24. mar. 2015

Það er kominn tími, Sigmundur, til að skila lyklunum


Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks í stjórnarandstöðu, hélt ágæta ræðu á Alþingi 14. desember 2012 þar sem hann fór yfir hið pólitíska landslag og vísaði m.a. í ófrið á vinnumarkaði og slæm samskipti forystu ASÍ og ríkisstjórnar.

Bjarni endaði ræðu sína á þessum vel völdum orðum: „Er ekki kominn tími til að viðurkenna uppgjöfina, viðurkenna getuleysið, viðurkenna úrræðaleysið sem blasir við öllum? Er ekki kominn tími til að skila lyklunum? Hvers vegna á að halda þjóðinni í þeirri stöðu að þurfa að bíða eftir kosningum fram á vor þegar við öllum blasir hversu mikilvægt það er að friður sé á vinnumarkaði og að fyrir hendi séu nauðsynlegar forsendur þess að hægt sé að endurnýja kjarasamninga og koma á nýju stöðugleika- og vaxtaskeiði? Þessi ríkisstjórn er í engum efnum líkleg til að rísa undir þeim væntingum. Þess vegna blasir sú spurning við, virðulegi forsætisráðherra: Hvers vegna ekki bara að skila lyklunum nú þegar?“ Síðar í þessari umræðu lýsti Bjarni þessu yfir: „Það er kominn tími, Jóhanna, til að skila lyklunum“.

Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi formaður þingflokks Framsóknarflokksins, blandaði sér í umræðuna og sagði að sig minnti að Hermann Jónasson hefði sagt af sér á sínum tíma vegna þess að hann missti traust Alþýðusambandsins. Gunnar lauk sinni ræðu á þessum orðum: „Kjarni málsins, það sem er alvarlegast í þessu öllu saman, er að allt traust og allur trúnaður milli ríkisstjórnarinnar, milli aðila vinnumarkaðarins og milli þjóðarinnar er löngu brostið. Þess vegna ætti hæstv. forsætisráðherra að taka Hermann heitinn Jónasson sér til fyrirmyndar.“

Í febrúar síðastliðnum sagði forseti ASÍ útilokað að ná þjóðarsátt um stöðugleika og hóflegar launahækkanir á meðan ríkisstjórnin hamaðist á velferðarkerfinu. Auk þess græfi ríkisstjórnin undan stöðugleikanum með eigin kjarasamningum. Síðastliðið haust lýsti miðstjórn ASÍ því yfir að fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar væri aðför að almennu launafólki og því væri ekki grundvöllur fyrir frekara samstarfi eða samræðu við hana. Í yfirlýsingunni sagði: „Aðgerðir ríkisstjórnarinnar kalla á að aðildarfélög ASÍ undirbúi sig og félagsmenn sína fyrir harðari deilur við gerð kjarasamninga en verið hefur um áratuga skeið.“

Það er því ríkisstjórnin sem hefur kallað núverandi frostavetur á vinnumarkaði yfir þjóðina. Sigmundur forsætisráðherra hefur reynt að klóra í bakkann með því að lýsa yfir stuðningi við krónutöluhækkanir lægstu launa. Þeim leikþætti hefur formaður Eflingar og samninganefndar Flóabandalagsins svarað og sýnt fram á hversu lítið er að marka orð forsætisráðherra.

Við erum í alveg sams konar stöðu nú og þegar núverandi fjármálaráðherra og núverandi utanríkisráðherra fóru fram á afsögn forsætisráðherra og að efnt yrði til kosninga í árslok 2012. Traust til Alþingis er nú 18%, samanborið við 15% í desember 2012. Stuðningur við ríkisstjórnina mælist 33% nú, samanborið við 29% stuðning sem ríkisstjórnin naut sem Bjarni taldi komna á endastöð. Hagvöxtur var 1,9% í fyrra en einungis litlu minni, eða 1,6%, árið 2012. Og á vinnumarkaði stefnir í erfiðari átök en við höfum orðið vitni að í áratugi.

Það er kominn tími, Sigmundur, til að skila lyklunum. Eða er aldrei að marka neitt af því sem þið segið?