14. júl. 2010
Vísbendingar um áhrif loftslagsbreytinga hrannast upp
Nú hrannast inn fréttir af loftslagsbreytingum. Vísir.is segir frá því að krían líði skort á fæðu á Snæfellsnesi fimmta árið í röð og Morgunblaðið hefur eftir Erpi Snæ Hansen, líffræðingi hjá Náttúrustofu Suðurlands að lundastofninn sé að hrynja í Vestmannaeyjum. Í báðum tilfellum er ástæðan talin hrun í sandsílastofni sem líklega má rekja til hlýnunar sjávar. Og Morgunblaðið segir frá því að allir skaflar í Esjunni séu horfnir tíunda árið í röð og Páll Bergþórsson, fyrrverandi veðurstofustjóri segir það í fyrsta skipti sem það gerist (líklega frá því að menn fóru að fylgjast með snjóalögum í fjallinu). Og svo greinir Veðurstofan frá því að það sé óvenjulítill hafís á norðurhveli þetta sumarið sem stefni í að nálgast lágmarkið frá sumrinu 2007 sem var algjört metár. Svo maður tali nú ekki um hitabylgjurnar í Bandaríkjunum, Indlandi, Kína og Evrópu. Og punkturinn yfir i-ið eru svo fréttir um að vísindamenn á sviði loftslagsvísinda hafi verið hreinsaðir af ásökunum um óheiðarlega meðferð gagna.