24. nóv. 2014

Forsætisráðherra, drullusokkar og væluskjóður

Forsætisráðherra hefur kveinkað sér undan umræðunni að undanförnu með hefðbundnum hætti. Nú segir hann að það þurfi að eyða „hatrinu" sem einkennir umræðu eftirhrunsáranna og að þjóðin ætti að temja sér að ræða samfélagsmálin af yfirvegun og með rökum. Í samtali við Morgunblaðið sagði hann: „Ég held að það sé ástæða fyrir alla til þess að hafa áhyggjur af því hvernig þjóðfélagsumræðan hefur þróast. Hún er auðvitað afleiðing af ákveðnum tíðaranda sem hefur verið ríkjandi undanfarin ár." Þá sagði forsætisráðherra á fundi Framsóknarflokksins um helgina að umræðan hefði „líklega sjaldan eða aldrei náð því marki sem við sjáum nú." Neikvæðni og heift hefðu fengið meiri athygli en eðlilegt gæti talist og því væri tíðarandinn slíkur að þessi „brenglaða sýn" næði athyglinni og gæfi tóninn fyrir umræðuna.

Brengluð sýn og hatur. Það er eins og að forsætisráðherra hafi brugðið upp spegli og séð sjálfan sig og eigin málflutning í gegnum tíðina. Því það er ekki eins og forsætisráðherra hafi úr háum söðli að detta, hann er ekki Aristóteles endurfæddur eða Móðir Teresa þjóðmálaumræðunnar.

Agnar Kristján Þorsteinsson birti fróðlegan pistil árið 2012 um umræðuhefð Sigmundar Davíðs sem var þá í stjórnarandstöðu. Þá var hann svo yfirvegaður að hann líkti málflutningi ríkisstjórnarinnar við kommúnista millistríðsáranna, hann var svo jákvæður að hann sagði Ísland minna orðið á Austur-Þýskaland, hann var svo rökfastur að hann setti valdatöku kommúnista í Ungverjalandi í samhengi við stjórnlagaráð og hann var svo ákveðinn í að auka trú á framtíð landsins að hann setti samansemmerki milli stjórnarskrársákvæðis um þjóðareign á auðlindum og stefnu Sovétríkjanna. Og hatur og brengluð sýn var auðvitað víðsfjarri þegar hann sakaði fjölmiðla um McCarthy-isma. Þessi sami Sigmundur virðist nú kunna þá ræðu eina að þjóðfélagsumræðan sé ósanngjörn og skorti yfirvegun og rök! Það er þetta með bjálkann og flísina.

Og af þessu tilefni rifjast upp fyrir mér ummæli föðurs forsætisráðherra sem uppnefnir fólk drullusokka og væluskjóður. Það er þetta með eplið og eikina.

20. nóv. 2014

Þjóð í lýðræðislegu vistarbandi

Nýlegar fréttir segja að ríkisstjórnin bæti við sig fylgi og að þingmönnum Sjálfstæðisflokksins myndi fjölga yrði nú gengið til kosninga. Það er ein leið til að lýsa veruleikanum. Önnur leið er að benda á að í þeirri könnun sem fréttirnar byggja á var hringt í 800 manns og af þeim sögðust einungis 208 styðja ríkisstjórnarflokkana, eða 26%. 31% styður stjórnarandstöðuflokkana en flestir, eða 43%, sögðust ekki styðja flokk, ætla að skila auðu eða neituðu að svara. Sú fyrirsögn sem lýsti þessu ástandi best að mínum dómi væri líklega: „Fulltrúalýðræði í krísu.“

Aðrar skoðanakannanir undirstrika þetta, t.d. kannanir MMR um traust í samfélaginu. Fulltrúalýðræðið byggir jú á trausti - viðurkenningu á valdi eins yfir öðrum. Við verðum því að treysta þeim sem við kjósum á fjögurra ára fresti. En einungis rúm 17% segjast nú bera mikið traust til ríkisstjórnarinnar og 12,8% bera mikið traust til Alþingis. Traustið - forsendan fyrir valdaframsalinu - er því brostið. Sagði einhver: „Fulltrúalýðræði í krísu“?

