Þorsteinn Sæmundsson þingmaður Framsóknarflokksins mætti í Bítið á Bylgjunni og lýsti yfir óánægju sinni með orð Stefáns Jóns Hafstein um
að þingmenn séu keyptir af sterkum hagsmunaaðilum. Ummælin féllu í viðtali þar
sem Stefán kynnti málþing um auðlindamál sem haldið verður á laugardag undir
yfirskriftinni Þjóðareign.
Ummæli Stefáns voru þessi: „Ég held að sumir séu það já.
Keyptir ekki beint með því að rétta þeim þúsundkalla og nú gerir þú þetta. En
þeir eru náttúrlega tengdir margir mjög ríkum hagsmunum sem geta verið
samtvinnaðir á margan hátt.“
Þingmaður Framsóknarflokksins sagði svona fullyrðingar mjög
varhugaverðar vilji menn láta taka sig alvarlega. Tala þyrfti skýrar ætluðu
menn að koma fram með svo alvarlegar ásakanir. Þess vegna ætla ég að gera
tilraun hér til að tala skýrt.
Framlög fyrirtækja til Sjálfstæðisflokksins á fimm ára
tímabili, eða rúmu kjörtímabili frá hruni, þ.e. 2009 til 2013, voru 105
milljónir króna. Höfðu framlögin þá lækkað mikið frá árunum fyrir hrun. Á sama
tímabili styrktu einstaklingar flokkinn um 197 milljónir. Þar að auki fékk
Sjálfstæðisflokkurinn 273 milljónir í aðrar rekstrartekjur en þar á meðal er
leiga á húsnæði, aðgangseyrir að viðburðum og seldar auglýsingar og þjónusta.
Samanlagt eru þetta 667 milljónir í tekjur á fimm árum.
Þar að auki hefur flokkurinn fengið háa styrki beint úr
ríkissjóði og frá sveitarfélögum auk þess sem sumir þingmenn hafa þegið
prófkjörsstyrki frá fyrirtækjum og einstaklingum. Þannig hefur fjöldi sjávarútvegs-
og verktakafyrirtækja styrkt Jón Gunnarsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins fjárhagslega,
þar á meðal fyrirtæki sem hann hefur síðan verið sakaður um að beita sér fyrirmeð óeðlilegum hætti. Um þjónkun hans við útgerðina og virkjanaiðnaðinn þarf
ekki að fjölyrða.
Fyrirtæki og einstaklingar styrkja ekki Sjálfstæðisflokkinn
og þingmenn hans um ca. hálfan milljarð á einu kjörtímabili án tilgangs.
Markmiðið er að hafa áhrif á samfélagið. Þetta hefur haft ýmsar afleiðingar,
sumar ágætar en aðrar síðri – miklu síðri. Þannig bendir margt til að
misskipting hér á landi sé meiri en víða í þeim löndum sem við berum okkur
saman við, 6.200 búa við sára fátækt, fyrirtæki geta með auðveldum hætti komið
hagnaði undan skatti hér á landi, þjóðin nýtur einungis lítils hluta
auðlindaarðsins og ríkustu 10% eiga meira en 75% alls auðs í landinu. Það er engin
tilviljun sem ræður því að 90% af öllum styrkjum útgerðarinnar til stjórnmálaflokka renni tilSjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.
Í kosningum til bandaríska þingsins 2012 unnu þeir sem höfðu
stærri kosningasjóði í 95% tilfella og hið fræga 1% auðugustu þarlendra gefa
alls 68% alls fjár í kosningasjóði. Þannig sýnir reynslan okkur í hinum
vestræna heimi að aðgangur að fjármagni hefur ráðandi áhrif á velgengni
stjórnmálaflokka í kosningum. Fræðimenn við Princeton háskólan hafa ályktað sem
svo að hinir auðugu drottni nú yfir bandarískum stjórnmálum. Þar hafi auðræði
tekið lýðræðið yfir.
Það er engin tilviljun að í rúmlega 70 ára sögu íslenska lýðveldisins hefur Sjálfstæðisflokkurinn einungis verið utan stjórnar í u.þ.b. 17 ár. Þangað hafa peningarnir streymst í gegnum tíðina. Síðastliðinn aldarfjórðung hefur flokkurinn verið við völd í 21 ár. Og frá því
að ég komst á kosningaaldur árið 1995 hefur Sjálfstæðisflokkurinn alltaf verið
við völd að undanskildum eftirhrunsárunum 2009-2013. Peningar hafa fært
flokknum þessi völd.
Um það bil hálfur milljarður á einu kjörtímabili virðist
vera sá verðmiði sem settur hefur verið á völdin á Íslandi. Það er enginn svo
sterkur á svellinu að slíkar peningagjafir hafi ekki áhrif á skoðanir hans og
gjörðir. Hér eins og í Bandaríkjunum hefur auðræði tekið lýðræðið yfir. Vonandi
bara tímabundið.