13. nóv. 2013

Vitfirring, Filippseyjar og Drekasvæðið

,,Það sem lagt er á þjóð mína í kjölfar ofsafengins fellibyls er vitfirring. Loftslagsvandinn er vitfirring sem verður að stöðva."

Þetta sagði Yeb Sano, fulltrúi Filippseyja á loftslagsþingi Sameinuðu þjóðanna sem fer nú fram í Póllandi. Yeb lýsti feiknarlegri eyðileggingu fellibylsins Haiyan í heimalandi sínu og sagði svo: ,,Ég flyt mál mitt ekki bara fyrir hönd sendinefndarinnar, heldur einnig fyrir hönd allra þeirra sem féllu í storminum og fá aldrei tækifæri til að flytja sína höfuðlausn. Ég flyt mál mitt fyrir hönd þeirra barna sem harmleikurinn hefur falið hlutverk munaðarleysingjans. Og þeirra sem reyna að bjarga nauðstöddum og lina sársauka sjúkra í kapphlaupi við tímann.
Við getum gripið til róttækra og tafarlausra aðgerða til að afstýra framtíð þar sem ofurfellibyljir verða daglegt brauð. Vegna þess að þjóð mín sættir sig ekki við framtíð þar sem ofurfellibyljir eins og Haiyan verða hluti af lífi okkar. Við sættum okkur ekki við að eymdin á flótta undan stormum og þjáningin við að telja hina látnu verði eðlilegur hluti af lífi okkar. Við sættum okkur ekki við slík örlög."

Yeb Sano hóf hungurverkfall í gær til að þrýsta á að samkomulag náist um róttækar aðgerðir til að hægja á hlýnun loftslagsins.

Heimsbyggðin stendur frammi fyrir einföldu og ógnvekjandi reikningsdæmi. Ef við borum eftir og brennum allt það jarðefnaeldsneyti sem fundist hefur í jarðskorpunni þá losna 2.795 gígatonn af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið. Það er fimm sinnum meira en vísindamenn telja óhætt að losa ef halda á hlýnun loftslagsins undir mjög hættulegum mörkum. Við stöndum því frammi fyrir þeirri staðreynd að þurfa að skilja um 80% af þekktum birgðum af olíu, gasi og kolum eftir í jörðinni til að forða mannkyni frá ömurlegum afleiðingum öfgakenndra loftslagshlýnunar.

,,Loftslagsvandinn er vitfirring sem verður að stöðva".

Til stendur að hefja olíuleit á Drekasvæðinu til að viðhalda vitfirringunni. Íslendingar eru því ekki bara áhorfendur að harmleiknum, heldur virkir örlagavaldar í lífi milljóna manna. Drekasvæðið er persónuleikapróf íslensku þjóðarinnar. Höfum við kjark til að standa við bakið á Yeb Sano og framtíðarkynslóðum eða erum við bara sinnulaus og gráðug?

Eldri pistlar um sama efni:
Olía af Drekasvæðinu á verðbólgubálið. (23.2.2012)
Verjum við loftslagið eða bókhaldið? (18.12.2012)
Efnahagsleg áhrif olíuvinnslu og eignarhald. (23.1.2013)