29. maí 2011

Háværir talsmenn hófsemdar

Ræða flutt á aðalfundi Landverndar 26.5.2011.

Ég sækist eftir því að verða formaður Landverndar vegna þess að á næstu misserum og árum mun reyna mjög á umhverfisverndarhreyfinguna í landinu og mig langar til að taka virkan þátt í því starfi. Atvinnuleysi, efnahagskreppa og verðhækkanir á auðlindum munu verða til þess að krafa um aukna nýtingu auðlindanna verður háværari. Fyrrverandi forsætisráðherra sló tóninn haustið 2008 þegar hann sagði að lausn efnahagsvandans væri að framleiða, framleiða, framleiða. Forstjóri Landsvirkjunar hefur lofað þjóðinni gulli og grænum skógum ef við bara, rétt sí svona, aukum raforkuframleiðslu í landinu um rúmlega helming á fimmtán árum. Hann lofar þjóðinni fjárfestingu upp á fimm milljarða bandaríkjadala, hagvaxtaráhrifum upp á ellefu prósent og um 10 þúsund störfum. Og rúsínan í pylsuendanum, sú sem á að sjá til þess að þjóðin geti ekki hafnað tilboði Landsvirkjunar: hagnaðurinn af raforkusölunni verður svipaður og hagnaður norska olíusjóðsins. En forstjóri Landsvirkjunar minnist ekkert á fórnir náttúruverðmæta, mikil verðbólguáhrif, ruðningsáhrif, tiltölulega litla verðmætasköpun stóriðjunnar, möguleg neikvæð áhrif á ferðaþjónustu, heldur ekki þær fórnir sem einstaklingar þurfa að færa með lífi og limum, ef sömu verkhættir verða viðhafðir og við Kárahnjúka.

Samtök atvinnulífsins hófu nýverið herferð undir slagorðinu ,,Atvinnuleiðin, leið uppbyggingar, framleiðslu og raunverulegra framfara“. Takið eftir – raunverulegra framfara. Já, þeir vita upp á sig sökina – þeir færðu þjóðinni óraunverulegar framfarir í áraraðir, en lofa nú og sárt við leggja að í þetta skiptið verði framfarirnar raunverulegar. Ég hlustaði á framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins svara fyrirspurnum á opnum fundi um stóriðjuframkvæmdir í Helguvík síðastliðið haust. Fram að því hélt ég að hjá Samtökum atvinnulífsins ynnu sérfræðingar með góða þekkingu á títtnefndum hjólum atvinnulífsins. Mig langar að vitna í ummæli Vilhjálms á þessum fundi: ,,Það var verið að framkvæma þarna fyrir annað hundrað milljónir á mánuði - þess vegna - og það er risin þarna grind. ... Síðan eru líka orkufyrirtækin sem voru þarna til staðar. Þau voru búin að gera samninga um orkusölu til álversins og túrbínur á leið til landsins, búið að panta þær og ganga frá því öllu saman. ... Og við fengum á fundi okkar ekki bara fulltrúa þessara fyrirtækja, heldur líka sjálfan forsætisráðherrann og fjármálaráðherrann og fullt af embættismönnum - og það var nú bara enginn af þessu góða fólki sem uppfræddi okkur um það að það væru einhver sérstök vandamál í veginum fyrir því að vera búin að klára allar hindranir og koma þeim úr vegi fyrir 1. nóvember 2009.“ Þá var spurt úr sal: ,,Trúðuð þið því?“ Og þá kom gullmolinn frá leiðtoga atvinnulífsins á Íslandi: ,,Trúðum við því. Ja, við höfðum bara mikinn áhuga á því að sjá þetta rísa." Samtök atvinnulífsins höfðu bara mikinn áhuga á að sjá þetta rísa. Háværar og oft ruddalegar kröfur Samtaka atvinnulífsins um uppbyggingu álvers í Helguvík voru sem sagt byggðar á áhuga, ekki vandaðri stefnumótun eða greiningu, ekki staðreyndum eða rannsóknum – bara áhuga, óskhyggju og kannski pínulítilli frekju. Og nú ætla þessir sömu menn að sannfæra þjóðina um að fylgja þeirra hugmyndum um raunverulegar framfarir. Afsakið, en keisarinn er ekki í fötum.

