2. okt. 2012

Fleiri andvígir hálendislínu en fylgjandi

Mannvirkjabelti á hálendinu samkvæmt tillögum að landsskipulagsstefnu.
Tæp 36% segjast andvíg fyrirhugaðri háspennulínu Landsnets yfir hálendið um Sprengisand, en nokkru færri, eða 28,6%, eru henni fylgjandi. Þetta kemur fram íkönnun sem Capacent Gallup vann fyrir Landvernd. 35,5% tóku ekki afstöðu í könnuninni. Þetta er enn ein könnunin sem sýnir lítinn stuðning meðal almennings við stóriðjustefnuna sem þessi ríkisstjórn tók í arf frá fyrri ríkisstjórnum.

Í könnun sem gerð var fyrir tæpu ári reyndust 56% hlynnt því að þjóðgarður yrði stofnaður á miðhálendinu en 17,8% voru því andvíg. Í apríl á þessu ári sögðust 47% vera andvíg því að lífeyrissjóðir leggi fjármagn í frekari virkjanaframkvæmdir vegna stóriðju en rúm 34% voru því hlynnt. 57% voru andvíg frekari uppbyggingu virkjana fyrir orkufrekan iðnað samkvæmt könnun Fréttablaðsins 2008. 41,6% voru andvígir álveri í Helguvík í könnun Gallup árið 2008 en 36% hlynntir. 42% sögðust andvíg frekari uppbyggingu álvera hér á landi í könnun sem Gallup gerði 2008 en 38% voru fylgjandi.

Þannig sýna allar kannanir fram á ríkari stuðning við vernd er virkjanir.

Landsvirkjun og Landsnet, fyrirtæki í opinberri eigu, starfa samt eftir stóriðjustefnu fyrri ríkisstjórna. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri-grænna hefur hvorki náð að hemja fyrirtækin né auka áhrif almennings í skipulagsmálum. Þetta sjáum við núna í deilu um vegagerð í Gálgahrauni. Almenningur getur sent inn umsagnir og athugasemdir en er í raun jafn valdalaus og áður.

Skipulagsstofnun hefur nýverið auglýst tillögu að landsskipulagsstefnu 2013-2024. Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir tveimur mannvirkjabeltum þvert yfir hálendið. Annað belti er fyrirhugað um Kjöl en hitt um Sprengisandsleið. Landsnet hefur lýst áformum sínum um að reisa háspennulínu fyrir stóriðju á Sprengisandsleið með tilheyrandi vegagerð og Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur undirbúa virkjanir á þessum svæðum.

Almenningi gefst nú tækifæri til að senda Skipulagsstofnun athugasemdir við tillögu að landsskipulagsstefnu. Þær þurfa að berast eigi síðar en 20. nóvember á netfangiðlandsskipulag@skipulagsstofnun.is.

Blogg um sama efni: Mannvirkjabelti á hálendinu.