29. nóv. 2018

Klaustur-upptökurnar eru tilefni til sakamálarannsóknar

Það er alveg augljóst að Klaustur-upptökurnar munu draga dilk á eftir sér fyrir þá þingmenn sem eru þar í aðalhlutverki, en einnig fyrir stjórnkerfið allt. Á upptökunum heyrist þingmaður Miðflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra lýsa því hvernig hann ákvað árið 2014 að skipa fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins sendiherra í Washington, gegn loforði um að hann ætti inni „svipaðan“ greiða síðar. Um þetta segir hann:
Ég átti fund með Bjarna [Benediktsson] í fjármálaráðuneytinu. Ég sagði við Bjarna: „Það er algjörlega sjálfsagt. Auðvitað geri ég Geir að sendiherra.“ Og ég sagði við hann: „Og mér finnst sanngjarnt að þið horfið til svipaðra hluta þegar ég þarf á því að halda.“
Formaður Miðflokksins heyrist síðan staðfesta þessi orð:
Ég veit að þetta er rétt með sendiherrastöðuna. Ég nefndi þetta við Bjarna. Bjarni má eiga það, hann viðurkenndi þetta. … Niðurstaðan var sú að Bjarni féllst á það að ef þetta gengi eftir, þá ætti Gunnar inni hjá Sjálfstæðismönnum.

Eins heyrist fyrrverandi utanríkisráðherra segja að hann hafi á sínum tíma rætt þetta samkomulag við formann Vinstri-grænna og núverandi forsætisráðherra.

Það er nokkuð ljóst að með þessu hefur þingmaður Miðflokksins gerst brotlegur við 128. gr. almennra hegningarlaga, en þar segir: „Ef opinber starfsmaður, [alþingismaður eða gerðarmaður] heimtar, tekur við eða lætur lofa sér eða öðrum gjöfum eða öðrum ávinningi, sem hann á ekki tilkall til, í sambandi við framkvæmd starfa síns, þá skal hann sæta … fangelsi allt að 6 árum, eða sektum, ef málsbætur eru.“

Ákvæðinu um alþingismennina var bætt inn í lögin árið 2013 vegna fullgildingar samnings Evrópuráðsins á sviði refsiréttar um spillingu. Fram kom í máli þáverandi innanríkisráðherra að frumvarpið væri lagt fram í kjölfar ábendinga í skýrslu GRECO um framkvæmd Íslands á spillingarsamningi Evrópuráðsins og tilmæla vinnuhóps OECD um mútur í alþjóðlegum viðskiptum. Frumvarpið var samþykkt á Alþingi 24. janúar 2013 með öllum greiddum atkvæðum og í einu umsögninni sem barst um málið sagði: „Alþýðusamband Íslands styður heils hugar lagabreytingar eins og þessa sem eru settar með það að marki að auka siðvæðingu samfélagsins.“

Við sama tækifæri var einnig bætt við sams konar ákvæði í 109. gr. laganna þar sem segir: „Hver sem gefur, lofar eða býður opinberum starfsmanni, [alþingismanni eða gerðarmanni] 1) gjöf eða annan ávinning, sem hann á ekki tilkall til, í þágu hans eða annarra, til að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem tengist opinberum skyldum hans skal sæta fangelsi allt að [5 árum] eða sektum ef málsbætur eru fyrir hendi.“

Það er augljóst að Klaustur-upptökurnar eru ekki bara vandræðalegt mál fyrir umrædda þingmenn, heldur eru þær vitnisburður sem hlýtur að leiða til opinberrar sakamálarannsóknar lögreglu- eða ákæruvalds á mögulegum brotum þingmanns Miðflokksins á almennum hegningarlögum þegar hann gegndi embætti utanríkisráðherra. Aðild forsætisráðherra og fjármálaráðherra að málinu og mögulegt brot þeirra gegn 109. grein laganna yrði væntanlega hluti af slíkri rannsókn.