18. feb. 2015

Finnur, Framsókn og mildin

Það er pínu hlægilegt að vaxandi pirrings skuli nú gæta innan Framsóknarflokksins í garð tilskipana ESB og að þeir vilji nota mildara orðalag þegar þær eru þýddar á íslensku. Það voru jú ráðherrar Framsóknarflokksins sem á sínum tíma þýddu tilskipun sambandsins um samkeppni á raforkumarkaði með eins bókstaflegum hætti og mögulegt var þó svo að skýr undanþáguleið hafi verið fær.

Hugmynd Evrópusambandsins var að raforkufyrirtæki gætu selt orku yfir landamæri og raforkukaupendur högnuðust á samkeppninni. Þessi tilskipun varð að lögum hér á landi árið 2003. Hefði Framsóknarflokkurinn þá fylgt stefnu hins „milda orðalags" þá hefði hann líklega nýtt sér undanþáguákvæði í tilskipuninn fyrir örlítinn og einangraðan raforkumarkað hér á landi. En Framsóknarflokkurinn valdi leið meintrar samkeppni og ég get ekki fundið neina ástæðu fyrir því aðra en þá að hún opnaði nýjan markað fyrir Finn Ingólfsson og félaga. Afleiðingar lagabreytinganna voru þær að Orkuveita Reykjavíkur varð nær gjaldþrota og þurfti að hækka raforkuverð til almennings all verulega. Helgi Þór Ingason, forstjóri OR 2010 til 2011, virðist heldur ekki hafa séð ástæðu til að fara Framsóknarleiðina á raforkumarkaði, en í skýrslu úttektarnefndar um OR árið 2012 sagði hann: „Maður hugsar sitt í þessu. Hvernig samkeppnisumhverfi raforkuframleiðslu hefur verið útfærð á Íslandi. Mér er til efs að þetta sé þjóðhagslega hagkvæmt og ég er ekki viss um að almenningur græði á því."

Með tilkomu nýju raforkulaganna varð orðfærið á raforkumarkaði svipað og á bankamarkaði eftir einkavæðingu Búnaðarbanka og Landsbanka. Þannig segir í ársskýrslu Orkuveitu Reykjavíkur árið 2004 að í breytingunum felist mikil tækifæri sem fyrirtækið verði að grípa og stefni því að frekari vexti. Og sömu klíkur tóku sér stöðu á orkumarkaði sem höfðu áður verið fyrirferðamiklar á bankamarkaði, þar á meðal Bjarni Ármannsson og Hannes Smárason. Finnur Ingólfsson og viðskiptafélagar hans komu inn á þennan markað í gegnum félagið VGK Invest. Það félag varð síðar gjaldþrota og skildi eftir sig rúmlega þriggja milljarða króna skuldir sem ekkert fékkst upp í. VGK Invest átti stóran hlut í Geysi Green Energy (GGE) og síðar Reykjavik Energy Invest (REI). Uppgjör þrotabús GGE lauk í desember síðastliðnum og þá reyndist það skulda 28,5 milljarða en vera eignalaust.

Gísli Marteinn Baldursson fjallaði um REI-málið svokallaða á borgarstjórnarfundi í október 2007 og sagði þá: „Vissi borg­ar­full­trúi Björn Ingi Hrafns­son ekki að með því að samþykkja samrun­ann var hann að láta fjölda millj­arða renna til manna sem hafa stýrt Fram­sókn­ar­flokkn­um und­an­far­in ár." Samkvæmt frásögn Morgunblaðsins sagði Gísli marga millj­arða renna til fyrr­ver­andi vara­for­manns Fram­sókn­ar­flokks­ins, lög­fræðings allra helstu Fram­sókn­artengdu fyr­ir­tækj­anna og for­manns fjár­öfl­un­ar­nefnd­ar Fram­sókn­ar­flokks­ins. Lögfræðingurinn sem um ræðir er Kristinn Hallgrímsson, en hann hefur m.a. verið lögfræðingur Ólafs Ólafssonar í Samskipum, viðskiptafélaga Finns. Það er vissulega fróðlegt að skoða hvaða hlutverk áhrifamenn í Framsóknarflokknum höfðu í öllu þessu ferli með Finn Ingólfsson í broddi fylkingar.

