir væru samstíga um að einkavæða stóran hlut í
Landsbankanum, enda væri gert ráð fyrir sölunni í fjárlagafrumvarpinu. Í
umræðu um málið á Alþingi benti Bjarni á að ríkisstjórn Samfylkingar og
VG hefði markað þá stefnu á sínum tíma að selja hlut ríkisins í
bankanum.
En þannig sagði formaður Sjálfstæðisflokksins bara hálfa söguna því að þann 7. nóvember 2012 samþykkti Alþingi þingsályktun um rannsókn á einkavæðingu Landsbanka og Búnaðarbanka árið 2002.
Meðal þess sem rannsóknarnefndin átti að gera var að leggja fram
„tillögur til úrbóta varðandi sölu á eingarhlutum ríkisins í
framtíðinni.“
Þessa rannsókn hefur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og
Framsóknarflokks stöðvað. Skömmu eftir að flokkarnir skipuðu ríkisstjórn
árið 2013 var ákveðið að bíða átekta um frekari skipan rannsóknarnefnda
á meðan þingið færi yfir reynslu af störfum þeirra og kostnaði. Í
september 2014 sagði Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, að þessi
vinna væri í fullum gangi. Ég veit ekki til þess að nokkuð hafi frést af
niðurstöðu þessarar úttektar eða að hún sé væntanleg.
Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur einkavæddu ríkisbankana árið 2002 og seldu þá pólitískum bandamönnum
sem reyndust vanhæfir til að reka banka. Á einungis sex árum höfðu nýir
eigendur þeirra farið svo illa að ráði sínu að Ísland rambaði á barmi
gjaldþrots og fjöldi fólks tapaði lífsviðurværi sínu. Gjaldþrot íslensku
bankanna var svo umfangsmikið að það hefði talist það þriðja stærsta í
sögu Bandaríkjanna. Einungis gjaldþrot Lehman Brothers og Washington
Mutual árið 2008 eru stærri en gjaldþrot íslensku bankanna.
Í þessu ljósi er ákaflega mikilvægt að þjóðin komi í veg fyrir að
ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks endurtaki þennan leik,
að minnsta kosti þar til að rannsókn á einkavæðingunni hefur farið fram
og hægt er að draga af henni lærdóm.