30. maí 2013

Til fundar við forsætisráðherra

Á annað þúsund mættu við Stjórnarráðshúsið við Lækjartorg á þriðjudag til að afhenda forsætisráðherra umsagnir um rammaáætlun og áskorun þess efnis að ráðherrar ríkisstjórnarinnar láti af einhliða yfirlýsingum í virkjana- og stóriðjumálum og gefa þjóðinni andrými og vettvang til umræðu um málaflokkinn. Ég komst að því þá að gjallarhorn hentar illa til ræðuhalda yfir þúsund manns. Þess vegna birti ég hér ávarp sem ég flutti við þetta tilefni:

Við erum samankomin hér í dag til að leiðrétta misskilning. Forsætisráðherra sagði í viðtali um helgina að umsagnir um rammaáætlun hefðu verið staðlaður fjöldapóstur náttúruverndarfólks. Þessi orð bera þess merki að forsætisráðherra sé ekki nægilega vel upplýstur um allar þær fjölbreyttu umagnir sem bárust, þar sem aukinnar náttúruverndar var krafist. Hann hefur líklega ekki lesið umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar - sem leggur til að gengið verði miklu lengra í verndarátt. Heldur ekki umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur - sem varar við hugsanlegum skaðlegum heilsufarsáhrifum jarðvarmavirkjana á almenning. Hann hefur líklega ekki lesið umsögn bæjarstjórnar Hveragerðis - sem lýsir sig fylgjandi skilyrðislausri vernd háhitasvæða. Og eflaust hefur hann ekki lesið umsögn Veiðifélags Þjórsár, sem gerir alvarlegar athugasemdir við tillögur um virkjun árinnar.

Við afhendum forsætisráðherra þessar umsagnir hér á eftir - og fjölda annarra umsagna almennings, stofnana, sveitarfélaga, samtaka og félaga - sem krefjast þess að náttúru Íslands verði hlíft.

Við erum líka samankomin hér í dag vegna þess að okkur er brugðið. Ríkisstjórn sem segist í stefnuyfirlýsingu vilja vinna gegn sundurlyndi og tortryggni hefur á fyrstu dögum sínum boðað stórfelldar stóriðjuframkvæmdir, eignarnám á landi fyrir háspennulínur, virkjun háhitasvæða á Reykjanesskaga, virkjun Urriðafoss í Þjórsá, virkjanaframkvæmdir í Skaftárhreppi - og þá hafa ráðherrar lýst yfir vilja sínum til að opna miðhálendið fyrir virkjanaframkvæmdum.

Er nema von að fólk sé áhyggjufullt? Orri Vigfússon, formaður Verndarsjóðs villtra laxastofna í Norður Atlantshafi, ritaði eftirfarandi um ríkisstjórnina í Fréttablaðið í dag: ,,Ég varð þó órólegur við nýjustu fréttir um hvernig stýra ætti umhverfismálum. Í þeim efnum er boðað sama fagleysi og eftirlitsleysi og áður ríkti í bankakerfinu." Orri er ekki einn um að vera órólegur. Við erum öll óróleg.

Ráðherrar ríkisstjórnar sem var kosin til að lækka byrðarnar, skatta og skuldir - þeir verða að draga til baka yfirlýsingar sínar um virkjanamál. Annars verður ekkert traust í samfélaginu - engin samstaða.

Kæru félagar. Í ljóði eftir Jón úr Vör segir á einum stað að hamingjan búi í baráttunni, en vonbrigðin á vegarenda. Það er auðvelt að draga þá ályktun að í varðstöðunni um náttúru Íslands sé við ofurefli fjármagns að etja og að vonbrigðin hljóti að bíða okkar á vegarenda. En gleymum því ekki kæru félagar, að í góðum málstað eru falin mikil völd. Og völdin vaxa enn frekar í skjóli samtöðu, eins og þeirrar sem við sýnum hér í dag.

Við skulum lofa sjálfum okkur því - í sameiningu - að vonbrigðin bíði okkar ekki á leiðarenda þeirrar vegferðar sem nú er að hefjast. En þá þurfum við líka að leggja okkur fram, bretta upp ermar og spýta í lófana. Þetta verður ekki auðvelt - en við skulum samt hafa gaman af þessu. Og hamingjan - hún skal bíða okkar á leiðarenda.