Krafan um fleiri virkjanir og stóriðju er sett fram af svo mikilli ákefð og tilfinningahita að það mætti ætla að við værum óiðnvædd og fátæk þjóð. En það er öðru nær. Þjóðin á miklar auðlindir sem ættu að gera okkur kleift að lifa hér góðu lífi án þess að leggja meira land undir virkjanir. Í nýrri raforkuspá Orkustofnunar segir að orkunotkun á mann hér á landi sé sú mesta sem þekkist í heiminum, við framleiðum fimm sinnum meiri orku en við þurfum til eigin nota og við erum meðal stærstu álframleiðenda heims - óháð höfðatölu. Sjávarauðlindin er gríðarstór, við framleiðum tíu sinnum meira af próteini en við neytum. Og við eigum gnógt af hreinu vatni og við eigum náttúru sem sífellt fleiri ferðamenn sækjast eftir að skoða. Á þessari gullkistu sitjum við, 300.000 manna þjóð. Sigurður Eyberg Jóhannsson, höfundur rannsóknar á vistspori Íslendinga, orðaði það svo að Íslendingar væru yfirstétt í hnattrænum skilningi. Hvers vegna er þá alltaf verið að reyna að telja okkur trú um að við séum fátæk þjóð í bráðavanda? Ástæðan er einföld, það þjónar hagsmunum ákveðinni afla að telja þjóðinni trú um að hana bráðvanti skyndilausn, helst í formi virkjana og stóriðju. Rétt eins og það þjónar hagsmunum annarra hópa sem selja okkur skyndilausnir að sannfæra okkur að við séum of feit, að við séum þunglynd eða ekki nógu falleg. Þeir sem græða á að selja skyndilausnir, þeir vinna hörðum höndum að því að búa til vandamál sem þeir einir geta leyst.

Hagfræðingar hafa bent á að hér þurfi að auka landsframleiðslu, en brýnna sé að finna leiðir til að auka framlegð. Það hefur lengi loðað við þjóðina að vilja magn frekar en gæði. Pabbi var lengi framkvæmdastjóri frystihúss í Vestmannaeyjum. Eftir að ég tók að sýna umhverfismálum áhuga þá sagði hann mér stundum sögur af því hvernig gengið var um fiskistofnana á árum áður. Lengst af réð það markmið eitt að að veiða sem allra allra mest. Þess vegna kom það fyrir að nokkur þúsund tonnum af fiski var landað dag eftir dag og allar bryggjur fylltust af fiski. Á einni loðnuvertíðinni fiskaðist óvenju vel og menn fylltu bryggju og hús af loðnu. Þá voru góð ráð dýr því enn barst fiskur að landi. Í hita leiksins lagði bæjarstjórinn til að ekið yrði með loðnuna í sundlaug bæjarins. Þetta var fyrir tíma Umhverfisstofnunar og heilbrigðiseftirlits, þannig að það kom í hlut góðs fólks að tala bæjarstjórann ofan af því að keyra loðnuna í laugina. Niðurstaðan varð sú að aka með loðnuna austur á eyju, þar sem henni var sturtað í slakka á túni austur af Urðunum svonefndu. Þetta verk hófu menn að kvöldlagi og voru að alla nóttina. Þegar birta tók af degi áttuðu menn sig fljótlega á því að slakkinn hafði fyllst á skömmum tíma og mest af loðnunni hafði runnið niður túnið og út í sjó aftur. Þannig bar kappið menn algjörlega ofurliði og verðmætum var kastað á glæ. Menn áttuðu sig á því síðar, að gæta þyrfti ráðdeildar og hófsemi við fiskveiðar, það var einfaldlega meira upp úr því að hafa. Gæði vörunnar urðu meiri og fiskurinn varð verðmætari. En það þurfti að hafa fyrir því að sannfæra menn um slíka forgangsröðun, og það voru ekki alltaf blíðuhótin sem menn, eins og karl faðir minn, mættu þegar þeir reyndu að sannfæra skipstjóra og sjómenn um að breyta vinnubrögðum sínum. Sömu sögu er að segja af baráttunni fyrir vernd annarra auðlinda, til dæmis jarðvegs og gróðurs. Það hefur líklega ekki alltaf verið tekið út með sældinni hjá þeim Gunnlaugi Kristmundssyni og Agli Erlendssyni þegar þeir unnu við fyrstu landgræðslugirðingarnar upp úr aldamótunum nítjánhundruð. Girðingar voru klipptar í sundur og bændur hleyptu búfé inn fyrir þær, í nýgróðurinn. Sagan segir að eitt sinn hafi gömul kona sagt við þá í armæðutón: ,,Þið eruð alltaf að basla, en ekkert sést stráið.“ Þannig hefur baráttan fyrir ráðdeild og hófsemi ekki alltaf fallið í frjóan jarðveg. En tíminn leiðir í ljós hversu bráðnauðsynleg sú barátta er.

