27. nóv. 2012

Vönduð virkjanaumfjöllun Fréttablaðsins

Fréttablaðið birti um helgina vandaða umfjöllun um fyrirhugaða Bjarnarflagsvirkjun Landsvirkjunar við Mývatn. Það var þrennt í greininni sem vekur sérstaka athygli.

Í fyrsta lagi svaraði Landsvirkjun ekki spurningum blaðamanna en sendi þeim þess í stað greinargerð sem unnin var fyrir Alþingi í haust. Spurningar blaðamenna fjölluðu t.d. um kostnað við mengunarvarnir og hugsanlega skaðabótaskyldu. Það kemur því ekki á óvart að einungis 35% aðspurðra í könnun Capacent Gallup telja Landsvirkjun opið og gagnsætt fyrirtæki .

Í öðru lagi koma fram upplýsingar um mikla hagsmuni sveitarstjórnarmanna í Skútustaðahreppi, þess sveitarfélags sem veitir Landsvirkjun leyfi til framkvæmda. Tveir sveitarstjórnarmenn af fimm eru starfsmenn Landsvirkjunar og sveitarstjórinn er eigandi lands í Reykjahlíð og mun því fá tekjur í eigin vasa verði virkjunin reist. Þetta er enn ein áminningin um það að fámenn sveitarfélög ráða illa við það alræðisvald í skipulagsmálum sem þau hafa fengið á undanförnum árum.

Í þriðja lagi tjáir heilbrigðisfulltrúi Norðurlands eystra sig mjög opinskátt um virkjanaáformin og möguleg umhverfisáhrif þeirra. Hann segir að vísbendingar hafi kom fram á undanförnum árum um að jarðvarmaorka sé ef til vill ekki eins græn og áður hafi verið talið. Því þurfa að hugsa þetta allt upp á nýtt. Hann segir að tæknin sé ung, athuganir af skornum skammti og bregðast þurfi við með auknum rannsóknum og fyrirbyggjandi aðgerðum. Ekki dugi að ana út í óvissuna. Hann segir sérstakt áhyggjuefni að við mat á umhverfisáhrifum Hellisheiðarvirkjunar og einnig á Suðurnesjum hafi enginn séð fyrir þau vandamál sem siðan hafi komið upp. Þess vegna geri allir sem koma að málinu fyrir hönd opinberra stofnana sér grein fyrir því að við mikinn vanda sé að etja. Þetta eykur með manni von um að stofnanir sem veita leyfi fyrir virkjunum, bæði Heilbrigðiseftirlitið og Orkustofnun, muni sjá til þess að fyllstu varúðar verði gætt við Mývatn.

(Landvernd hefur farið fram á að Landsvirkjun láti vinna nýtt mat á umhverfisáhrifum Bjarnarflagsvirkjunar við Mývatn en núgildandi mat er að verða tíu ára gamalt. Þú getur tekið undir þessa kröfu á heimasíðu Landverndar).

19. nóv. 2012

Financial Times um svartar horfur í álframleiðslu

Þróun álverðs undanfarin fimm ár. Mynd: InfoMine.com.
Nýverið fullyrti ég í grein í Fréttablaðinu að hér á landi yrðu ekki reist fleiri álver. Því til rökstuðnings vitnaði ég m.a. í grein Financial Times frá 7. október sem ber titilinn ,,Aluminium: Shock and ore".

Í greininni er farið yfir erfiða stöðu álframleiðenda, en verð á áli lækkaði um 20% á liðnu ári og um önnur 15% á fyrri hluta þessa árs. Álframleiðendur hafa ekki notið álíka hækkana og hafa t.d. orðið í viðskiptum með kopar og járngrýti vegna aukinna efnahagsumsvifa Kínverja á undanförnum árum. Verðið hefur í raun lítið breyst síðan 1980 (FT miðar við 2.100 dali fyrir tonnið en í dag stendur verðið í 1.922 dölum). Á sama tímabili hefur kopar nær þrefaldast í verði og járngrýti áttfaldast. Af þeim námuafurðum (e: mined commodity) sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fylgist með hefur ál staðið sig verst á mörkuðum, þ.e. hækkað minnst í verði.

