27. jún. 2013

Landsvirkjun gegn öllum friðlýsingum

Mér leist nú ekkert sérstaklega á blikuna þegar umhverfisráðherra frestaði mjög skyndilega friðlýsingu Þjórsárvera. En mig óraði ekki fyrir því hversu alvarlegt málið var í raun og veru.

Eftir að hafa lesið umkvörtun Landsvirkjunar dagsetta 20. júní, sem leiddi til frestunarinnar, þá sýndist mér málið þannig vaxið að þetta væri í raun einungis rúmlega þriggja mánaða frestun friðlýsingar. Krafa Landsvirkjunar væri í raun ekki sterkari en svo að þar væri verið að fara fram á þriggja mánaða umsagnafrest hagsmunaaðila sem kveðið er á um í 59. grein náttúruverndarlaga. Í mínum huga var eðlilegt að lögunum yrði fylgt út í ystu æsar og formsatriðum fylgt. Síðan væri það í rauninni sama hvaða rök Landsvirkjun færði fram - þau myndu aldrei vega jafn þungt og ákvörðun Alþingis um að setja virkjunarkost 27 - Norðlingaölduveitu - í verndarflokk samkvæmt rammaáætlun. Sú ákvörðun var í samræmi við tillögur sérfræðinganna sem þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa ítrekað lýst yfir að þeir vilji fylgja. Þess vegna trúði ég því (og trúi reyndar enn) að frestun friðlýsingar Þjórsárvera yrði aldrei annað og meira en bara frestun á meðan lögformlegu ferli yrði fylgt.

En mér varð ekki ljóst hversu alvarlegt málið er í raun og veru fyrr en að ég hafði kynnt mér öll bréfasamskipti Umhverfisstofnunar og Landsvirkjunar á þessu ári. Kom þá í ljós að andstaða Landsvirkjunar við friðlýsingar er miklu víðtækari en ég hafði ætlað. Í raun leggjast forsvarsmenn fyrirtækisins gegn öllum friðlýsingum á svæðum sem fóru í verndarflokk rammaáætlunar - og með mjög svo vafasömum pólitískum og lagalegum rökum. Þessi afstaða kemur fram í bréfi Landsvirkjunar til Umhverfisstofnunar 14. júní síðastliðinn, en þar segir meðal annars: ,,Að mati Landsvirkjunar er ekki tímabært að hefja undirbúning að friðlýsingu ofangreindra virkjunarkosta. Ástæða þess er aðallega sú að veruleg óvissa ríkir um núverandi rammaáætlun en ný ríkisstjórn hefur nú þegar lýst því yfir að fyrirhugað er að gera breytingar á samþykktri rammaáætlun."

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa vissulega talað opinberlega um að þeir vilji færi svæði úr biðflokki rammaáætlunar í virkjanaflokk, en enginn þeirra hefur svo mikið sem orðað það að færa svæði úr verndarflokki í virkjana- eða biðflokk. Það er því nokkuð hátt reitt til höggs af hálfu forsvarsmanna Landsvirkjunar að ætla sér að stöðva friðlýsingar á þessum forsendum.

Hitt sem forsvarsmenn Landsvirkjunar nefna máli sínu til stuðnings er langsótt túlkun þeirra á lögum um rammaáætlun. Í bréfinu er vísað í 4. málsgrein 6. greinar, en hún fjallar um verndarflokk: ,,Stjórnvöld skulu þegar Alþingi hefur samþykkt verndar- og orkunýtingaráætlun hefja undirbúning að friðlýsingu landsvæða sem ástæða þykir til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu samkvæmt verndarflokki áætlunarinnar." Þetta túlkar Landsvirkjun svo að það þurfi ekki endilega að friðlýsa svæði í verndarflokki, heldur þurfi að liggja fyrir því sérstakar ástæður. Þetta gengur þvert á túlkun Umhverfisstofnunar á lögunum, en í bréfi sem stofnunin sendi Landsvirkjun 24. maí segir að samkvæmt lögunum skuli stjórnvöld hefja undirbúning að friðlýsingu þeirra svæða sem falla í verndarflokk samkvæmt ákvörðun Alþingis ,,og er þar með talin" ástæða til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu. Þessi túlkun er í samræmi við það sem segir í greinargerð með frumvarpi til laga um rammaáætlun: ,,Í 4. mgr. er lögð sú skylda á stjórnvöld að ráðast í undirbúning að friðun þeirra svæða sem afmörkuð eru í verndarflokki verndar- og nýtingaráætlunarinnar þegar eftir að Alþingi hefur samþykkt hana."

Það er greinilegt að Landsvirkjun ætlar að reyna að beita orðhengilshætti til að koma í veg fyrir friðlýsingu allra þeirra svæða sem féllu í verndarflokk rammaáætlunar. Nú reynir fyrst af einhverri alvöru á nýjan umhverfisráðherra - stendur hann vörð um lögin og verndartilgang þeirra eða fellst hann á lögfræðilega útúrsnúninga Landsvirkjunar?