4. nóv. 2013

Ósýnilega höndin í vösum skattgreiðenda

Ósjálfbær orkuframleiðsla á Hellisheiði fyrir álver hefur orðið til þess að afköst jarðhitavirkjunarinnar minnka um sex megavött á ári að meðaltali. Af þeim sökum þarf Orkuveita Reykjavíkur nú að leggja gufulögn frá Hverahlíð að Hellisheiðarvirkjun til að afla þeirrar orku sem hún þarf til að geta staðið við samninga við álver Norðuráls á Grundartanga. Áætlað er að það kosti fyrirtækið 4,3 milljarða króna og geri orkusölu til stóriðju enn óarðbærari. Þar sem verð á orku til Norðuráls er fastbundið í samningum er líklegt að þessi nýju útgjöld leiði til verri afkomu Orkuveitu Reykjavíkur, fyrirtækis í almannaeigu, eða enn frekari hækkana á orkuverði til almennings. Þessi framkvæmd mun því, hvernig sem á það er horft, bitna á hagsmunum almennings. Meðlagsgreiðslur almennings til stóriðjunnar munu hækka.

Ákvörðun um þessa 4,3 milljarða króna framkvæmd verður tekin í borgarstjórn Reykjavíkur á morgun.

Á sama tíma og almenningur tekur á sig þessar byrðar til að auka enn á óarðbæra orkuframleiðslu fyrir álver er Landsvirkjun, annað orkufyrirtæki í almannaeigu, í erfiðleikum með að selja alla þá orku sem fyrirtækið framleiðir. Sér í lagi nú þegar Búðarhálsvirkjun er komin í gagnið og Rio Tinto hefur fallið frá áformum sínum um stækkun í Straumsvík. Ætla má að umframorkuframleiðsla í landinu sé um 200 megavött.

Í eðlilegu umhverfi væri þessi umframorka nýtt til að sinna orkuþörf Norðuráls á Grundartanga og Orkuveita Reykjavíkur myndi á sama tíma minnka framleiðslu sína á Hellisheiði til að ná einhverskonar jafnvægisástandi í jarðhitakerfinu. En þetta virðist ekki vera hægt, líklega vegna þess að hér var komið á samkeppnisrekstri í raforkuframleiðslu árið 2003. Við það skapaðist sú sérkennilega staða að samkeppni varð á milli opinberra fyrirtækja um sölu á raforku til stóriðju, eins og segir í skýrslu úttektarnefndar um rekstur Orkuveitu Reykjavíkur. Í sömu skýrslu er haft eftir Helga Þór Ingasyni, forstjóra OR til skamms tíma: ,,Maður hugsar sitt í þessu. Hvernig samkeppnisumhverfi orkuframleiðslu hefur verið útfært á Íslandi. Mér er til efs að þetta sé þjóðhagslega hagkvæmt og ég er ekki viss um að almenningur græði á því." Því miður virðist sem skynsemi í þessum rekstri hafi verið látinn víkja fyrir samkeppni.

Ákvörðun borgarstjórnar á morgun um að leggja í 4,3 milljarða björgunaraðgerðir á Hellisheiði er enn einn vitnisburðurinn um það hversu misheppnuð stóriðjustefnan hefur reynst. Komið var á samkeppnisumhverfi á raforkumarkaði sem hefur leitt til brasks, ósjálfbærrar nýtingar og offjárfestinga. Ósýnileg hönd markaðarins er hvergi sjáanleg nema í vösum skattgreiðenda.

Sjá einnig:
Stóriðjulínur borgaðar úr þínum vasa. (5.12.2012)
Almenningur greiðir meðlag með stóriðju (2.7.2012)