Þróun á álmörkuðum hefur gert það að verkum að samanlagt framleiðsluverðmæti stærstu álframleiðendanna, t.d. Alcoa og Rio Tinto, hefur lækkað úr 200 milljörðum dala fyrir fimm árum síðan í 65 milljarða. Á sama tímabili hefur samanlagður hagnaður fimm stærstu álframleiðendanna lækkað úr 9,4 milljörðum dala í 2,4 milljarða. Nýleg árshlutauppgjör leiða í ljós að fyrirtækin eru nú rekin með tapi. Stjórnendur Rusal sögðu frá því í liðinni viku að álverð samsvaraði nú framleiðslukostnaði.

Álverð hefur lækkað þrátt fyrir mjög aukna eftirspurn eftir áli. Fyrir því eru þrjár ástæður. Í fyrsta lagi efnahagskreppa á Vesturlöndum, í öðru lagi miklar uppsafnaðar álbirgðir og í þriðja lagi gríðarleg framleiðsluaukning í Kína. Kínverjar eru háðir öðrum um marga hluti, þar á meðal kopar og járngrýti og það hefur leitt til verðhækkana á þeim hrávörum. En um álið gilda önnur lögmál. Þannig er Kínverjum að takast á undraskömmum tíma að verða sjálfum sér nægir um ál. Árið 2000 framleiddu þeir einungis 2,8 milljónir tonna en í fyrra framleiddu þeir 17,8 milljónir tonna, eða um 40% heimsframleiðslunnar. Þannig hafa Kínverjar náð markaðsráðandi stöðu og stefna að enn aukinni framleiðslu á sama tíma og aðrir álframleiðendur reyna að draga úr framleiðslu til að stuðla að verðhækkunum. Verksmiðjur sem fyrirhugað er að reisa í Xinjiang-héraði á næstu þremur til fjórum árum gætu aukið ársframleiðslu Kínverja um tíu milljónir tonna. Það er meira en samanlögð núverandi ársframleiðsla álvera í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku.

Þetta veldur álframleiðendum á Vesturlöndum miklum vandræðum. Financial Times hefur eftir Marius Kloppers, forstjóra BHP Billiton, stærsta námufélags heims og sjötta stærsta álframleiðanda heims, að honum líki ekki álið. Enda hefur fyrirtækið lýst því yfir að það muni ekki fjárfesta frekar í áliðnaði. Þá er haft eftir Daniel Brebner, sérfræðingi Deutsche Bank í viðskiptum með málma, að enginn iðnaður geti þrifist til langrar framtíðar við slíkar aðstæður. Hann telur að langur tími muni líða áður en birta taki til á álmörkuðum.

Í grein Financial Times er m.a. fjallað um rekstur Rio Tinto, eiganda álversins í Straumsvík, en fyrirtækið keypti Alcan árið 2007 fyrir rúma 38 milljarða dala. Sú fjárfesting reyndist algjört glapræði, enda hefur álverð lækkað um rúman þriðjung frá kaupunum. Neyddist Rio Tinto þess vegna til að afskrifa 8,9 milljarða dala úr bókum sínum á þessu ári og blaðið fullyrðir að fyrirtækið reyni nú að selja eignir, þar á meðal álver. Forbes greindi nýverið frá því að Rio Tinto hefði lokað álveri á Bretlandseyjum fyrr á þessu ári, sækist eftir að loka öðru í Ástralíu og reyni auk þess að semja um lækkun á orkuverði í Nýja-Sjálandi. Daily Telegraph greindi frá því í október að Rio Tinto ætlaði að fækka starfsfólki í Evrópu um 30% fyrir lok næsta árs.