Þingmenn og ráðherrar sem neita að horfast í augu við þennan veruleika nefna það gjarnan að hér hafi nýlega farið fram Alþingiskosningar. Að þar með hafi þeir fengið umboð til að fara sínu fram. Þannig sé díllinn. En kjósendur eru ekki lengur sáttir við þetta fyrirkomulag. Gott dæmi um það er Óli Palli, útvarpsmaður á RÚV, sem birti eftirfarandi játningu á facebook nýverið: „Það er fávitum eins og mér að kenna að svona rugludallar ... eru við völd á Íslandi í dag. Mér var lofað að stökkbreytta húsnæðislánið mitt yrði leiðrétt og ÞESS VEGNA KAUS ÉG FRAMSÓKNARFLOKKINN í síðustu konsningum! ... Fari ég og önnur fífl í rassgat!“ Þannig skrifar fórnarlamb fulltrúalýðræðis í krísu.

Fulltrúalýðræði með fjögurra ára kjörtímabil er úreld hugmynd. Þetta er aðferð sem við höfum notað í nær heila öld, eða frá árinu 1919. Við getum líka kallað þetta samfélagslegan ávana sem hefur nú breyst í ósið. Við gætum rétt eins reynt að bjóða upp á súrmat í mötuneytunum þrjá daga vikunnar, mælt vegalengdir í dagleiðum eða skrifað á skinn í stað þess að senda snapchat. Eitt x á fjögurra ára fresti dugar ekki lengur. Það er of fábrotin leið til tjáningar á upplýsingaöld. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, orðaði það svo í bókinni Íslensk þjóðfélagsþróun 1880-1990: „Kosningar eru að mörgu leyti ófullkomin aðferð við að tjá óskir kjósenda. Tækifærið til að skrifa einn kross inn á atkvæðaseðil með reglulegu millibili, er fremur fátæklegt tjáningarform.“ Með þessu móti er samband kjósenda og fulltrúa þeirra í sjálfskipaðri krísu.

Hugsum aðeins um samband þingmanns og kjósanda sem samband tveggja einstaklinga. Því hvað er samband þeirra annað en bara það? Úr orðum Óla Palla og vilja almennings eins og hann birtist í skoðanakönnunum má álykta að kjósendur upplifi sig blekkta í þetta fjögurra ára langa samband. Þannig breytist sambandið mjög fljótt úr fulltrúalýðræði í lýðræðislegt vistarband, þvingað samband eins einstaklings við annan. Óhjákvæmilega kemur að því að sambandið reynist svo skaddað að það er ekki hægt að laga. Ekkert traust reynist lengur til staðar, eða bara 12,8% traust eins og könnun MMR leiðir í ljós. Skilnaður reynist þá betri leið en áframhaldandi samband.

Með sama áframhaldi breytist x-ið á kjörseðlinum í kross á leiði fulltrúalýðræðisins. Eina leiðin til að lýðræðið lifi áfram er að það þróist í takt við tímann og tæknina. Þannig geta kjósendur t.d. ekki sætt sig við 82% mun á vægi atkvæða milli kjördæma, að atkvæði 22.295 kjósenda féllu dauð í síðustu kosningum eða að ríkisstjórn með einungis 51% greiddra atkvæða, eða 40% stuðning fólks á kosningaaldri, skuli leggja í mjög umdeildar breytingar á samfélaginu. Breytingar sem nú virðast einungis njóta stuðnings 25% kjósenda samkvæmt könnunum. Almenningur verður að fá alvöru lýðræðisverkfæri í hendurnar. Í Alþingiskosningum ætti að bjóða kjósendum upp á fyrsta og annað val til að minnka líkurnar á því að atkvæði falli dauð. Fólkið í landinu verður að geta krafist kosninga um umdeild mál, það verður að auka möguleikann á að kjósa fólk en ekki flokka og kjósendur ættu að geta krafist almennra kosninga um vantraust á einstaka þingmenn og ráðherra.

