„Á meðan er okkar sæng upp reidd: Að verja hálendið, sjálft hjarta landsins, með ráð og dáð, sem sverð þess og skjöldur. Og annaðhvort verjum við það núna eða aldrei. Í húfi er æran, þín og mín; heiður allra Íslendinga." Svo mælti Guðmundur Páll Ólafsson í ræðu á hálendisfundinum í Háskólabíói 28. nóvember 1998.
Á þeim fimmtán árum sem liðin eru frá þessari herkvaðningu hefur Landsvirkjun tekið stóra sneið af hálendiskökunni með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar. Og enn er sótt í kökuna af áfergju. Til dæmis vill Landsnet yfir Sprengisand með háspennulínur, Landsvirkjun er byrjuð að undirbúa Skrokkölduvirkjun og Orkustofnun hefur veitt leyfi til rannsókna vegna virkjanaáforma við Hagavatn. Ef fram fer sem horfir verður engin kaka eftir, bara sneiðar á stangli. Orkufyrirtækin vofa yfir veisluborði hálendisins, rekin áfram af óseðjandi græðgi verktakafyrirtækja og fjármálastofnana. Þau eru til í að færa hvaða fórnir sem er fyrir skammtímagróða. Þeirra vegna mega víðernin verða minningin ein.
Þetta sætta margir sig alls ekki við og nýverið gengu Ferðaklúbburinn 4x4, Ferðafélag Íslands, Ferðafélagið Útivist og SAMÚT til liðs við baráttu Landverndar fyrir vernd hálendisins. Þannig er orðið til afar sterkt afl í þessari baráttu, því að baki þessum félögum standa 30.000 félagsmenn. Og þeim mun fjölga því að viðbrögðin við þessu samstarfi hafa ekki látið á sér standa. Fjöldi félaga, t.d hestamannafélaga og veiðifélaga, hefur lýst yfir áhuga á að ganga til liðs við baráttuna og í almennri umræðu verður maður var við mjög aukinn stuðning við að hálendinu - hjarta landsins - verði hlíft. Þannig skrifar Styrmir Gunnarsson t.d. í Morgunblaðið 29. mars: ,,Nú er ekki lengur hægt að segja, að þeir sem vilja ekki leggja uppbyggða vegi um hálendið þvers og kruss, með malbiki, sjoppum og benzínstöðvum séu vitleysingar. Hálendið án slíkra vega er auðlind, sem aflar þjóðinni tekna. ... Nú er það svo að peningar eru ekki allt. Jafnvel þótt hálendi Íslands skilaði engum tekjum ætti að vernda það. En í veröld, þar sem allt snýst um peninga og allt er metið til fjár skiptir máli, að fólk átti sig á að sú sameign íslenzku þjóðarinnar, sem hér er fjallað um, ósnortnar óbyggðir, hvítir jöklar, svartir sandar og tærar ár og vötn og hreint loft skila þjóðinni nú meiri gjaldeyristekjum en sjávarútvegurinn og orkufrekur iðnaður."
Sérfræðingar Landsvirkjunar og Landsnets sitja nú við tölvurnar og reikna burðarþol og arðsemi og teikna línur og lónstæði. En það er ein forsenda sem þeir gleyma að taka tillit til í öllum sínum teikningum og reikningum - og það er tíðarandinn. Því einhverstaðar segir að ekkert fái stöðvað tímans þunga nið, ekki einu sinni rammgerðustu stíflur og möstur. Líklega hafa þessi fyrirtæki ekki falið neinum að mæla tilfinningarnar sem fólk ber til hálendisins. Og það er enginn að meta umhverfisáhrif gjörnýtingarstefnunnar á grasrótina - fólkið í landinu. Þar leynist gallinn í áætlunum fyrirtækjanna. Hálendið verður varið.