Eins og þekkt er efnaðist Finnur stórkostlega þegar hann og viðskiptafélagar hans nýttu pólitíska aðstöðu sína til að kaupa Búnaðarbankann við einkavæðingu hans árið 2002 (sem ríkisstjórn Framsóknarflokksins neitar nú að rannsaka þrátt fyrir ályktun Alþingis þess efnis). Finnur var iðnaðar- og viðskiptaráðherra til ársins 1999 og hafði þar Árna Magnússon sem aðstoðarmann. Árni Magnússon varð síðar ráðherra en sagði af sér árið 2006 til að taka við starfi hjá Glitni við fjárfestingar í orkuiðnaðinum. Glitnir fjármagnaði síðan að stórum hluta innreið Finns og félaga á orkumarkaðinn. Þegar Árni hætti störfum hjá bankanum árið 2013 með fjölda gjaldþrota á bakinu vildi svo vel til að hann fékk starf hjá Mannviti, en því fyrirtæki stýrir Eyjólfur Árni Rafnsson. Sá er viðskiptafélagi Finns og var m.a. stjórnarformaður GGE á tímabili, sat í stjórn VGK Invest með Finni, græddi vel á Kárahnjúkavirkjun sem Finnur átti stóran þátt í að koma á koppinn og hefur verið í framboði fyrir Framsóknarflokkinn í Suðvesturkjördæmi. Ætlunin var að gera GGE og VGK Invest milljarða virði með sameiningu við REI, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur. Þá kom það í hlut Björns Ingi Hrafnssonar, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins og fyrrverandi aðstoðarmanns Halldórs Ásgrímssonar, að liðka fyrir málum. Sem varaformaður stjórnar OR og formaður stjórnar REI beitti hann sér fyrir samningum sem hefðu aukið verðmæti fyrirtækja Finns gríðarlega, m.a. með því að láta Orkuveituna leggja 4-6 milljarða inn í sameinað REI.

Finnur hafði einnig komið sér upp traustum tengslum inn í stjórnsýsluna í gegnum Kristján Skarphéðinsson, ráðuneytisstjóra Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins (nú atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti) og gamlan skólabróður. Kristján var ráðinn skrifstofustjóri í sjávarútvegsráðuneytinu þegar Halldór Ásgrímsson, helsti bandamaður Finns í stjórnmálum, var sjávarútvegsráðherra og Finnur þar aðstoðarmaður. Kristján fluttist til iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins um mitt ár 1999 þegar Finnur var þar ráðherra, var settur ráðuneytisstjóri 2003 og skipaður ráðuneytisstjóri 2005 án þess að staðan væri auglýst (Fréttablaðið 17.2.2006). Annar embættismaður kærði skipunina á sínum tíma og fékk miskabætur úr ríkissjóði. Það var Valgerður Sverrisdóttir, pólitískur bandamaður Finns, sem veitti Kristjáni þessa stöðuhækkun og aðstoðarmaður hennar á þeim tíma var Páll Magnússon, bróðir Árna. Finnur hætti þátttöku í stjórnmálum árið 1999 en keypti Búnaðarbankann í mjög umdeildri einkavæðingu árið 2002 sem iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið undirbjó. Tengsl þeirra Finns og Kristjáns ná út fyrir stjórnarráðið því að þeir áttu báðir hlut í jörðinni Innri-Kóngsbakka í Helgafellssveit og samkvæmt tengslavefnum Rel 8 var Eyjólfur Árni hjá Mannviti líka í þeim hópi. Ráðuneytisstjórinn tengist fleiri eignarhaldsfélögum samkvæmt upplýsingum Rel 8, þar á meðal Bolmagni ehf, en tilgangur félagsins er skráður alhliða fjárfestingar- og fjármálastarfsemi. Meðal annarra eigenda er Finnur Ingólfsson og Hrólfur Ölvisson. Sá síðastnefndi hefur verið framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins frá árinu 2010.

Finnur Ingólfsson fyrir miðju og Kristján Skarphéðinsson til vinstri. Myndin er fengin af vef hestabús í eigu Finns.
Með þessu tengslaneti tókst Finni og öðrum áhrifamönnum innan Framsóknarflokksins að hafa tök á öllu kerfinu og efnast stórkostlega á því. Mikið hefði nú verið gott ef fulltrúar Framsóknarflokksins hefðu byrjað á því að tala um mildari innleiðingu tilskipana ESB fyrir rúmum áratug. Þá hefði mátt koma í veg fyrir að ný raforkulög leiddu til gjaldþrots Orkuveitu Reykjavíkur og mikillar hækkunar á raforkuverði til almennings. En þá væru Finnur og félagar líklega einhverjum krónum fátækari.

10. feb. 2015

Í leit að Angelu Merkel sjálfstæðismanna

Nú er ljóst að sjálfstæðismenn þurfa að taka til í eigin ranni, rétt eins og þýsk skoðanasystkin þeirra gerðu þegar þau völdu Angelu Merkel til að taka við forystu Kristilega demókrataflokksins árið 2000 vegna spillingarmála sem Helmut Kohl og arftaki hans, Wolfgang Schäuble, tengdust.

