6. apr. 2017

Sjálfstæðisflokkurinn skuldar okkur sannleikann

„Ég er sjálfstæðismaður.“ Þessa yfirlýsingu má finna í viðtali við Björgólf Guðmundsson, þá framkvæmdastjóri Hafskips, sem birtist í Helgarpóstinum árið 1983. Þar er ferli Björgólfs innan Sjálfstæðisflokksins rakinn – varaformaður Heimdallar, stjórnarmaður í SUS, formaður í Verði, formaður uppstillingarnefndar flokksins og sæti í fjölmörgum nefndum flokksins.

Tveimur árum eftir að viðtalið birtist var Hafskip orðið gjaldþrota og árið 1991 fékk Björgólfur eins árs dóm fyrir Hæstirétti vegna starfa sinna hjá félaginu. Hann var sakfelldur fyrir brot á hlutafélagalögum við gerð milliuppgjörs og í tengslum við ársreikninga. Hann var sem sagt dæmdir fyrir blekkingar gagnvart viðskiptabanka Hafskips, sem sjálfur varð gjaldþrota vegna málsins, og gagnvart kaupendum hlutafjár í skipafélaginu skömmu fyrir gjaldþrot.

Í millitíðinni hafði Björgólfur tekið þátt í stofnun áfengismeðferðarmiðstöðvar í Danmörku sem varð gjaldþrota árið 1987. Sagði í dönskum fjölmiðlum að þeir sem stæðu að fyrirtækinu hefðu munninn á réttum stað en ekkert vit á peningum. Enn virðist Björgólfur hafa verið í fjárhagsvandræðum árið 1995 þegar Íslandsbanki stóð í málaferlum við hann vegna skulda. Næst fréttist af Björgólfi þar sem hann var sagður vera orðinn moldríkur af rekstri bjórverksmiðju austur í Rússlandi, sem á þeim tíma var löglaust ríki ólígarka og glæpamanna. Hann var síðar sakaður um að hafa stolið verksmiðjunni af Ingimari Ingimarssyni með fölsuðum skjölum og stuðningi rússneskra glæpasamtaka.

Þrátt fyrir þessa viðskiptasögu töldur ráðherrar Sjálfstæðisflokksins að sjálfstæðismanninum Björgólfi væri vel treystandi til að kaupa Landsbankann árið 2002, eina af mikilvægustu fjármálastofnunum samfélagsins. Ljóst er að Björgólfur og aðrir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þurftu að beita blekkingum og klækjabrögðum til að koma bankanum í hans hendur. Verklagsreglur voru t.d. ekki virtar og logið var um hvernig kaupin yrðu fjármögnuð. Ég þarf ekki að rekja það í löngu máli hvernig þessi vegferð endaði sex árum síðar. Landsbankinn varð gjaldþrota með gríðarlegum kostnaði fyrir almenna viðskiptavini hans og skattgreiðendur. En á þessum skamma tíma hafði hópur fólks innan úr Sjálfstæðisflokknum notað aðgengi að peningum í Landsbankanum til að láta greipar sópa í íslensku efnahagslífi, auk þess sem bankinn var notaður til að koma peningum fyrir í erlendum skattaskjólum.

Það var t.d. Landsbankinn sem faldi Falson&Co í skattaskjólinu Seychelles-eyjum fyrir núverandi formann Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi varaformaður flokksins stofnaði einnig félag í skattaskjóli samkvæmt ráðgjöf frá Landsbankanum. Einn helsti áhrifamaður Sjálfstæðisflokksins innan stjórnsýslunnar var dæmdur í fangelsi fyrir að nota innherjaupplýsingar skömmu fyrir hrunið til að hagnast á sölu hlutabréfa í Landsbankanum. Sá hinn sami hafði setið fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í einkavæðingarnefnd stjórnvalda þegar Landsbankinn var seldur Björgólfi. Eftir einkavæðinguna skipaði Björgólfur fyrrverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins í stjórn Landsbankans. Sá hinn sami sá síðan m.a. um að samþykkja 70 milljarða lánveitingar Landsbankans til Björgólfs á 20 mánaða tímabili fyrir hrunið. Þess má geta að nafn framkvæmdastjórans fyrrverandi hafði líka komið upp í rannsókn á fjármálamisferli Björgólfs í Hafskipsmálinu, en þá hafði hann leyst út ávísanir af svonefndum leynireikningum sem Björgólfur hafði komið sér upp hjá Hafskipi og notaði m.a. til að styrkja stjórnmálamenn og flokka. Þá eru áhrifamenn innan Sjálfstæðisflokksins áberandi á lista yfir lánþega Landsbankans sem fengu afskrifaðar skuldir eftir hrun, þar á meðal fyrrverandi formaður fjármálaráðs flokksins.

Nú kórónar forysta Sjálfstæðisflokksins siðferðilegt gjaldþrot sitt með því að reyna að koma í veg fyrir það á Alþingi að einkavæðing Landsbankans verði rannsökuð ofan í kjölinn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei virt mörk viðskipta og stjórnmála. Þannig var hann allt í kringum borðið þegar Hafskip varð gjaldþrota, bæði við stjórn þess og ríkisbankans sem fór í þrot vegna viðskipta sinna við skipafélagið. Sömu sögu er að segja um einkavæðingu og gjaldþrot Landsbankans röskum tveimur áratugum seinna. Það er saga sem þjóðin á fullan rétt á að fá að heyra, enda hefur hún nú þegar greitt þá viðskiptasögu Sjálfstæðisflokksins dýru verði.