Þessi staða álframleiðenda hefur mikil áhrif hér á landi. Þannig hefur Rio Tinto nýlega sagt þrettán starfsmönnum fyrirtækisins upp störfum í Straumsvík og hægt hefur verið á framkvæmdum við stækkun álversins. Afleiðingarnar fyrir skuldsett orkufyrirtæki eru líka alvarlegar vegna þess að verð á orku til álvera hér á landi er að stærstum hluta tengt álverði. Það gerir stjórnendum Orkuveitu Reykjavíkur t.d. erfiðara um vik að bjarga rekstri fyrirtækisins, en það á að greiða 25 milljarða króna í afborganir af lánum á næsta ári og síðan á milli sextán til tuttugu milljarða á ári fram til ársins 2018.

Financial Times orðar það svo að samfélög sem reiða sig á álver standi nú berskjölduð frammi fyrir þeirri þróun sem eigi sér stað á álmörkuðum. Slík samfélög kallar höfundur greinarinnar monotown og á þá við bæi og borgir. Það hvarflar líklega ekki að honum að til sé þjóð sem hefur gert sig háða álframleiðendum með því að selja álverum tæp 80% þeirrar orku sem hún framleiðir. Hvað þá að til séu stjórnmálamenn meðal þeirrar þjóðar sem sækjast fast eftir því að hækka þetta hlutfall enn frekar með því að reisa fleiri álver. En á Íslandi eru til stjórnmálamenn sem virðast staðráðnir í að vaða úr einu hruninu í annað.

15. nóv. 2012

Hagvaxtartrúin og siðaskipti 21. aldar

Á undanförnum árum hefur stjórnmálaumræðan að mestu farið fram á forsendum fortíðarinnar og hagsmunasamtaka hennar. Þeir sem eiga ríkra hagsmuna að gæta hafa fengið að marka hjólförin sem umræðan hefur hjakkað í. Þrátt fyrir að hagstjórnarfyrirkomulag þeirra hafi hrunið þá fer umræðan samt áfram fram á þeirra forsendum. Hagvaxtarumræðan er dæmi um það.

Hagvöxtur virðist áfram ætla að verða sá mælikvarði sem stjórnmálamenn, stofnanir og fjölmiðlar nota á árangur samfélagsins. Samt þekkjum við vel hversu gallaður hann er. Simon Kuznets, höfundur hugtaksins verg landsframleiðsla, varaði sjálfur við slíkum mælikvarða árið 1960: ,,Distinctions must be kept in mind between quantity and quality of growth, between its costs and return, and between the short and the longrun … Goals for ´more´ growth should specify more growth of what and for what“. (Breyting á landsframleiðslu milli ára, mæld í prósentum, kallast hagvöxtur)

Eimiliano Duch, einn virtasti fræðimaður heims á sviði samkeppnisfræða, kom nýverið hingað til lands og sagði þá í viðtali við Fréttablaðið að vandamál Spánar væri ekki síst að alltof mikið hefði verið horft til hagvaxtar á bóluárunum. Stjórnmálamenn hefðu sagt: ,,Sjáið, hagvöxturinn er góður og allir hafa nóg að gera.“ Duch sagði að þannig gæti hagvöxtur ekki bara verið ómarktækur sem mælistika á velgengni hagkerfa, heldur beinlínis hættulegur.

Tim Jackson fjallar um það í bók sinni Prosperity without growth hvernig hagvexti hefur verið haldið uppi undanfarna tvo áratugi með gríðarlegri skuldasöfnun. Afleiðingar þess séu nú að koma fram. Ísland er þar engin undantekning. Á síðustu fjórum árum fóru skuldir hins opinbera úr 700 í 2.100 milljarða, yfirdráttalán heimilanna tvöfölduðust nærri því á síðustu þremur árum og námu 74 milljörðum í apríl og verðtryggð lán heimilanna nálgast nú 700 milljarða en voru 554 árið 2007.