Ætlaður arftaki Bjarna Benediktssonar hefur þegar vikið af hinu pólitíska sviði vegna lekamálsins svokallaða og mun ekki leiða flokkinn í framtíðinni. Bjarni sjálfur virðist afar mistækur stjórnmálamaður og á slíka fortíð í viðskiptalífinu að hann mun að öllum líkindum ekki leiða Sjálfstæðisflokkinn, þennan gamla forystuflokk í íslenskum stjórnmálum, aftur upp fyrir 30% kjörfylgi.

Forgangsröðun hans í fjármálaráðuneytinu hvílir svo augljóslega á fjárhaglegum hagsmunum og efristéttarvitund að kjósendur munu seint fyrirgefa það. Hann hækkaði matarskattinn, eitthvað sem fyrrverandi formaður flokksins kallaði „rugl", hann hefur hækkað kostnaðarþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu, hann hefur lækkað gjöld á útgerðina og fellt niður auðlegðarskattinn í stað þess að fínstilla hann. Hann efaðist reyndar opinberlega um lögmæti auðlegðarskattsins en var kveðinn í kútinn varðandi það af Hæstarétti.

Bjarni á svo vafasama fortíð í viðskiptalífinu að sjálfstæðismenn sjálfir voru sparir á stuðning við hann í prófkjöri flokksins fyrir síðustu Alþingiskosningar, en þá hlaut hann einungis 54% atkvæða í fyrsta sæti þó að hann væri einn um að bjóða sig fram til forystu. Þá hafði umræða um þátttöku Bjarna í svonefndu Vafningsmáli verið hávær. Þeir sem voru ákærðir í málinu voru sýknaðir fyrir um ári síðan þrátt fyrir að Hæstiréttur hafi talið engan vafa leika á því að ásetningur hinna ákærðu hafi verið að misnota aðstöðu sína til umboðssvika.

Vafningsmálið tengdist viðskiptaveldi fjölskyldu Bjarna Benediktssonar sem faðir hans og Einar Sveinsson, föðurbróðir Bjarna, stýrðu. Fjölskyldan hefur skilið eftir sig slóð gjaldþrota þrátt fyrir háar arðgreiðslur í gegnum tíðina, m.a. 650 milljóna króna gjaldþrot Gildrukletta og 4,3 milljarða gjaldþrot BNT, en þar gegndi Bjarni stjórnarformennsku fram að hruni 2008. Einar, föðurbróður Bjarna, hefur síðan verið til umfjöllunar með reglulegu millibili að undanförnu, t.d. þegar hann færði 170 milljónir af reikningum sínum í Glitni nokkrum dögum áður en bankinn var þjóðnýttur af Seðlabankanum og nýverið dæmdi Hæstiréttur hann fyrir að reyna að komast undan því að greiða skatt af eins milljarðs söluhagnaði.

Einar var svo mættur aftur nýverið til að kaupa hlut Landsbankans í Borgun á undiverði og án útboðs. Viðskiptin voru afar umdeild og stjórnarþingmenn töldu sumir að hefja þyrfti rannsókn á málinu. Markaðurinn nefndi þau verstu viðskipti liðins árs. Á þessum viðskiptum bar Bjarni sjálfur mesta ábyrgð þar sem fjármálaráðherra fer með hlut ríkisins í Landsbankanum í gegnum Bankasýslu ríkisins.

Fleiri mál hafa vakið efasemdir um stjórnsýslu Bjarna í fjármálaráðuneytinu, má þar m.a. nefna misheppnaða skipan formanns stjórnar Fjármálaeftirlitsins, 26 milljarða króna lækkun eiginfjár Seðlabankans til að ná hallalausum fjárlögum og áframhaldandi undanþágur á virðisauka til handa fyrirtækjum sem eru hluti af fjölskylduveldinu. Og nú virðist Bjarni kominn á mjög hálan ís þegar hann tefur fyrir rannsókn á gögnum um eignir Íslendinga í skattaskjólum með því að setja embætti Skattrannsóknarstjóra skilyrði fyrir rannsókninni. Framkvæmd skattalaga á að vera óháð pólitísku valdi og ráðherra má ekki hafa afskipti af skattrannsóknum. Hér virðist því forysta Sjálfstæðisflokksins í annað skipti á skömmum tíma komin út fyrir valdsvið sitt í samskiptum við embættismenn. Það kæmi mér því mjög á óvart ef Umboðsmaður Alþingis hæfi ekki frumkvæðisrannsókn á stjórnsýslu fjármálaráðherra.

