14. nóv. 2013

Ríkisstjórn á nýlenduverði

Nú situr Landsvirkjun undir auknum þrýstingi stjórnmálamanna um að láta drauma Glencore (móðurfélags Century Aluminum) um álver í Helguvík rætast. Ljóst er að Glencore er mikið í mun að halda þeim möguleika opnum að fá að reisa hér álver, enda hefur fyrirtækið vanist því að fá raforkuna hér á „nýlendurverði".

Iðnaðarráðherra mætti á haustfund Landsvirkjunar í gær og sagðist orðin óþreyjufull og vildi sjá verkefni verða að veruleika: ,,Ég get nefnt álverið í Helguvík, framkvæmd sem ekki bara mun skipta Suðurnesjamenn máli heldur landsmenn alla." Sagði ráðherrann að aðkoma Landsvirkjunar að því verkefni gæti haft mikilvæga þýðingu, jafnvel úrslitaáhrif.

Nú er alveg ljóst að Glencore vill ekki bjóða annað en ,,nýlenduverð" fyrir raforkuna. Það kom m.a. fram hjá forstjóra HS Orku í sumar þegar hann sagði: ,,Vandamálið í dag snýr helst að því að álverð er í kringum 1.800-1.900 Bandaríkjadalir á tonn. Með slíku verði sé ég ekki fyrir mér að þeir geti rekið arðbært álver og við á sama tíma arðbærar virkjanir." Verðið núna er enn lægra, eða 1.755 dalir á tonn.

Þannig vinnur iðnaðarráðherra gegn heildarhag þjóðarinnar og virðist annað hvort vilja að þjóðin niðurgreiði raforkuna til álversins eða að rekstrargrundvöllur Landsvirkjunar verði eyðilagður.

Nú er ár liðið síðan skýrsla McKinsey & Company um íslenska hagkerfið var gefin út. Þar er lögð mikil áhersla á að auka verði arðsemi orkufyrirtækjanna, enda sé hún lægst þar af öllum geirum atvinnulífsins: ,,Capital productivity in the energy sector is the lowest across all sectors of the Icelandic economy. With 25-30% of the capital stock directly or indirectly invested in the energy sector, this is a serious matter for resolution. ... This is indeed detrimental to the overall capital productivity of the Icelandic economy."

Stjórnendur Landsvirkjunar mega eiga það að þeir hafa reynt að bregðast við þessu, enda viðurkenndi fyrirtækið þennan vanda í eigin skýrslu árið 2011: ,,Sú stefna hefur lengi verið ríkjandi hérlendis að selja raforku mjög nærri kostnaðarverði, sem m.a. endurspeglast í sögulegri lágri arðsemi LV. ... Ef arðsemi er í lægri kanti þess sem þekkist í almennum atvinnurekstri bendir það til þess að auðlindarenta sé annað hvort ekki til staðar eða renni til orkukaupans með lágu orkuverði."

En nú virðist ríkisstjórnin ætla að bregða fæti fyrir Landsvirkjun og krefja stjórnendur fyrirtækisins um að verða við ýtrustu kröfum Glencore. Til marks um það sagði fjármálaráðherra á Alþingi í dag: ,,Við eigum líka að hafa eftirlit og aðhald með því að Landsvirkjun verði ekki, frekar en önnur orkufyrirtæki í landinu, einhverskonar hindrun í vegi fyrir því að iðnaðaruppbyggingu haldi áfram í landinu."

Þarna fer fjármálaráðherra með möntruna um hið óiðnvædda Ísland - torfkofasamfélagið - þegar staðreyndin er sú að Ísland er nú þegar 12. stærsta álframleiðsluland í heimi og engin þjóð kemst í hálfkvisti við okkur í raforkuframleiðslu. Þess vegna höfum við enga sérstaka þörf fyrir iðnaðaruppbyggingu hér á landi, en því meiri er þörfin fyrir aukinn arð af auðlindunum og hagkvæmni í rekstri fyrirtækja í innlendri eigu. Þeim þörfum verður ekki sinnt með því að setja þrýsting á að orkufyrirtæki í almannaeigu taki afarkostum erlendra stórfyrirtækja.