Gagnrýni á hagvöxt er svo sem ekki ný af nálinni. Þannig flutti Robert Kennedy fræga ræðu í mars 1968, skömmu áður en hann var myrtur, þar sem hann sagði: ,,Our gross national product … if we should judge America by that – counts air pollution and cigarette advertising, and ambulances to clear our highways of carnage. It counts special locks for our doors and the jails for those who break theim. It counts the destruction of our redwoods and the loss of our natural wonder in chaotic sprawl. It counts napalm and the cost of a nuclear warhead, and armored cars for police who fight riots in our streets. … Yet the gross national product does not allow for the health of our children, the quality of their education, or the joy of their play. It does not include the beauty of our poetry or the strength of our marriages; the intelligence of our public debate or the integrity of our public officials. It measures neither our wit nor our courage; neither our wisdom nor our learning; neither our compassion nor our devotion to our country; it measures everything, in short, except that which makes life worthwile.“

Og gagnrýni af sama meiði hefur líka heyrst hér á landi. Þannig skrifar Hörður Bergmann í Þjóðráð árið 1999: ,,Rányrkja og ofveiði getur líka talist hagkvæm og haldið hagvexti uppi um skeið! Auðlindarýrnun, náttúruspjöll og annað tjón, sem fylgt getur efnahagsstarfseminni, er ekki í afskriftalið hefðbundinnar þjóðarframleiðslu. Það verður því að taka með fyrirvara endurtekinni hvatningu til þjóðarinnar um að standa sig í hagvaxtarkapphlaupi. Það kann að vera hagkvæmt og hollt að skokka rólega í slíku hlaupi.

Að stjórna hagkerfi eftir hagvaxtarmælingum er eins og að aka bíl með augun eingöngu á hraðamælinum. 2004 – 7,7%. 2005 - 7,1%. 2006 – 4,4%. 2007 – 4,9%. Við enduðum þennan bíltúr á því að fara fram af hengifluginu. Samt er okkur strax aftur orðið starsýnt á hraðamælinn. Þess vegna er mikilvægt að tillögur um útreikning framfarastuðulsins komist sem fyrst til framkvæmda, en stuðulsins er bæði getið í stefnu Alþingis um græna hagkerfið og sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar. Framfarastuðullinn tekur ýmislegt til greina t.d. misskiptingu tekna, kostnað vegna umhverfisspjalla og ósjálfbæra nýtingu auðlinda og leiðréttir hagvaxtarmælingar með tilliti til þessara þátta.

Hagvaxtarhagkerfið er kirkja nútímans og hagfræðingar eru prestar þess. Nú er kominn tími á önnur siðaskipti.


12. nóv. 2012

Samþykkir Alþingi frumvarp um jafnt vægi atkvæða?

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni í október sögðust rúm 58% kjósenda vilja að í stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt. Rúm 29% voru því andvíg.

Það er gott og blessað að fá slíkt ákvæði í stjórnarskrá. En það er hægt að jafna atkvæðavægi með miklu einfaldari hætti - með lögum.

Þór Saari, Birgitta Jónsdóttir og Margrét Tryggvadóttir hafa lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem lögð er til ný skipting þingsæta milli kjördæma. Eins og segir í greinargerð þá er frumvarpið lagt fram í þeim tilgangi að ná fram fullum jöfnuði í vægi atkvæða.

Fyrir utan að skipta þingsætum upp á nýtt þá leggja þingmennirnir til að landskjörstjórn skipti síðan þingsætum milli kjördæma fyrir hverjar kosningar í réttu hlutfalli við tölu kjósenda.

Ég veit ekki hvað ætti að koma í veg fyrir að Alþingismenn svari kalli 58% kjósenda og hleypi þessu frumvarpi hratt í gegnum þingið.

Eins og fram kemur í fréttaskýringu Morgunblaðsins árið 2009 reyndust 50% fleiri kjósendur á bak við hvert þingsæti í Reykjavíkurkjördæmunum og í Suðvesturkjördæmi en í hinum kjördæmunum þremur í Alþingiskosningunum það árið. Munurinn á milli Suðvestur- og Norðvesturkjördæmis var mestur eða um 100%.