Það er í raun með ólíkindum að Bjarna hafi verið treyst fyrir hinu valdamikla starfi fjármálaráðherra, hvers hlutverk er að m.a. að stýra Bankasýslu ríkisins, lagaumgjörð og eftirlit með fjármálamarkaðnum og skattrannsóknum. Svo miklar og réttmætar efasemdir eru uppi um fortíð hans og hæfi til að gegna svo valdamiklu embætti að Sjálfstæðismenn hljóta að vera að leita logandi ljósi að sinni Angelu Merkel.

2. feb. 2015

Stóriðjusósíalistarnir í Sjálfstæðisflokknum

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins bera sífellt minna traust til eigin flokks á sviði umhverfismála. Samkvæmt könnun MMR telja einungis 19,8% Sjálfstæðisflokkinn best fallinn til að leiða umhverfismálin, en í sömu könnun segjast 27,3% styðja flokkinn. Þannig að um þriðjungur þeirra sem segjast kjósa flokkinn treystir honum ekki fyrir umhverfismálunum. Traust til flokksins á þessu sviði hefur líklega aldrei verið minna, var á bilinu 26% til 28% á tímabilinu 2011 til 2013, en er nú komið í 20% eins og áður segir.

Þetta þarf ekki að koma á óvart í ljósi framgöngu ráðherra og þingmanna flokksins. Ragnheiður Elín atvinnuvegaráðherra stendur í stórræðum þessa dagana og leggur fram frumvarp um náttúrupassa sem dregur úr frelsi almennings til að ferðast um landið, tekur land á Reykjanesi eignarnámi fyrir stóriðju á Suðurnesjum, aðstoðar Landsnet við að fá heimild til að leggja háspennulínu yfir Sprengisand og gerir samninga við stóriðjufyrirtæki um stórfelldar skattaundanþágur. Í sumum þessara mála vinnur ráðherra í beinni andstöðu við afstöðu ferðaþjónustunnar, t.d. varðandi línuna á Sprengisandi og náttúrupassann. Og í öðrum er ráðherra að sækja fé í vasa skattgreiðenda til að styrkja stóriðjuna eins og t.d. í tilfelli Sprengisandslínu. Það nýjasta í þeim efnum hjá ráðherranum er svo frumvarp sem hún hefur í huga að semja um stórfelldan ríkisstuðning við Helguvíkurhöfn. Ráðherrann rökstyður þá hugmynd með því að vísa til þess að Steingrímur J. Sigfússon og Vinstri grænir hafi gert þetta áður í tengslum við fyrirhugaðar hafnarframkvæmdir á Húsavík. Hún er þannig komin í harðan slag við Steingrím J. um það hvort þeirra er meiri stóriðjusósíalisti.

Hjálmar Gíslason, stofnandi DataMarket (alvöru einkaframtak) skrifaði á facebook þegar fréttir bárust af fyrirhuguðum ríkisstuðningi Ragnheiðar Elínar í Helguvík: ,,Hvernig bjargar maður misráðnum afskiptum sveitarfélags af atvinnuuppbyggingu? Jú, með misráðnum afskiptum Ríkisins! Það þarf alveg sérstakan vilja til að kalla þetta hægri-mennsku." Davíð Þorláksson, fyrrverandi formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna, gagnrýndi þessa stóriðjustefnu Sjálfstæðisflokksins á svipuðum nótum árið 2013: „Þetta fyrirkomulag í atvinnuuppbygginu hljómar kunnuglega og er nær samblandi af áætlunarbúskap og kjördæmapot en markaðsbúskap."

Það er sama hversu oft Jón Gunnarsson fer í ræðustól Alþingis með vandræðalega þaninn brjóstkassa og kallar aðra þingmenn kommúnista , Sjálfstæðisflokknum tekst ekki að þvo af sér stóriðjusósíalistastimpilinn á meðan hann tekur lönd eignarnámi fyrir stóriðjuna og styrki hana með fé úr vasa almennings.

Eldri pistlar um þetta efni:

Jón, smjörklípan og prófkjörsstyrkir (4.12.2014)
Ríkisstjórn á nýlenduverði (14.11.2013)
Matsfyrirtæki mótfallin álverum 18.11.2013
Ósýnilega höndin í vösum skattgreiðenda (4.11.2013)
Upplýsingabyltingin og pilsfaldakapítalistar (16.7.2013)
Forsætisráðherra, strámenn og álver (3.6.2013)
Kosningaskjálfti og atkvæðakaup (7.3.2013)
Atvinnuvegaráðherra styrkir stóriðjuna (18.2.2013)
Stóriðjulínur borgaðar úr þínum vasa (5.12.2012)
Almenningur greiðir meðlag með stóriðju (2.7.2012)
Hægrimenn og stóriðjustefnan (9.9.2012)
McKinsey dæmir stóriðjustefnuna úr leik (5.11.2012)