Við sættum okkur ekki lengur við aldargamlar leikreglur. Tími lýðræðislegra vistarbanda er liðinn.

18. nóv. 2014

Alþingi rannsaki ráðherra og ráðuneyti

Með því að játa á sig lekann úr dómsmálaráðuneytinu kom fyrrverandi aðstoðarmaður innanríkisráðherra í veg fyrir að ráðherra, lögreglustjóri og embættismenn dómsmálaráðuneytisins þyrftu að svara mikilvægum spurningum í sakamáli á hendur honum. Þá hefði eflaust reynt verulega á hæfileika sumra til að segja satt og rétt frá, enda segir í 142. gr. almennra hegningarlaga að hver sem skýri rangt frá einhverju fyrir rétti skuli sæta fangelsi allt að fjórum árum.

Frá því að Gísli játaði á sig sök hafa margar spurningar vaknað. Hvað vissu fyrrverandi dómsmálaráðherra og embættismenn dómsmálaráðuneytisins t.d. um lekann? Áttu embættismenn þátt í að semja svör ráðherra til Alþingis þar sem eðlilegum spurningum Alþingismanna var svarað af fyrirlitningu og hroka? Hver er þáttur núverandi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins í málinu? Hvers vegna er misræmi í frásögn aðstoðarmannsins og ráðherrans af málinu? Hvers vegna vildi ráðherra ekki að lögregla rannsakaði tölvu aðstoðarmannsins? Var það rétt sem ráðherrann fullyrti í Kastljósi að lögfræðingar ráðuneytisins hefðu talið óhætt fyrir hana að hafa afskipti af rannsókn lögreglu á lekanum? Getur ráðherra sett heilt ráðuneyti í upplýsingabann? Greiddi ráðuneytið fyrrverandi hæstaréttardómara fyrir að reka mál ráðherrans í fjölmiðlum? Hvaða mistök voru gerð í innanhússrannsókn rekstrarfélags stjórnarráðsins á tölvum ráðuneytisins, en hún hreinsaði aðstoðarmanninn ranglega af sök? Og fylgir því engin refsing að handhafi framkvæmdavalds reyni að varpa sök á saklaust fólk eins og t.d. starfsfólk rauða krossins og ræstingafólk og öryggisverði innanríkisráðuneytisins?

Öllum þessum spurningum þarf að svara til að veikar stoðir stjórnkerfisins fúni ekki enn frekar. Æðstu stofnanir dóms- og löggæsluvaldsins í landinu mega ekki liggja undir grun um að starfa á gráu svæði eða að hafa ekki taumhald á vanhæfum stjórnmálamönnum eða spilltum aðstoðarmönnum þeirra. Lögbrot eiga ekki að fá að þrífast í efstu lögum stjórnkerfisins án þess að öllum steinum sé velt við til að fá sannleikann fram í dagsljósið. Og nú þegar ljóst er orðið að enginn kemur eiðsvarinn fyrir dómstóla vegna málsins þá er bara ein leið fær. Alþingi verður að stofna rannsóknarnefnd samkvæmt lögum nr. 68 frá 2011. Slík nefnd hefði mjög ríkar heimildir til að komast til botns í lekamálinu og rannsaka mögulegan þátt ráðherra og embættismanna í því. Í lögunum segir m.a. að sérhverjum sé skylt að verða við kröfu rannsóknarnefndar um að láta í té gögn og upplýsingar sem hún fer fram á þótt þær séu háðar þagnarskyldu, þar á meðal minnisblöð og álit sérfræðinga. Sama gildir um upplýsingar sem óheimilt er að lögum að veita fyrir dómi nema með samþykki ráðherra. Einnig getur nefndin kallað einstaklinga til skýrslugjafar og notið liðsinnis héraðsdómara við að draga fólk fyrir dóm til að bera vitni.