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu gerði athugasemdir við þetta og vísaði í tilmæli Evrópuráðsins um að misræmi í atkvæðavægi skuli ekki vera umfram 10% og alls ekki yfir 15%.

Það er ekkert sem ætti að koma í veg fyrir að þingmeirihlutinn lagfæri þetta óréttláta kerfi með lögum - ekki nema þá að viljinn til að viðhalda óréttlætinu sé víðtækari innan þingflokka Samfylkingar og Vinstri-grænna en búast mætti við.

11. nóv. 2012

Hvert stefnir Samfylkingin í stóriðjumálum?

Stóra deilumálið innan Samfylkingar í aðdraganda kosninga er hvor stefnan skuli verða ofan á, gjaldþrota stóriðjustefna eða Fagra Ísland. Þetta kom berlega í ljós í niðurstöðu prófkjara gærdagsins.

Í Norðausturkjördæmi var Kristján L. Möller valinn til að leiða lista Samfylkingar, en hann er leiðtogi stóriðjustefnunnar innan flokksins. Í öðru sæti lenti svo Erna Indriðadóttir, upplýsingafulltrúi álvers Alcoa í Reyðarfirði, þess fyrirtækis sem reynir nú að þvinga Grænlendinga til að veita sér skattfrelsi til áttatíu ára.

Í Suðvesturkjördæmi munu fulltrúar Fagra Íslands hins vegar leiða listann. Þannig hefur Árni Páll Árnason t.d. gagnrýnt það sem hann kallar stóriðjusovét Sjálfstæðisflokksins og Magnús Orri Schram hefur sagt að umhverfisvernd geti orðið besta atvinnustefnan. Katrín Júlíusdóttir sýndi fram á það sem iðnaðarráðherra að hún gat komist að sameiginlegri niðurstöðu um rammaáætlun með umhverfisráðherra Vinstri grænna og Margrét Gauja Magnúsdóttir, sá Hafnfirðingur sem náði efst á listann, er ekki úr hópi gömlu stóriðjukratanna í Hafnarfirði.

Þannig að Fagra Ísland vann í Suðvesturkjördæmi en stóriðjustefnan í Norðaustur. Stóra spurningin er því hvor stefnan verður ofan á í þeim kjördæmum sem eiga eftir að velja á lista.

Í Reykjavík eru fáir talsmenn stóriðjustefnunnar, ef nokkrir. Eindregnust í stuðningi við Fagra Ísland eru líklega Ósk Vilhjálmsdóttir, Mörður Árnason og Skúli Helgason. Það verður því fróðlegt að fylgjast með árangri þeirra í flokksvalinu um næstu helgi.

Prófkjör í Norðvesturkjördæmi skiptir líklega litlu hvað þetta varðar, enda engin áform þar uppi um stóriðju eða stórar virkjanir. Ólína Þorvarðardóttir hefur þó gert sig meira gildandi í umræðu um umhverfisvernd en aðrir þingmenn kjördæmisins.

Í Suðurkjördæmi stendur slagurinn um leiðtogasætið á milli Björgvins G. Sigurðssonar og Oddnýjar G. Harðardóttur. Oddný sýndi fram á það á stuttum ráðherraferli að hún var talsmaður málamiðlana og gat náð sátt um rammaáætlun. Björgvin er aftur á móti einn virkasti talsmaður stóriðjustefnunnar innan Samfylkingarinnar og hefur, eftir því sem fréttir herma, reynt að koma í veg fyrir að rammaáætlun verði samþykkt í núverandi mynd á Alþingi. Hann fer nú um Suðurland og reynir að yfirbjóða aðra í virkjanamálum. Sami þingmaður og sagðist einu sinni vera á móti virkjunum í neðri hluta Þjórsár er þeim nú fylgjandi og vill þar að auki ráðast í Hagavatnsvirkjun ogHólmsárvirkjun í Skaftárhreppi. Það verður því spennandi að sjá hvort Samfylkingarfólk í Suðurkjördæmi velur til forystu talsmann hófsemdar eða stóriðjuöfga.

