8. nóv. 2013

Guðlaugur Þór og röngu tölurnar

Guðlaugi Þór Þórðarsyni, þingmanni Sjálfstæðisflokks, hefur orðið tíðrætt um mikil útgjöld til umhverfismála að undanförnu.

Hann skrifaði t.d. á heimasíðu sína 28. september um meinta forgangsröðun ríkisstjórnar Samfylkingar Vinstri-grænna: ,,Nýlega kom fram skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um þróun á fjölda ríkisstarfsmanna. Þar kom fram að ársverkum hefur fjölgað um 200 hjá ríkisstarfsmönnum frá árinu 2007. Á sama tíma hefur þeim fækkað um 18 þúsund á almennum markaði. Einnig kom fram að fjölgunin kemur mjög ójafnt niður. Þannig hefur starfsmönnum í undirstofnunum Umhverfisráðuneytisins fjölgað um 130 en fækkað hefur verið um 350 störf á Landspítalanum og um 90 lögreglumenn á þessu tímabili."

Og svo bætti hann við: ,,Því miður dugar ekki að senda sjúklinga á biðlista til undirstofnana Umhverfisráðuneytisins."

Guðlaugur Þór ályktaði sem sagt að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri-grænna hefði fórnað heilbrigðiskerfinu til að geta fjölgað starfsfólki í stofnunum sem sinna umhverfismálum. Þetta ítrekaði hann svo í fjölmiðlum, m.a. í grein í Fréttablaðinu og í viðtali við Reykjavík síðdegis.

Í hvert skipti sem Guðlaugur hélt þessu fram fóru viðvörunarbjöllur í gang í mínum litla kolli. Þeir sem þekkja eitthvað til reksturs hins opinbera gátu sagt sér sjálfir að þetta gat ekki passað. Umhverfisvernd hefur orðið fyrir alveg sama niðurskurði hjá hinu opinbera og annar rekstur. Auk þess eiga þeir sem eru eldri en tvævetur í stjórnmálum að vita að á undanförnum árum hefur fjöldi verkefna verið færður til umhverfisráðuneytisins frá öðrum ráðuneytum. Má þar nefna Landgræðsluna, Skógrækt ríkisins og Vatnamælingar Íslands.

Enda kom í ljós að Hagfræðistofnun hafði orðið á mistök við gerð umræddrar skýrslu. Fjármálaráðuneytið sendi nýverið frá sér tilkynningu þar sem segir meðal annars: ,,Ársverkum í umhverfisráðuneytinu fjölgaði um 65 en ekki um 109 eins og fram kemur í skýrslu Hagfræðistofnunar. Fjölgunin skýrist að verulegu leyti af tilflutningi verkefna frá öðrum ráðuneytum og auknum sértekjum."

Á þessum röngu upplýsingum hefur Guðlaugur Þór, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í hagræðingarnefnd ríkisstjórnarinnar, byggt áróður sinn fyrir niðurskurði í umhverfismálum, áróður sem bergmálar nú víða í samfélaginu.

En bruðlið á sviði umhverfismála er nú ekki meira en svo að af 546 milljarða útgjöldum hins opinbera á liðnu ári runnu 1,3 milljarðar til náttúruverndar. Á sama tíma eyddi ríkið t.d. 4,8 milljörðum í trúmál. Á næsta ári stefnir meirihluti Alþingis svo að því að skera niður útgjöld til náttúruverndar en auka útgjöld vegna trúmála. Nú bíð ég spenntur eftir bloggfærslunni og viðtalinu þar sem Guðlaugur Þór biðst afsökunar á að hafa farið með rangt mál og klikkir út með brandaranum: ,,Því miður dugar ekki að senda sjúklinga á biðlista í messu."