24. apr. 2013

Aldeyjarfoss og gjörnýtingarstefnan

Íslenska þjóðin er sú orkufrekasta. Ekki bara á Norðurlöndum eða norðurhveli. Ekki bara í OECD eða ESB. Hún er orkufrekasta þjóð í gjörvöllum heiminum. Orkunotkunin er 16.882 kgoe á hvern Íslending. Til samanburðar er orkunotkunin í Bretlandi 3.254 kgoe á hvern íbúa, 7.164 í Bandaríkjunum og 566 á Indlandi.

Samt tala stjórnmálamenn um það af fullri alvöru að eyðileggja Aldeyjarfoss í Skjálfandafljóti til að framleiða meiri orku. Slík gjörnýtingarstefna er t.d. enn í fullu gildi hjá borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem grætur það í viðtali við RÚV að Orkuveita Reykjavíkur hafi horfið frá hugmyndum um að virkja fossinn.

Ef einhver þjóð hefur efni á því að varðveita náttúruperlu eins og Aldeyjarfoss þá er það íslenska þjóðin með öll sín 16.882 kgoe. Við þurfum ekki á fallorku Aldeyjarfoss að halda. Við erum nægilega auðlindarík án hennar.

Umræðan um að virkja Aldeyjarfoss er bull og þvæla. Hún er óhófshjal og öfgafullur áróður. Hún er vonandi grafskriftin á leiði gjörnýtingarstefnu liðinnar aldar.