Það mun ráða miklu um árangur Samfylkingarinnar í komandi kosningum hvor stefnan verður ofan á. Það hefur sýnt sig í skoðanakönnunum að fleiri styðja vernd en virkjanir. Þess vegna geri ég ráð fyrir að stór hópur kjósenda leiti á önnur mið ef Samfylkingin ákveður að fylgja stóriðjustefnu þeirra Kristjáns og Björgvins.

8. nóv. 2012

Fjölmiðlar elta eigin smjörklípu

Umfjöllun um þegjandi samkomulag ríkisstjórnarinnar og Landsvirkjunar í virkjanamálum er gott dæmi um það hvernig umræða um mikilvæg mál er afvegaleidd með því að gera aukaatriði að aðalatriði. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var í Kastljósi kvöldsins og tók þátt í að spinna þráðinn.

Þessi umræða hófst þegar fréttastofa Rúv greindi frá því að þingmaður VG hefði sagt að framkvæmdir Landsvirkjunar við Bjarnarflagsvirkjun við Mývatn væru brot á þegjandi samkomulagi um að orkufyrirtæki í opinberri eigu héldu að sér höndum í virkjanamálum þar til rammaáætlun hefði verið samþykkt á Alþingi.

Eftir þetta hófu fjölmiðlar leit að hinu þegjandi samkomulagi eins og um stórpólitískt mál eða vafasaman gjörning væri að ræða. Forsætisráðherra kannaðist ekki við að hafa gert slíkt samkomulag, formaður atvinnuveganefndar Alþingis hafði ekki heyrt af slíku samkomulagi og forstjóri Landsvirkjunar ekki heldur.

En þann 18. ágúst 2009 sagði forstjóri Landsvirkjunar í viðtali í Kastljósi: ,,Mér finnst það mjög mikilvægt varðandi virkjunarkosti almennt að það eru raunverulega hlutverk stjórnvalda að ákveða hvar er virkjað. Landsvirkjun þarf að sjálfsögðu að gera rannsóknir og frumvinnu hvar er hagkvæmt að virkja, en síðan er það stjórnvalda helst með langtíma rammaáætlun að - sem sagt ákveða, þá í umboði almennings hvar skal virkja. Síðan er það Landsvirkjun þá á hverjum tímapunkti eða annarra fyrirtækja að virkja þar sem að stjórnvöld vilja virkja. Þannig að - mér finnst það mikilvægt - þetta er í rauninni pólitísk ákvörðun hvar virkjað er en þetta er ekki viðskiptaleg ákvörðun Landsvirkjunar."

Þannig að þetta þegjandi samkomulag sem enginn þorði að kannast við og fjölmiðlar eyddu nokkru púðri í að finna var þá eftir allt saman opinber yfirlýsing forstjóra Landsvirkjunar. Vinnutíma fréttamannanna hefði verið betur varið í að fjalla um aðalatriði málsins, þ.e. möguleg áhrif Bjarnarflagsvirkjunar á lífríki Mývatns, en að eltast við eigin smjörklípu.

5. nóv. 2012

McKinsey dæmir stjóriðjustefnuna úr leik

Nýlega skýrsla McKinsey & Company er afruglari fyrir umræðuna um stóriðju og virkjanir. Enda veitir ekki af í samfélagsumræðunni eins og Egill Helgason bendir á ínýlegum pistli: ,,Hér vaða uppi öfl sem hafa beinlínis að markmiði að rugla, villa og blekkja."

Skýrslan verður vonandi punkturinn fyrir aftan ruglið. Punkturinn fyrir aftan skotgrafahernaðinn, uppnefningarnar, sérhagsmunagæsluna og innihaldsleysið sem Þórður Snær Júlíusson fjallar um í leiðara Fréttablaðsins.

