19. apr. 2013

51,3% andvíg fjölgun álvera

Rúmur helmingur aðspurðra, eða 51,3%, er andvígur því að fleiri álver verði reist hér á landi til viðbótar við þau sem þegar eru starfandi en 30,9% eru því fylgjandi. Þetta er niðurstaða könnunar sem Capacent-Gallup vann fyrir Landvernd dagana 27. mars til 8. apríl.

Þessi mikla andstaða kemur mér ekki á óvart. Við kunnum að hafa ólíkar skoðanir á þeim álverum sem búið er að byggja, en líklega komast sífellt fleiri á þá skoðun að það sé skynsamlegt að reisa ekki fleiri álver.

Fyrir því eru nokkrar ástæður.

1. Á milli 70 og 80% af framleiddri raforku hér á landi eru seld álverum. Nær öll eggin eru því komin í sömu körfuna með meðfylgjandi efnahagslegri áhættu fyrir íslenskan efnahag.

2. RÚV hefur flutt fréttir af því að álverin greiði lítið í sameiginlega sjóði þjóðarinnar.

3. McKinsey & Company fjallaði um það í skýrslu á liðnu ári að léleg arðsemi orkugeirans væri ein helsta hindrun hagvaxtar hér á landi.

4. Orkufyrirtæki í eigu almennings hafa skuldsett sig úr hófi til að reisa virkjanir fyrir álver. Það hefur m.a. leitt til hækkana á verði á rafmagni og hita til almennings og aukið þrýsting á krónuna.

5. Horfu á álmörkuðum eru dökkar. Um það hafa m.a. Financial Times og Landsbankinn fjallað. Það eru slæmar fréttir fyrir þjóðarbúið vegna þess að verð á orku til álvera hér á landi er að stórum hluta tengt álverði. Fram hefur komið að verð á áli lækkaði um 20% árið 2011, 15% á liðnu ári og um 4% það sem af er þessu ári.

6. Álver nota miklu meiri orku en önnur iðnfyrirtæki og nú þegar hagkvæmustu virkjanakostirnir hafa þegar verið nýttir þá verður alltaf erfiðarar og erfiðara að skaffa þá miklu orku sem álver þarfnast. Álver þurfa um 600-700 MW af orku, en til samanburðar má nefna að kísilkúrverksmiðja notar 100-150 MW, Jánblendið á Gundartanga 120 MW og gagnaver um 20-30 MW. Þess má geta að þrjár umdeildar vatnsaflsvirkjanir í neðri hluta Þjórsár eiga að skaffa 265 MW.

Nú liggur fyrir að álver verður ekki reist á Bakka vegna þess að til þess fæst ekki nægjanleg orka. Landsvirkjun hefur lýst því yfir. Þess vegna er álver í Helguvík eina álverið sem kann að rísa hér á landi í náinni framtíðinni.

Líklega hafa skálarnir sem nú standa í Helguvík ekki kostað Norðurál háar fjárhæðir vegna þess að fyrirtækið hefur getað sparað sér skattgreiðslur með útgjöldum í Helguvík. Þess vegna má ætla að fjárhagslegt tap Noðuráls yrði ekki mikið þótt það hætti við að reisa álver í Helguvík og einbeitti sér að hóflegri framleiðsluaukningu á Grundartanga.

Þess vegna hvet ég eigendur Norðuráls til að hlusta á rödd rúmlega helmings þjóðarinnar og hverfa frá fyrirætlunum sínum um álver í Helguvík. Það væri verðugt framlag til þjóðarsáttar um stóriðju- og virkjanamál.