Nú standa náttúruverndarsinnar í svipuðum sporum, þegar við reynum að sannfæra aðra um mikilvægi þess að ganga fram af hófsemd og ráðdeild í virkjanamálum. Auðlindirnar sem um teflir í þetta skiptið eru náttúruperlur og víðerni. Og okkur er ekki alltaf vel tekið, ekki frekar en fyrirrennurum okkar. Þannig er náttúruverndarsinnar gjarnan kenndir við öfgar og afturhald. Það er til dæmis stutt síðan ég hlustaði á tvo þingmenn tala um virkjana- og stóriðjusinna sem hina hófstilltu, hinir sem vildu stíga varlega til jarðar í virkjanamálum voru þá líklega öfgasinnaðir. Þannig er öllu snúið á hvolf í umræðunni. Ég fæ að minnsta kosti ekki séð hófsemdina í því að selja á milli 80 og 90% raforkuframleiðslunnar til álvera, fórna náttúruperlum og víðernum sem hafa bæði fagurfræðilegt og efnahagslegt gildi, og skuldsetja enn frekar orkufyrirtæki í almannaeigu. Fulltrúar hófsemdarfólksins svokallaða á Alþingi eru svo hófsamir að þeir leggja fram þingsályktunartillögu um að Landsvirkjun beri að selja álverum jarðvarmaorku, þrátt fyrir að jarðfræðingar telji það óskynsamlegt. Það er kominn tími á að kalla hlutina réttum nöfnum: Stóriðju- og virkjanasinnar sem vilja auka skuldir orkufyrirtækja, fórna náttúruverðmætum og setja öll eggin í álkörfuna, þeir eru öfgafólkið. Náttúruverndarfólk sem vill draga úr skuldsetningu fyrirtækja í almannaeigu, vernda sífellt verðmætari náttúruperlur og víðerni, og stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi, það er hófsemdarfólkið.

Kæru félagar,

Ég er bjartsýnn fyrir hönd náttúruverndar hér á landi. Þótt oft halli á okkar málstað, til dæmis í umfjöllun fjölmiðla, þá verð ég alltaf sannfærðari um að meirihluti almennings er á okkar bandi. Enda benda kannanir til þess. Í nýlegri könnun kom í ljós að einungis 13% aðspurðra töldu stóriðju vera brýnasta verkefnið í atvinnumálum þjóðarinnar. Þetta er í takt við könnun sem Viðskiptaráð Íslands gerði á viðhorfi 720 forsvarsmanna stærri fyrirtækja hér á landi. Í henni sögðust einungis 4,1% telja að mestu tækifærin til verðmætasköpunar fælust í áliðnaði og stóriðju og 2,1% nefndu virkjanir. Ég er því sannfærður um að meirihluti þjóðarinnar er á okkar bandi þrátt fyrir þrengingar og þrátt fyrir háværar kröfur um áframhaldandi stóriðjustefnu. Sá meirihluti er hins vegar ekki hávær. Ég varð til dæmis oft vitni að því í störfum mínum í umhverfisráðuneytinu, þegar ráðherrann var undir mestri ágjöf, að alls konar fólk tók hana tali og hvíslaði; þú stendur þig vel, láttu þá ekki beyja þig, við styðjum þig. En þetta fólk var ekki tilbúið til segja þetta hátt og skýrt á torgum. Því verður að breyta og þar gegnir Landvernd mikilvægu hlutverki sem kjölfesta íslensku umhverfisverndarhreyfingarinnar. Við verðum að gerast háværir talsmenn hófsemdar og þá munu aðrir fylgja okkur eftir.