21. sep. 2013

Étið úr lófa Landsnets og Athygli

Það verður ekki af starfsfólki almannatengslafyrirtækisins Athygli tekið að það vinnur fyrir kaupinu sem Landsnet borgar því þessa dagana. Af fréttaflutningi að dæma er háspennulína yfir Sprengisand eitthvert mesta þjóðþrifaverk sem hægt er að ráðast í. Ætla mætti að fiskimjölsverksmiðjur á Austfjörðum verði ekki reknar með rafmagni og raforkuöryggi almennings verði ekki tryggt án þess að háspennulína verði lögð frá Austurlandi til Suðurlands yfir Sprengisand.

Það hefur enginn fjölmiðill haft fyrir því að vekja athygli á þeirri staðreynd að fiskimjölsverksmiðjur á Austurlandi hafa þörf fyrir 50 MW, eða sem nemur um 10% af flutningsgetu fyrirhugaðrar Sprengisandslínu. Aflþörf Akureyrar, stærsta byggðarlags Norðausturlands, er enn minna eða 20 MW. Það er óumdeilt að það þarf að auka afhendingaröryggi raforku fyrir íbúa Norðausturlands og það er æskilegt að rafvæða fiskimjölsverksmiðjur, en að leggja 220 KV Sprengisandslínu til þess er eins og að veiða fiskiflugu með fallbyssu.

Annar þáttur í áróðursstríði Athygli og Landsnets var svo skýrsla sem verkfræðistofan Efla vann um þjóðhagslega hagkvæmni stórfelldrar uppbyggingar flutningskerfis raforku. Þess má geta að Efla hefur sjálft miklar tekjur af uppbyggingu raforkuflutningskerfisins. Hagfræðingurinn Friðrik Már Baldursson var ráðinn til að blessa skýrsluna. Forsendur sem höfundar skýrslunnar gefa sér er ótrúlega villandi, þ.e. að meta kostnað við óbreytt flutningskerfi raforku í aldarfjórðung, sem þeir segja að muni kosta samfélagið allt að 144 milljarða króna og dragi úr hagvexti, leiði til orkuvinnslu með olíu, ýti undir flutnings fólks frá dreifbýli og valdi tíðara rafmagnsleysi og verðhækkun á rafmagni. Auðvitað dettur engum heilvita manni í hug að það þurfi ekki að stækka eða lagfæra raforkuflutningskerfið næsta aldarfjórðunginn. Deilan snýst um það hvort reisa þurfi stóriðjulínur yfir Sprengisand, á Suðurnes og frá Skagafirði til Akureyrar og hvort ekki megi setja raforkulínur í auknum mæli í jörð. Skýrsla hagfræðingsins og Eflu er því lítið annað en áróðursplagg fyrir Landsnet, enda eru forsvarsmenn Landnets þegar farnir að nota hana til að réttlæta Sprengisandslínu, t.d. í þessu viðtali við Fréttablaðið.

Umfjöllun fjölmiðla og skýrsla Eflu og Friðriks Más Baldurssonar eru enn ein vísbendingin um að fræðasamfélagið og fjölmiðlar hafi ekki dregið lærdóm af Hruninu og rannsóknarskýslu Alþingis. Allir sem hafa kynnt sér málið sjá að tilgangur með Sprengisandslínu er fyrst og fremst að auka raforkuöryggi álvers Alcoa á Austfjörðum og tengja fyrirhugaðar virkjanir Landsvirkjunar á hálendinu við rafmagn, t.d. Skrokkölduvirkjun, Hágönguvirkjun, Fljótshnjúksvirkjun og Hrafnabjargavirkjun (Aldeyjarfoss). Um þetta fjallar þó enginn fjölmiðill og enginn fræðimaður.