Þetta er hin eina færa leið sé ætlunin að byggja upp traust almennings á ráðuneytum og stofnunum ríkisins.

1. nóv. 2014

30 ástæður til að mótmæla 3. nóvember

Boðað hefur verið til mótmæla gegn ríkisstjórninni á Austurvelli á mánudag kl. 17. Viðbrögðin hafa verið ótrúleg, en á tveimur dögum hefur boð á mótmælin borist 50.000 einstaklingum og um 4.000 hafa boðað komu sína. Ég hef aldrei séð viðburð á facebook fá önnur eins viðbrögð.

Ég hef tekið saman þrjátíu ástæður sem fólk gæti haft til að mæta á mótmælin. Ef þið teljið einhver tilefni til mótmæla vanta á þennan lista þá getið þið bætt þeim við í umræðukerfið hér að neðan.


  • Hækkun á matarskatti.
  • Heilbrigðiskerfið holað að innan.
  • Almenningur greiðir nú um fimmtung allra heilbrigðisútgjalda úr eigin vasa.
  • Kostnaður krabbameinssjúklinga getur numið hundruð þúsunda króna á ári hverju.
  • 2% fjölskyldna í landinu eiga nær helming allra skuldlausra eigna.
  • 10% tekjuhæstu Íslendingarni fá rúmlega 1/3 allra launa á Íslandi og tekjuhæstu 20% fá fær um 56% allra launa.
  • Bónusar hálaunafólks í bönkum hækka.
  • Auðlegðarskattur felldur niður.
  • Íslenskir milljarðar í skattaskjólum.
  • Stór hópur fólks sér fram á að þurfa greiða af verðtryggðum námslánum alla ævi.
  • Auðlindagjöld á sjávarútvegsfyrirtæki eru lækkuð verulega þó að þau hafi hagnast um 80 milljarða frá 2009.
  • Vaxandi barnafátækt.
  • Húsnæðisverð í engu samræmi við tekjur flestra.
  • Verðtrygging færir milljarða frá almenningi til fjármálastofnana, verðtryggðar skuldir hækkuðu t.d. um rúma 70 milljarða árið 2013 í 4,2% verðbólgu. Heimilin skulduðu 1.927 milljarða í árslok 2013.
  • Endurgreiðsla af 15 milljóna kr. húsnæðisláni er u.þ.b. 27 milljónir í Skandinavíu en vegna verðtryggingar er hún rúmar 100 milljónir á Íslandi.
  • Um 2.500 milljarðar voru afskrifaðir hjá starfandi fyrirtækjum 2009-20013, þar á meðal sjávarútvegsfyrirtækjum, á meðan heimilin fá um 300 milljarða afskrifaða.
  • Hálendið lagt undir háspennulínu og hraðbraut.
  • Viðkvæmum og jafnvel skálduðum persónuupplýsingum lekið úr ráðuneytum.
  • Vopnavæðing lögreglu.
  • Upplýsingasöfnun lögreglu um mótmælendur og ákærur.
  • Dregið úr möguleika 25 ára og eldri til að ljúka stúdentsprófi.
  • Verðsamráð fyrirtækja sem kostar almenning milljarða.
  • Ónýtt lífeyrissjóðakerfi.
  • Lækkun vaxtabóta.
  • Kennitöluflakk.
  • Stóriðjan kemur hagnaði undan skatti.
  • Stjórnarskráin hefur verið svæfð í nefnd.
  • Ríkisstjórn sem fékk tæplega helming greiddra atkvæða í kosningum og nýtur nú lítils stuðning samkvæmt könnunum gerir grundvallarbreytingar á samfélaginu.
  • Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu hefur gert alvarlegar athugasemdir við að atkvæði sumra kjósenda vegur aðeins til helmings á við atkvæði annarra.
  • Kosning- og flokkakerfið endurspeglar ekki vilja kjósenda, en í síðustu kosningum fengu 22.295 kjósendur engan fulltrúa á Alþingi og að auki skiluðu 4.217 auðu.