24. apr. 2018

Hálf tómt glas Loga Bergmanns

Logi Bergmann Eiðsson fjölmiðlamaður skrifar nýverið „þetta-unga-fólk-nú-til-dags“ pistil um húsnæðismál sem hefur vakið nokkra athygli og verðskuldaða umræðu. Það er vissulega hægt að taka undir sumt af því sem hann nefnir í pistlinum, ekki síst þar sem hann hvetur ungt fólk til þess að spara meira. Við getum líkleg öll tekið þann boðskap til okkar, sama á hvaða aldri við erum. Það er líklega það sem kalla mætti þjóðhagslega skynsamlegt.

En því miður er eins og Logi hafi drukkið af hálf tóma glasinu daginn sem hann skrifaði pistilinn, að minnsta kosti ef marka má glannalegar alhæfingar um kynslóðirnar, afstöðu þeirra og raunir. Það mátti að minnsta kosti skilja hann sem svo að unga fólkið í dag væri full kvartsárt og tilætlunarsamt. Hann hefði haft það alveg jafn skítt á sínum tíma og ungt fólk í dag og þess vegna færi það „í taugarnar“ á honum þegar látið væri eins og fasteignakaup hefðu ekki verið neitt mál fyrr en „þessi kynslóð mætti á svæðið“. Sjálfur hef ég aldrei heyrt ungt fólk tala á þessum nótum, enda má gera ráð fyrir að minningar ungs fólks af húsnæðisharki eldri kynslóðanna í dag markist af afleiðingum hrunsins 2008 og þeim almennu fjárhagsáhyggjum sem lögðust þá á þjóðarsálina.

Þó að það sé rúmur áratugur á milli okkar Loga í aldri þá teljumst við líklega báðir til svonefndrar X-kynslóðar. Hann fjallar ekki um sín fyrstu fasteignakaup í neinum smáatriðum en segist þó ekki hafa farið til útlanda í nokkur ár, ekki út að borða, unnið alla yfirvinnu sem bauðst og sparað hverja krónu sem hann komst yfir. Það hafi þurft til að hífa sig upp í greiðslumatið. En sjálfur get ég lýst minni reynslu í ögn meiri smáatriðum. Ég keypti mína fyrstu íbúð árið 2002 eftir að hafa leigt litla kjallaraíbúð um nokkurt skeið. Þetta var áður en að bankarnir byrjuðu að „henda peningum í fólk“ eins og Logi orðaðið það í greininni. Engu að síður gat ég, 24 ára einstæður helgarpabbi með stúdentspróf, bíl í rekstri og 1,5 milljónir í árslaun, keypt mér 66 fermetra hæð á góðum stað í Hafnarfirði. Ég tók við rúmlega 7 milljóna króna Íbúðalánasjóðsláni og bætti við 1,5 milljóna lífeyrissjóðsláni til að eiga fyrir útborgun og málningu á veggina. Ég bjó heldur ekki við neinn lúxus, ekki frekar en Logi, enda leyfðu mánaðarlegar afborganir ekkert slíkt.

Mér dettur ekki í hug að halda því fram að það hafi verið skynsamlegt af mér að kaupa svo skuldsetta fasteign, en þetta var engu að síður gerlegt – ég gat farið út á leigumarkaðinn og síðan komið mér þaki yfir höfuðið þegar nauðsyn krafði. En það sama verður ekki sama sagt um ungt fólk í dag. Það býr við allt annan veruleika – sama hvað ónafngreindur hagfræðingur kann að hafa sagt við Loga Bergmann. Um það vitna t.d. tölur frá Íbúðalánasjóði um mun hraðari hækkun fasteignaverðs en launa og skýrsla Íslandsbanka sem segir að „erfiðara sé, miðað við laun, að kaupa íbúð á Ísland um þessar mundir en að meðaltali í sögulegu samhengi“. Þá má benda á skýrslu fjármálaráðuneytisins um kynslóðareikninga sem sýnir að hlutfall útborgunar í íbúð af ráðstöfunartekjum ungs fólks hækkaði úr um 105% árið 1990 í um 170% árið 2014 (sjá mynd að ofan).

Ég hef enga trú á að ungt fólk í dag sé eitthvað óduglegra en fyrri kynslóðir, það bjargar sér ef það fær tækifæri til. En tækifærin eru ekki þau sömu í dag og þau voru áður. Við höfum t.d. komið okkur upp flóknara regluverki sem gerir fólki erfiðara fyrir að byggja sjálft. Vinnumarkaðurinn er gjörbreyttur, hann gerir t.d. mun meiri kröfur um háskólanám en áður og uppgripa vinna er síður í boði vegna tæknivæðingar og innflutnings á iðnaðarmönnum og verkafólki. Ungt fólk býr líka við samkeppni um húsnæði við ferðamenn sem hefur fjölgað úr um 220.000 árið 2002 í 2,2 milljónir árið 2017.

Sumar fyrri kynslóðir hafa fengið meðgjöf af ýmsu tagi, t.d. skattlaust ár, lögbundna hámarksvexti, niðurgreidd húsnæðislán, óverðtryggð eða vaxtalaus námslán, skyldusparnað (að óðaverðbólguárunum undanskyldum), verkamannabústaðakerfi, verðtryggð laun og skuldaleiðréttingu. Svo má heldur ekki gleyma að á tímabilinu 1965-1990 hækkuð laun hraðar en fasteignaverð. Mér þykir það heldur lítilmannlegt af fulltrúum þessara kynslóða að senda ungu fólki í dag þau skilaboð að húsnæðisraunir þess séu þær sömu og fyrri kynslóða og ef að það geti ekki fótað sig á fasteignamarkaðnum hljóti það að vera vegna eigin dugleysis eða tilætlunarsemi. Það mætti kannski kalla þetta efnahagslega druslustimplun þar sem ungu fólki er sagt að það beri sjálft alla ábyrgð á þeim aðstæðum sem það stendur frammi fyrir á húsnæðismarkaði. Sökin búi ekki hjá stefnu- og aðgerðalitlum stjórnvöldum heldur í kaffibollanum sem þú keyptir þér í morgun. Galin arðsemiskrafa fjármálafyrirtækja og verktaka séu ekki orsök stöðunnar heldur tónleikamiðinn sem þú keyptir þér síðasta sumar. Nei, kæra unga fólk, látið engan komast upp með að halda því fram að sökin sé ykkar.