Eitt dæmi um blekkinguna og sérhagsmunagæsluna eru nýleg orð leiðtoga eins stjórnmálaflokksins: ,,Ísland hefur ekki efni á afturhaldssamri orkunýtingarstefnu." Dæmi um uppnefningar hjá sama leiðtoga fyrr á þessu ári: ,,Öfgamenn í umhverfismálum eru hreinlega að taka orkumál á Íslandi - og þar með verðmætasköpun til langrar framtíðar - í gíslingu."

Grípum niður í skýrslu McKinsey & Company:

,, Capital productivity in the energy sector is the lowest across all sectors of the Icelandic economy. With 25-30% of the capital stock directly or indirectly invested in the energy sector, this is a serious matter for resolution. ... This is indeed detrimental to the overall capital productivity of the Icelandic economy."

,,The Icelandic system generates far lower gross value added per TWh than does Norway (Ísland 3,750 ISK million - Noregur 8,385 ISK million), indicating a major need for a different approach to resource development and power allocation in the future."

Annað dæmi um innihaldsleysið eru nýleg orð þingmanns í viðtali: ,,Það er engin þjóð sem hefur efni á því að nýta ekki náttúruauðlindir sínar." Þegar hann var spurður að því hverju stóriðjan skilaði í þjóðarbúið og hvort erlend stóriðjufyrirtæki hirtu ekki gróðann sagði hann: ,,Nei, Kolla, þetta er bara grundvallaratriði. Það þarf engar frekari skýringar við. Þetta liggur í augum uppi eins og mynd fyrir framan okkur að það er kallað eftir erlendri fjárfestingu í íslensku atvinnulífi."

En McKinsey & Company segir: ,,At around 1% of GDP the resource rents from the current power sector are small."

Annar þingmaður sagði nýlega um fyrirhugaða fjölgun virkjana og álvera: ,,Þarna erum við að nýta auðlind og breyta henni vonandi yfir í vinnu fyrir fjölmarga og vöru sem við síðan flytjum út og sköpum gjaldeyri."

Grípum aftur niður í skýrslu McKinsey & Company: ,,Neither energy production nor metal manufacturing are particularly labor intensive industries, the economic value addedd within these industries is thus mainly derived from the return on investments."

Þeir stjórnmálaflokkar sem ganga til kosninga í vor undir merkjum stóriðjustefnunnar hafa sjálfkrafa dæmt sig úr leik. Þeir eru ómarktækir og úreltir. Stóriðjustefnan er steinrunnin og hættuleg. Hún er hagstjórnarlegt harakírí.

1. nóv. 2012

Heimska, hroki og hagsmunagæsla

Sagt er að heimska og hroki vaxi á sama tré. Bætum þriðja h-inu við, hagsmunum, og útkoman verður eitruð. Það er líklega óvíða sýnilegra en á landsþingum stjórnmálaflokka eins og Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum. Heimskan, hrokinn og hagsmunirnir geisla af Mitt Romney á þessu myndskeiði. Í kjölfar hamfaranna í Bandaríkjunum mun þessi afstaða Romney til loftslagsmála líklega verða honum að falli í forsetakosningunum. Þannig hefur Michael Bloomberg, borgarstjóri í New York, t.d. lýst yfir stuðningi við Obama á þeim forsendum að hann sé líklegri en Romney til að takast á við loftslagsvandann.

Mér er sagt að nokkrir íslenskir stjórnmálamenn hafi heimsótt landsþing Repúblikanaflokksins í haust og þótt mikið til þess koma. Enda virðast velsæmi og virðing vera á hröðu undanhaldi í íslenskum stjórnmálum. Á næstunni fá félagar í flestum stjórnmálaflokkum tækifæri til að velja sína fulltrúa í næstu Alþingiskosningum. Vandið nú valið gott fólk og losið okkur við heimskuna, hrokann og hagsmunagæsluna.