14. nóv. 2019

Kveikur – hvað svo?

Í kjölfar umfjöllunar Kveiks og Stundarinnar um starfshætti Samherja hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar sagt að málinu eigi að ljúka með rannsókn saksóknara og skattrannsóknarstjóra. Gott og vel – það er svona eins og að búa í fjölbýli með einstaklingi sem hefur orðið uppvís að einhverju vafasömu í eigin rekstri og hann eigi bara að halda áfram að sjá um sjóð húsfélagsins. Líklega yrði andinn í blokkinni ekki góður – og andinn í samfélaginu verður heldur ekki góður ef mútumál Samherja leiðir ekki til breytinga á umsjón okkar með fiskveiðiauðlindinni og samskiptum stjórnmálamanna og valdamikils viðskiptafólks.

Nú leikur enginn vafi á því lengur að það er eitthvað rotið í útgerðarvaldinu. Því til staðfestingar þarf ekki að leita lengra en í stjórn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Þar er t.d. að finna mann sem var nýverið dæmdur fyrir peningaþvætti, meiriháttar bókhaldslagabrot og meiriháttar skattalagabrot. Þar situr svo einn eigenda Samherja sem var staðinn að því að brjóta skattalög og er nú sakaður um að hafa greitt namibískum stjórnmálamönnum mútur. Þriðjan má svo nefna mann sem ber ábyrgð á rúmlega 20 milljarða króna gjaldþroti og hefur síðan verið viðriðinn vafasöm viðskipti. Svo má ekki gleyma að útgerðarfólk var fyrirferðarmikið í Panamaskjölunum og hefur sumt verið kært fyrir milljarða króna skattsvik.

Auður þessa hóps varð til með ákvörðunum þingmanna, fyrst með tilkomu kvótakerfisins 1984 og síðan með lögum 1997 sem heimiluðu veðsetningu kvótans. Þar með varð fjandinn laus í íslensku efnahagslífi, enda var peningaprentunarvald þannig fært í hendur fámenns hóps. Afleiðingarnar urðu þær að skuldir sjávarútvegsins í íslenskum bönkum voru um 560 milljarðar við bankahrunið 2008. Eftir hrunið hafa völd þessa hóps síðan bara vaxið, enda hefur hefur eiginfjárstaða útgerðanna batnað um 355 millj­arða króna og eigendur þeirra fengið 92,5 millj­arða í arð­greiðsl­ur. Þannig hefur orðið til ofurstétt útgerðarmanna, eins og Þórður Snær Júlíusson orðar það í nýlegri grein á Kjarnanum, sem „ræður þorra íslensks sjáv­ar­út­vegs, hafa efn­ast út fyrir allt sem eðli­legt þykir á síð­ustu árum og teygt sig til ítaka á öðrum sviðum sam­fé­lags­ins með þessa pen­inga að vopni. Þeir eiga hlut­deild í smá­sölu­mark­aðn­um, flutn­inga­fyr­ir­tækj­um, inn­lendri fram­leiðslu, trygg­inga­fyr­ir­tækjum og stærstu inn­flytj­endum lands­ins, svo fátt eitt sé nefnt.“

Í lýðræðisríkjum þarf almenningur að vera á sífelldum verði gagnvart auðræði (e. plutocracy) og fyrirtækjaræði (e. corporatocracy), sér í lagi í auðlindaríkum samfélögum eins og Íslandi þar sem yfirráð yfir auðlindum geta fært fámennum hópum óhófleg völd og áhrif. Þess vegna verða viðbrögð stjórnmálanna við mútumáli Samherja að vera meira afgerandi en ríkisstjórnin hefur boðað. Hér þarf að setja á fót rannsóknarnefnd sem hefur næg úrræði til að rannsaka í fyrsta lagi fjárhagsleg og félagsleg tengsl útgerðarmanna, stjórnmálamanna og stjórnenda í bankakerfinu, í öðru lagi völd útgerðarfólks á öðrum sviðum atvinnulífsins og krosseignatengsl fyrirtækja í þeirra eigu og í þriðja lagi hvort og þá hvernig arði af fiskveiðiauðlindinni hefur verið komið úr landi, t.d. með undanskoti afla, eignarhaldi íslenskra útgerða á erlendum félögum og óeðlilegri milliverðlagningu. Þá þarf ríkisstjórnin að hverfa frá stefnu sinni um lækkun veiðigjalda og hækki þau þannig að þau nái að lágmarki 50% af auðlindarentunni (þau eru nú um 10%). Það þarf að breyta lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda þannig að útgerðarfélögum, dótturfélögum þeirra og eigendum útgerðarfélaga og fyrirtækjum í þeirra eigu verði bannað að styrkja stjórnmálaflokka og frambjóðendur í prófkjörum og forsetakosningum. Hér þarf að herða á reglum um eignarhluti tengdra aðila í sjávarútvegsfyrirtækjum og brjóta upp samsteypur sem færa of mikil völd í fárra hendur, t.d. Útgerðarfélag Reykjavíkur, Samherja og FISK Seafood. Efla þarf starf Fiskistofu, sér í lagi eftirlit með vigtun sjávarafla, eins og Ríkisendurskoðun hefur vakið athygli á í skýrslu. Svo er engin ástæða til að draga það lengur að samþykkja tillögu Stjórnlagaráðs um að náttúruauðlindir verði lýstir þjóðareign í stjórnarskrá, rétt eins og samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 með 83% atkvæða. Og auðvitað gengur það ekki að þjóðin sitji uppi með sjávarútvegsráðherra sem viðurkennir sjálfur að hann sé vanhæfur til að fjalla um málefni stærsta útgerðarfélags landsins.

Það bíður okkar mikið verk að verja auðlindina okkar og lýðræðið. Sjáumst á Austurvelli.